Viðræður við Fríverslunarsamtök Norður-Ameríku

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:28:13 (7061)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Reykn. spyr um undirbúning að viðræðum við Fríverslunarsamtök Norður-Ameríku á grundvelli svokallaðs NAFTA-samnings, um fríverslun, markaðsaðgang, samskipti og samstarf. Í fyrra náðist samkomulag milli Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó um fríverslun milli þessara þriggja landa, þ.e. hinn svokallaði NAFTA-samningur. Þessi samningur hefur enn ekki verið fullgiltur. Ein ástæðan er sú að ný ríkisstjórn í Bandaríkjunum hefur gert það að skilyrði að gerðir verði þrír hliðarsamningar við Mexíkó, m.a. um mengunarmál, vinnulöggjöf o.fl. Samningurinn á einnig eftir að hljóta samþykki löggjafarþinga hinna þriggja ríkja og talið er að ekki sé öruggur þingmeirihluti fyrir samningnum, hvorki í Bandaríkjunum né Kanada að svo stöddu. Því má segja að framtíð NAFTA er enn í nokkurri óvissu og því varla við því að búast að hugsanlegir samningsaðilar séu á þessari stundu reiðubúnir til formlegra samningaviðræðna við þriðja aðila.
    Hitt er annað mál að af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur því verið lýst yfir að Íslendingar vilji láta á það reyna og kanna það hvort þeir eigi þess kost að taka upp slíka fríverslunarsamninga við samningsaðila NAFTA að því tilskildu að samningurinn komist á og að samningsaðilar vilji útvíkka gildissvið hans. Enn er eftir að koma á daginn hvort sá vilji er fyrir hendi. Það veltur á ýmsu til viðbótar því sem ég hef þegar sagt, m.a. á því hvort árangur næst í Uruguay-viðræðunum um GATT sem nú standa yfir. NAFTA-samningurinn gerir ráð fyrir því að hvaða ríki sem er geti gerst aðili að honum með samþykki annarra samningsaðila. Umsókn um aðild mundi því þýða fjórhliða viðræður eða jafnvel enn flóknari viðræður eftir því hversu mörg aðildarríki verða orðin að NAFTA þegar viðræður hefjast. Fyrirsjáanlegt er að slíkar viðræður hefðu umtalsverðan kostnað í för með sér og þess vegna verður að meta vel ávinninginn fyrir Ísland áður en farið er út í slíkar viðræður. Þess skal getið að tollakjör Íslendinga að því er varðar íslenskar sjávarafurðir eru okkur tiltölulega mjög hagstæð.
    Í þessu sambandi er rétt að minna á að eins og fram hefur komið í fjölmiðlum samþykkti ríkisstjórnin í október sl. að skipa starfshóp til þess að gera forkönnun á gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin. Í þessum starfshópi eru fulltrúar frá utanríkisviðskiptaráðuneyti, fjmrn., landbrn. og viðskrn. Starfshópurinn er nú í þann mund að leggja seinustu hönd á áfangaskýrslu til ríkisstjórnarinnar sem hann mun skila nú á næstu dögum. Áfangaskýrslan verður kynnt í ríkisstjórn og framhald málsins síðan mótað í framhaldi af því.