Viðhaldsþörf ríkiseigna

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:21:47 (7058)

     Fyrirspyrjandi (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. greinargóð svör og einkanlega fagna ég því að hann telur að það megi búast við betra viðhaldi á ríkiseignum í framtíðinni og einnig þá auknum rannsóknum. En að undanförnu hefur viðhald opinberra bygginga verið rætt eins og ráðherra gat um í tengslum við atvinnumál og það aukna atvinnuleysi sem við stöndum frammi fyrir í seinni tíð. Þá hefur m.a. verið rætt um að flýta verkefnum sem vitað er að eru óhjákvæmileg á næstu árum. Þess vegna vil ég ítreka nauðsyn þess að fyrir liggi heildarúttekt á ástandi og viðhaldsþörf ríkiseigna sem gæti orðið undirstaða framkvæmdaáætlunar næstu ára. Á þann hátt gæti ríkisvaldið komið í veg fyrir sóun fjármuna með því að bæta úr brýnni umhirðu eigna sinna og spara þannig fé sem annars færi seinna í stórfellda endurbyggingu vanhirtra mannvirkja og síðast en ekki síst fært fjölda atvinnulausra vinnu sem ekki er síður mikilvægt verkefni í nútíð og framtíð.