Framleiðsla og sala á búvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:54:24 (7067)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Þessi ábending hv. þm. er rétt. Ég gleymdi að svara þessari fyrirspurn. Þegar búvörusamningurinn var til umræðu á sínum tíma, þá vakti ég athygli á því að þessi bókun væri mjög laus og það var alls ekki ráð fyrir því gert með þessari bókun heldur að tíundað yrði það fé sem varið er til landgræðslu þannig að hægt væri að segja nákvæmlega að einhverjir peningar væru vegna þessarar bókunar. Þessi bókun felur almennt í sér yfirlýsingu um að við Íslendingar viljum leggja meira af mörkum til landgræðslu- og gróðurverndarstarfa og við teljum rétt að bændastéttin leggi til þá vinnu í stórum dráttum sem unnin verður í þessu skyni.
    Ég lít ekki svo á að með þessu frv. sé verið að draga úr nauðsyninni á því að við verjum til landgræðslu- og gróðurverndarstarfa meiri fjármunum en við höfum gert. Í mínum huga tengist þetta ekki þeirri grein búvörusamningsins sem hv. þm. vitnaði til þó að á hinn bóginn sé ráðstöfun af þessu tagi styrkur til viðleitni okkar við að vernda gróður í landinu og rækta upp örfoka svæði. Auðvitað nýtist vinna þessara bænda til þeirra hluta þó að fjármagn sem fellur til með þessum hætti sé ekki til þess fallið að svara til þess fyrirheits sem gefið var með þeirri grein búvörusamningsins sem vitnað var til.
    Ég vil á hinn bóginn aðeins minna á það að ástæðan fyrir því að við höfum farið hægar í sambandi við landgræðslu- og gróðurverndarstörf en við höfum kosið er einungis sú að það er mjög erfitt í ári hjá okkur Íslendingum nú. Við stöndum frammi fyrir halla á ríkisfjármálum sem er of mikill og af þeim sökum er á þessari stundu ekki hægt að gefa fyrirheit um mikil útgjöld til þessara verka né annarra.