Heimild til að selja jörðina Lönguhlíð í Vallahreppi

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 12:12:36 (7072)

     Flm. (Jón Kristjánsson) :

    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 875 um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jörðina Lönguhlíð í Vallahreppi, Suður-Múlasýslu. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Egill Jónsson, Gunnlaugur Stefánsson og Hjörleifur Guttormsson.
    Í frv. er kveðið á um að ríkisstjórninni sé heimilt að selja Katrínu Ásgrímsdóttur og Gísla Guðmundssyni jörðina Lönguhlíð í Vallahreppi, Suður-Múlasýslu, og að við söluna skuli fylgt ákvæðum 3.--5. mgr. 38. gr. jarðalaga, nr. 65 frá 31. maí 1976, sbr. lög nr. 90 30. maí 1984.
    Hér er um einfalt mál að ræða sem þarfnast ekki mikilla skýringa fram yfir það sem kemur fram í greinargerð frv.
    Frumvarpið er flutt í samræmi við óskir hreppsnefndar Vallahrepps. Hjónin Gísli Guðmundsson og Katrín Ásgrímsdóttir keyptu íbúðarhús og útihús og jarðræktarframkvæmdir á jörðinni á árinu 1988. Þar hafði hefðbundinn búskapur verið lagður niður, en í stað þess hafa þau hafið uppbyggingu á gróðrarstöð sem þau hafa rekið á jörðinni. Nú þegar hefur verið ráðist í verulegar endurbætur á jörðinni og fyrirhugaðar eru umfangsmeiri framkvæmdir. Framkvæmdir þessar kalla á fjármagn og nauðsynlegt er að taka lán í því skyni. Ekki hefur fengist samþykkt að fá frekari heimildir til veðsetningar á jörðinni þar sem sú skylda hvílir á ríkinu að innleysa slíkar framkvæmdir ef ábúendur fara af jörðinni síðar meir og þar sem þannig hagar til nú að hluti af áætlaðri uppbyggingu gróðrarstöðvarinnar er á landi skammt frá sem ekki tilheyrir jörðinni.
    Að mati sveitarstjórnar er besti kosturinn að núverandi ábúendur kaupi jörðina, en með því er ríkið leyst undan þeim skyldum sem eru samkvæmt jarðalögum um innlausn eigna. Hreppsnefnd Vallahrepps leggur einnig á það áherslu að framkvæmdir geti haldið áfram á jörðinni í því skyni að tryggja búsetu núverandi ábúenda og styrkja atvinnulíf í sveitinni. Starfsemi garðyrkjustöðvarinnar í Lönguhlíð skapar jafnframt fleirum störf og því er mikilvægt að sú uppbygging geti haldið áfram.
    Ég hef í rauninni ekki miklu við þessa greinargerð að bæta. Hér er um að ræða ungt fólk sem hefur hafið atvinnurekstur á þessari jörð og vill taka á sínum rekstri fulla ábyrgð og kaupa þá jörð sem hér er um að ræða og hefur til þess stuðning sinna sveitunga.
    Ég beini því til forseta að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. landbn.