Ríkisreikningur 1991

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 13:57:00 (7077)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Frv. það sem hér er nú til umfjöllunar á ný fjallar um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1991. Hæstv. fjmrh. flutti í gær framsöguræðu sína fyrir frv. þessu en auk þess fjallaði einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings ítarlega um málið og gerði grein fyrir nokkrum athugasemdum sem yfirskoðunarmenn og Ríkisendurskoðun hafa gert við framlagningu ríkisreikningsins og þetta frv.
    Ég hygg að það sé nokkuð óvenjulegt að yfirskoðunarmenn og Ríkisendurskoðun geri tillögu um breytingu á ríkisreikningi og tel ástæðu til að beina athygli hv. þm. að þeirri staðreynd að hér liggja fyrir tillögur frá yfirskoðunarmönnum um breytingar á framsetningu reikningsins. Ég minnist þess ekki að svo hafi áður borið við þann tíma sem ég hef setið á Alþingi og ég hygg að það sé reyndar enn lengra síðan ef það er ekki nýmæli að svona sé staðið að málum eða svona lagað komi upp.
    Það mál sem meginágreiningurinn virðist vera um varðandi framsetninguna nú er það hvort telja skuli ákveðin útgjöld ríkissjóðs vegna fjárhagstapa Framkvæmdasjóðs Íslands fram í ríkisreikningi fyrir árið 1991 eða árið 1992. Ég tel að það sé ástæða til að fara nokkrum orðum um þessar athugasemdir Ríkisendurskoðunar og þeirra ágætu manna sem valist hafa sem yfirskoðunarmenn á ríkisreikningnum vegna þessa óvenjulega máls sem hér liggur nú fyrir. En það er ekki bara þetta mál sem yfirskoðunarmenn hafa gert að umræðuefni í sinni skýrslu og finnst mér reyndar vanta nokkuð á það í því frv. sem hér liggur fyrir um samþykkt á ríkisreikningi að fjallað sé um það eða að fram komi af hálfu fjmrn. og hæstv. fjmrh. afstaða hans til þeirra ýmsu efnisatriða og ábendinga sem þar koma fram og svo í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Ég held að það sé til lítils að Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn leggi mikla vinnu í það að gera athugasemdir við hin ýmsu mál hjá hinum ýmsu stofnunum og ráðuneytum ríkisins ef síðan er lítið eða ekkert með það gert. Ég hygg reyndar að það hafi verið svo í gegnum tíðina að oftar en ekki hafi umfjöllun um ríkisreikning verið heldur lítil hér í hv. Alþingi, menn hafi látið þessar athugasemdir fram hjá sér fara, ég vil nú ekki segja sem vind um eyru þjóta, en þó mætti e.t.v. segja það að menn hafi oftar en ekki gert heldur lítið með það og lítið rætt um ríkisreikninginn, látið svo sem þetta væri afgreitt mál og hér væri aðeins verið að fjalla um staðreyndir sem fyrir lægju og vissulega er það svo í langsamlega flestum tilvikum.
    Það má líka segja að ríkisreikningurinn að þessu sinni og fyrir tvö ár þar á undan sé með nokkuð öðrum hætti en áður. Hefur oft áður verið fjallað um það hér í þingsölum og ætla ég ekki að fara að rekja það mál sérstaklega. En hann á þó að gefa betri heildaryfirsýn og gefa þeim sem vilja skoða þessar upplýsingar, velta þeim fyrir sér og hugleiða þær betri yfirsýn yfir stöðu ríkisfjármála en áður, heildarskuldbindingar ríkissjóðs eins og þær eru á hverjum tíma. Það er einmitt það sem menn hafa verið að leitast við að gera betur en áður var. Segja má einnig að með flutningi fjáraukalaga oftar nú en áður var og þeirri viðleitni hæstv. fjármálaráðherra að leita nýrra útgjaldaheimilda innan viðkomandi fjárlagaárs með fjáraukalögum í stað þess að veita aukafjárveitingar sýnir að hér er betur staðið að málum hin síðari ár en áður var. Allt þetta ber að þakka.
    En mig langar fyrst til að gera hér aðeins frekar að umtalsefni athugasemd sem fram kemur í greinargerð eða skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins þar sem þeir velta því einmitt fyrir sér hvernig eigi að meðhöndla svona skýrslur og hvernig eigi síðan að vinna úr þeim og ætla, með leyfi forseta, að lesa eina málsgrein úr þessari skýrslu. Þar segir:
    ,,Yfirskoðunarmenn telja sjálfsagt að birt verði reglulega með skýrslum Ríkisendurskoðunar hvernig athugasemdum hennar hefur verið fylgt eftir. Hið sama er að segja um athugasemdir yfirskoðunarmanna. Leggja yfirskoðunarmenn áherslu á að fram komi í skýrslu yfirskoðunarmanna og Ríkisendurskoðunar fyrir næsta ár yfirlit yfir þær stofnanir og ráðuneyti sem athugasemdir hafa verið gerðar við og hvernig þessir aðilar hafa brugðist við þeim ábendingum. Yfirskoðunarmenn telja að stofnanir og ráðuneyti þurfi með rökstuddum hætti að gera grein fyrir viðbrögðum sínum ef vel á að vera.``
    Hér tel ég að sé mikilvæg ábending og við höfum reyndar rætt þetta, þeir þm. hv. sem sæti eiga í fjárln., hvernig fylgja beri eftir hinum ýmsu skýrslum Ríkisendurskoðunar um opinberar stofnanir. Það á við um fleira en ríkisreikning að sjálfsögðu.
    Ég tel að Alþingi ætti að setja sér ákveðnar starfsreglur í þessu sambandi og mér er kunnugt um það að í sumum nágrannaþingum er sérstök nefnd, sérstök eftirlitsnefnd sem fer yfir skýrslur af þessu tagi og fylgir því eftir að eitthvað sé með þær gert en þær séu ekki bara eins og oft vill verða einhvers konar réttlæting á því að menn hafi framfylgt einhverjum lagaákvæðum og skoðað málið. Síðan fer skýrslan ofan í skúffu og er aldrei meira um hana hugsað og ekkert gert með þær ábendingar sem í henni eru. Þá er unnið fyrir gýg og illa að málum staðið. Hér er hins vegar bent á þetta mál og hugmyndir settar fram um það hvernig hugsanlega megi standa að eftirlitinu og að stofnunum og ráðuneytum sé gert skylt að gera grein fyrir þeim athugasemdum og ábendingum sem settar eru fram af hálfu eftirlitsmannanna og Ríkisendurskoðunar og hvernig við hefur verið brugðið.
    Þetta finnst mér að vanti nokkuð í umfjöllun ráðuneytisins í athugasemdum við frv. það sem hér er til umræðu og að ráðherra geri okkur aðeins grein fyrir því hvernig hann, t.d. hæstv. fjmrh., hugsar sér að fylgja þessu eftir. Mig langar að taka hér nokkur dæmi úr þessari annars ágætu skýrslu yfirskoðunarmanna. Þar er t.d. greint frá því að í ríkisreikningi fyrir árið 1991 séu mörg dæmi um að kostnaður sé færður á viðfangsefni hjá einstökum stofnunum sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum viðkomandi stofnunar. Þetta leiðir til þess að umfang einstakra verkefna og viðfangsefna er aukið umfram það sem vilji Alþingis hefur staðið til eða umfram það sem fjárlög eða sérlög sem Alþingi hefur samþykkt hafa gert ráð fyrir. Þetta finnst mér að við þurfum að hugleiða og skoða og fá kannski nánar fram hvað hér er á ferðinni. Að sjálfsögðu mun fjárln. leita eftir þeim upplýsingum því að hér er ekki tækifæri til þess að spyrja yfirskoðunarmenn nánar um þessa skýrslu eða út í hana þó svo vilji nú til að tveir þeirra séu hv. þm. en því miður ekki nema annar þeirra í þinginu um þessar mundir. Enda hlýtur það að vera vettvangur nefndarinnar að fjalla um þessi mál og skoða þau nánar og velta fyrir sér hvað hér býr að baki.
    Annað atriði sem mig lagar að nefna úr þessari skýrslu eru athugasemdir yfirskoðunarmanna um samræmdar reglur um notkun stimpilklukku. Svo vill til að það virðast alls ekki vera í gildi samræmdar reglur um þetta og einstakar stofnanir nota stimpilklukku, aðrar ekki, og á enn öðrum er verið að glíma við að fá starfsmenn til að sætta sig við þessa sjálfsögðu reglu sem er meira að segja í lagaákvæðum, í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. En í 30. gr. laga nr. 38/1954, segir, með leyfi forseta:
    ,,Hafa skal stimpilklukkur í skrifstofum og vinnustofum þar sem því verður við komið og halda skrá um hvernig starfsmenn koma til vinnu.``
    Yfirskoðunarmenn benda á það að hér er ekki í nærri því öllum tilvikum farið að settum reglum og benda á að þar sem slíkar klukkur eru m.a. undirstaða fjarvista- og yfirvinnuskráningar þá sé nauðsynlegt að setja samræmdar reglur í þessu efni fyrir allt ríkiskerfið, ekki aðeins fyrir einstakar stofnanir, og síðan eigi forsvarsmenn eða forstöðumenn þessara stofnana í átökum eða a.m.k. í erfiðleikum við að koma þessu á eða fá starfsmenn stofnananna til þess að fylgja eftir svona sjálfsögðum leikreglum sem lög kveða á um.
    Þetta vildi ég nefna og draga fram aðeins örfá atriði úr þessari skýrslu yfirskoðunarmanna en hér er auðvitað bent á fjölmörg fleiri atriði sem ástæða er til að skoða betur og verður vafalaust gert í umföllun fjárln. um þetta frv.
    Í sjálfri skýrslu Ríkisendurskoðunarinnar er síðan fjallað um fjölmörg önnur mál. Þar er m.a. nokkuð tekið á innheimtumálunum sem reyndar voru hér allmikið rædd í gær og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í sinni framsöguræðu. Hv. þm. Pálmi Jónsson, sem er einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, gerði það einnig og mig langar til að fara ofurlítið yfir það líka.
    Ég vil fyrst segja að mér finnst það mjög slæmt, og það er nánast óviðunandi, að opinberir aðilar, annars vegar fjmrn. í greinargerð með þessu frv. og hins vegar Ríkisendurskoðun í sinni skýrslu, skuli greina svo á um það hvernig þessar upplýsingar eru settar fram og að ekki skuli vera hægt með nokkuð ljósum hætti og greinargóðum að setja fram hver er raunveruleg innheimta og hvað stendur eftir óinnheimt af þeim gjöldum sem almenningi og fyrirtækjum er ætlað að greiða í ríkissjóð.
    Nú er ég ekki að segja að það sé vísvitandi sett fram með mismunandi hætti og að hvort tveggja geti ekki verið rétt eftir því hvaða forsendur menn gefa sér, og sýnir það einu sinni enn hversu auðvelt það er að fara alla vega með tölur eftir því hvernig mönnum sýnist ef til vill best að meðhöndla þær eða setja þær fram. En það getur ekki verið ásættanlegt fyrir þá sem vilja vita best og sannast um það hvernig mál standa. Í greinargerð frv. segir fjmrn. m.a. að þessi misvísun sé vegna þess hvernig farið er með annars vegar áætlanir frá skattstjóra og hins vegar raunverulega álagningu svo og hvernig fram séu talin þau opinberu gjöld sem ekki innheimtast á ári hverju en safnast upp sem óinnheimt ár frá ári. Segir m.a. í greinargerðinni að með þessari aðferð Ríkisendurskoðunar, að telja fram bæði áætlanir skattstjóra svo og þessar óinnheimtu eftirstöðvar, þá fari þetta innheimtuhlutfall stöðugt lækkandi. Nú held ég að það geti ekki verið viðvarandi. Það getur auðvitað orðið einhver breyting á því þegar horfið er frá einu kerfi til annars, að þá komi fram slíkur mismunur. En til lengri tíma litið ætti ekki að verða sú breyting á að innheimtuhlutfall fari stöðugt lækkandi og eftirstöðvar stöðugt hækkandi nema innheimtan eða eftirlitið sé ekki í góðu lagi. Og það vil ég árétta og biðja hæstv. ráðherra a.m.k. að skýra mér þá frá ef ég skil þetta ekki rétt. Ég held að það hljóti að vera svo að til lengri tíma litið ætti þetta að vera svipað hlutfall ef ávallt er staðið eins að innheimtunni, sömu vinnubrögðum beitt og auðvitað helst betri, til þess að bæta innheimtuna en ekki hið gagnstæða. En í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á það að virðisaukaskattur, staðgreiðsluskattar, svo og skattur sem er hér gefin yfirskriftin bifreiðagjöld, hafi innheimst verr en áður. Og þó að bifreiðagjöldin séu út af fyrir sig ekki stór upphæð þá hlýtur það að vera óásættanlegt að af þeim innheimtist ekki nema 76% eða að nær fjórðungur álagðra bifreiðagjalda sé óinnheimtur. Hér hlýtur að þurfa að taka betur á heldur en gert hefur verið. Ég veit reyndar að hæstv. fjmrh. hefur verið uppi með ýmsar hugmyndir um það að bæta innheimtu opinberra gjalda og beitt sér fyrir því að á þeim sé tekið fastar en áður og ber að fagna því. En hér hlýtur þó að þurfa að gera enn betur en áður hefur verið gert og óviðunandi að þessir innskattar innheimtist ekki betur en kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Hér er t.d. gerð grein fyrir því að vanskil launagreiðenda á staðgreiðslu séu mjög alvarlegt brot sem taka þarf hart á og auðvitað á það að vera óásættanlegt að ekki séu gerð skil á staðgreiðslusköttum sem fyrirtækin eða launagreiðendur hafa þá þegar innheimt fyrir hönd ríkissjóðs af launaþegunum sjálfum. Þetta er ekki nýtt mál en það verður að taka á þeim málum af meiri hörku en gert hefur verið og eiga að vera fyrir hendi skýlausar heimildir til þess að stöðva atvinnurekstur launagreiðenda sem ekki standa í skilum með staðgreiðslu skatta og þá verður fjmrn. og hæstv. fjmrh. að setja sínum innheimtumönnum skýrari reglur um það hvernig að skuli staðið til þess að ná hér betri tökum á en verið hefur.
    Í greinargerð frv. eru hins vegar þessar innheimtutölur settar fram með nokkuð öðrum hætti. Þar er aðeins tekin álagningin og innheimtan innan ársins. Ef þær tölur eru skoðaðar þá má auðvitað segja að nokkuð vel sé staðið að innheimtu ef innheimtuhlutfallið er yfir 99% í innheimtu staðgreiðsluskattanna og

98,5--99% af innheimtu virðisaukaskattsins. Hér sýnist mér þó að misvísun sé á upplýsingum og nauðsynlegt að setja þetta fram með þeim hætti að skiljanlegt sé þeim sem um málið fjalla og að því koma og vilja vita það sem réttast er í þessum innheimtumálum.
    Mig langar að nefna hér nokkur önnur atriði sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar með ríkisreikningnum og minna á þær, gera grein fyrir þeim athugasemdum hér í þessum ræðustóli þannig að hv. þm. sé betur ljóst --- því ég er nú ekki viss um að allir hv. þm. lesi þessa ágætu skýrslu Ríkisendurskoðunar nægilega vel. En þar eru einmitt ábendingar um fjölmargt sem betur mætti fara og nauðsynlegt er að tekið sé á en ekki látið sem vindur um eyru þjóta eins og ég nefndi hér áðan.
    Ég vil t.d. fletta hér upp á umfjöllun um stofnanir menntmrn. þar sem settar eru fram í nokkrum atriðum athugasemdir eins og t.d. þetta, með leyfi forseta: ,,Viðveruskráningu var mjög oft ábótavant og jafnvel ekki fyrir hendi eins og skylt er. Bókhald minni stofnana var oft á tíðum ekki eins og skyldi. Þannig vantaði oft að sjóðbók fylgdi bókhaldi. Áritanir og skýringar á tilefni gjaldareikninga voru oft ófullnægjandi. Aksturssamningar vegna aksturs starfsmanna umfram 1.000 km í þágu stofnana voru oft á tíðum ekki fyrir hendi eins og skylt er samkvæmt reglugerð um bifreiðamál ríkisins. Eignaskrár þeirra stofnana sem teknar voru til athugunar vantaði oftar en ekki.`` Hér eru almennar athugasemdir við ýmsar stofnanir menntmrn., sé gripið niður í þessa skýrslu, og margt fleira er af svipuðum toga.
    Mig langar einnig að gera hér að umtalsefni og spyrja ráðherra út í hvernig hæstv. ráðherra eða hans samráðherrar hugsi sér að bregðast við athugasemdum Ríkisendurskoðunar við stofnun sem undir félmrn. heyrir og er Tjaldanesheimilið. Þetta er reyndar ekki heldur nýtt mál, því svo háttar til með rekstur þessarar ágætu stofnunar að samkvæmt lögum ætti hún að heyra undir félmrn. sem ein af stofnunum fatlaðra en er undir stjórn Ríkisspítalanna og rekin af Ríkisspítölum líklega samkvæmt gömlu gjafabréfi um þessa stofnun sem gerir það að verkum að það hefur ekki tekist að samræma þarna annars vegar rekstur stofnunarinnar undir þann málaflokk sem hún á þó að heyra og ætti þess vegna að falla undir félmrn. Og í athugasemdum Ríkisendurskoðunar um rekstur þessa heimilis segir, með leyfi forseta:
    ,,Erfiðleikar hafa myndast varðandi fjárframlög til Tjaldanesheimilisins þar sem rekstur og stjórn heimilisins heyrir undir Ríkisspítala en fjárveitingar undir félmrn. Fjmrn. telur sig illa í stakk búið til þess að fjalla um fjárveitingar til rekstrar heimilisins þar sem afskipti þess af rekstri heimilisins séu engin. Ríkisendurskoðun telur að rekstur og stjórn Tjaldanesheimilisins eigi að flytjast til félmrn. þannig að málefni heimilisins falli að öllu leyti undir sama ráðuneyti.``
    Undir þessa athugasemd Ríkisendurskoðunar vil ég eindregið taka. Og ég vil beina þessu til hæstv. fjmrh. eða hans samráðherra, hvort heldur það eru hæstv. félmrh. eða heilbrrh. því raunverulega þyrftu þeir allir að koma að þessu máli til að gera það upp og koma þessum vandræðagangi út úr heiminum. Og þegar Ríkisendurskoðun hefur sett fram athugasemd af þessu tagi þá finnst mér ekki heldur ganga að málin séu látin eiga sig og ekkert gerist annað en að erfiðleikarnir haldi áfram og jafnvel hlaði upp á sig eins og gerst hefur í raun á undanförnum árum varðandi þessa stofnun.
    Enn langar mig að grípa hér niður á öðum stað í þessari skýrslu þar sem verið er að fjalla um stofnanir heilbrrn. Í greinargerð um Borgarspítalann er svohljóðandi athugasemd, með leyfi forseta:
    ,,Um 30 læknar hafa samið við spítalann um móttöku einkasjúklinga í húsnæði spítalans gegn greiðslu aðstöðugjalds. Eftirlit með því að læknar skili þessu aðstöðugjaldi hefur verið lítið og reyndist erfitt að koma því við. Þá hafa greiðslur borist seint. Lögð er áhersla á að leitað verði leiða til að koma á virkara eftirliti með notkun lækna á aðstöðu og sagt verði upp samningum við þá lækna sem ekki hafa staðið í skilum.``
    Ég vil út af þessu segja að ég tel að það sé sjálfsagt að semja við lækna um að þeir noti eða geti fengið afnot af stofnunum sem þeir vinna á til þess að taka á móti einkasjúklingum gegn ákveðinni greiðslu eða ákveðnu aðstöðugjaldi eins og það er kallað hér. Ég tel að það geti leitt til betri nýtingar á tækjabúnaði ýmiss konar og húsnæði fremur en verið sé að stofna til einkaaðstöðu þessara sérfræðinga úti í bæ með þá auðvitað nýjum stofnkostnaði bæði í tækjabúnaði og húsnæði. Þarna mætti samnýta eða nýta húsnæði betur sem fyrir hendi er og tæki og þá greiddu viðkomandi sérfræðingar hluta af þeim greiðslum sem þeir fá fyrir þjónustuna til viðkomandi stofnana. Ég er því ekki að gera þessa athugasemd hér eða draga hana fram úr skýrslu Ríkisendurskoðunar af því að ég sé á móti því sem hér er verið að ræða um heldur þvert á móti að undirstrika að ég tel að það sé ekki óeðlilegt að svona sé að málum staðið en það þarf þá hins vegar að vera tryggt að greiðslur skili sér á eðlilegan hátt. Það getur ekki verið svo flókið að koma því eftirliti við og ganga svo tryggilega frá samningum við sérfræðingana að þeir greiði til stofnunarinnar hvort heldur það er nú Borgarspítalinn eða aðrar hliðstæðar stofnanir það sem þeim ber. En það er alveg óviðunandi að ekki sé þá gert eitthvað með svona athugasemd, henni fylgt eftir og séð til þess að hlutir af þessu tagi séu í góðu lagi.
    Enn eitt langar mig að nefna úr þessari skýrslu og kannski að vekja sérstaklega athygli á því að undir umhvrn. er fjallað um töluvert margar stofnanir þess ráðuneytis og margvíslegar athugasemdir gerðar við rekstur eða tilhögun þeirra stofnana. Það kemur svolítið á óvart eftir að hafa farið yfir skýrsluna alla að það eru kannski ein eða tvær stofnanir undir hverju ráðuneyti sem gerðar eru athugasemdir við. En þegar fjallað er um þetta nýja ráðuneyti umhverfismála þá eru margar athugasemdir við flestallar stofnanirnar sem undir það heyra. Ekki veit ég hvort það er fyrir það að svo vandlega hafi verið litið yfir málefni

þess ráðuneytis eða með eitthvað öðrum hætti heldur en hin ráðuneytin, hugsanlegt er líka að starfsmenn Ríkisendurskoðunar hafi hér eitthvað skipt með sér verkum og vinnutilhögun ekki verið nákvæmlega sú sama en það vekur þó, finnst mér, nokkra athygli að svo skuli vera að með nýja skrifstofu eins og aðalskrifstofu umhvrn. skuli þurfa að gera athugasemdir eins og þær sem hér eru settar fram af hálfu Ríkisendurskoðunar og mig langar til að nefna nokkrar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Nokkuð skortir á að ferðareikningar væru nægjanlega vel úr garði gerðir. Eignaskrá var ekki fyrir hendi. Kostnaður vegna sama viðfangsefnis var færður hvort tveggja hjá aðalskrifstofu og á ýmis verkefni.`` Ég veit nú eiginlega ekki hvað hér er á ferðinni og hefði þurft að fá betri skýringar. Það fást væntanlega betri skýringar í umfjöllun nefndar um þetta, hvort hér er verið að tvífæra kostnað. Það er nú varla en hér er að minnsta kosti tilefni til athugasemda af hálfu Ríkisendurskoðunar. Og svo seinasta athugasemdin með aðalskrifstofuna: ,,Gerð var athugasemd við óvenjumikinn ferðakostnað sem færður var á viðfangsefnið ,,Náttúruhús í Reykjavík.`` Mér finnst það nokkuð sérkennilegt að það skuli þurfa að gera svo margar athugasemdir og sumar alvarlegar við starfsemi nýjasta ráðuneytisins og þeirrar skrifstofu, aðalskrifstofu ráðuneytis þess sem hefði þó átt að fara af stað með öðru fasi. Sama má segja um stofnanir sem undir þetta ráðuneyti heyra. Þær eru auðvitað ekki nýjar heldur hafa verið fluttar undir ráðuneytið. Þar eru nokkuð margar athugasemdir við t.d. Náttúruverndarráð. Þar er m.a. fjallað um stimpilklukkuna sem ekki var notuð og er það reyndar víða sem þær athugasemdir eru gerðar. Hér hjá veiðistjóra einnig þar er stimpilklukka ekki notuð, hjá skipulagsstjóra ríkisins er stimpilklukka ekki notuð, svo nefnd séu nokkur dæmi, og eru trúlega tilefni þess að yfirskoðunarmenn gerðu það sérstaklega að umræðuefni í sinni skýrslu að hvað þetta varðaði þyrfti að koma á betra formi og samræmdu formi milli allra ríkisstofnana.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir nokkur atriði sem mér finnst full ástæða til að vekja athygli á og ræða og fjölmargt fleira mætti auðvitað tína til úr þessari skýrslu og ræða í tengslum við staðfestingu eða samþykkt ríkisreiknings fyrir árið 1991. En ég ætla ekki að tína til öllu fleira. Það eru auðvitað ýmsar athugasemdir við einstakar stofnanir undir B-hluta en ég læt þetta gott heita hvað það varðar en langar þá aðeins aftur að snúa mér að því deilumálinu sem helst var til umræðu í gær er þeir ræddu hér þetta frv. hæstv. fjmrh. og hv. þm. Pálmi Jónsson, einn af yfirskoðunarmönnum. Það eru málefni Framkvæmdasjóðs Íslands og hvernig fara beri með þær greiðslur sem óhjákvæmilega hafa nú þegar fallið á ríkissjóð vegna þess að sjóðurinn hefur ekki getað innheimt þær útistandandi kröfur sem hann hefur átt á aðila og þær koma því til með að falla sem gjöld á ríkissjóð.
    En málið snýst kannski ekki um það heldur hvernig skuli með fara og hvenær skuli fram telja í ríkisreikningi, það er ágreiningsefnið. Nú er það ljóst að báðir aðilar, bæði fjmrn. og Ríkisendurskoðun hafa sjálfsagt nokkuð til síns máls. Fjmrn. segir hér í sérstakri greinargerð sem það hefur sett fram varðandi þetta ágreiningsefni að þeir hafi leitað álits endurskoðenda og sérfræðinga í reikningsskilum og talið sig fara þarna að bestu manna yfirsýn og setja þetta mál fram í ríkisreikningi á þann hátt sem þeir telja réttast. Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn eru hins vegar ekki sammála þeirri málsmeðferð og ég tel nauðsynlegt að fjárln. fari ítarlega yfir þetta mál allt saman því það hlýtur óneitanlega að geta skapað nokkurt fordæmi. Það hlýtur að geta gefið nokkurt fordæmi um það hvernig með verði farið í framtíðinni og þá ekki bara greiðslur af þessu tagi heldur hugsanlega ýmsar aðrar greiðslur sem getur verið álitamál um hvenær beri að reikningsfæra og hvenær séu orðnar skuldbindingar fyrir ríkissjóð sem beri að gjaldfæra.
    Það kom fram hér í umræðunum í gær að ef svo verður að ríkisreikningur stendur óbreyttur eins og fjmrn. hefur sett fram þá hefði átt að færa öfugan höfuðstól ýmissa annarra sjóða einnig sem gjöld í A-hluta ríkissjóðs. Mér finnst þó kannski að það hljóti að fara nokkuð eftir því --- ef við erum að ræða um starfsemi opinberra sjóða --- hvort viðkomandi sjóður er enn starfræktur og hefur enn möguleika á að bæta eiginfjárstöðu sína eða hvort viðkomandi sjóður er að hætta störfum eða hefur hætt störfum, hugsanlega verið lagður niður, og ljóst er hverjar skuldbindingarnar eru. Nú finnst mér það hins vegar ekki vera alveg skýrt hvað varðar þetta ákveðna ágreiningsefni hverjar skuldbindingarnar eru í raun og hugsanlega meiri en þær 1.700 millj. sem nú er verið að gjaldfæra í ríkisreikningi fyrir árið 1991. Mig minnir að ég hafi einhvers staðar séð eða heyrt talað um að það kynni að vera allt að 800 millj. kr. í viðbót við þessar 1.700 millj. Og þá spyr maður ef sjóðurinn hefur hætt störfum á árinu 1991 og þá verið ljóst hverjar skuldbindingarnar væru, ( Fjmrh.: Hætt útlánastarfsemi.) hætt útlánastarfsemi, en þá ekki verið samt skýrt hver væru heildartöpin eða áföllin á ríkissjóð. (Gripið fram í.) Hæstv. fjmrh. staðfestir að það kunni að vera 800 millj. kr. í viðbót. --- Það er e.t.v. ekki rétt að við hæstv. ráðherra tökum upp samtal hér úr ræðustóli, virðulegur forseti, en ráðherra staðfestir það þá hér á eftir úr ræðustóli. --- En það finnst mér benda til þess að málin séu ekki að fullu krufin til mergjar og við þurfum því, þeir hv. þm. sem sitja í fjárln., að skoða þetta mál ítarlega og ræða það bæði við fjmrn. og fulltrúa hæstv. fjmrh. svo og Ríkisendurskoðun og heyra álit þeirra. Og e.t.v. er þar að auki ekki óeðlilegt að fjárln. afli sér upplýsinga um það hjá öðum aðilum utanaðkomandi eða óviðkomandi hvernig eðlilegast sé að fara með hluti af þessu tagi þannig að réttum og eðlilegum reikningsskilavenjum sé framfylgt.
    Ég vil því, hæstv. forseti, ekki á þessu stigi kveða upp úr með það hvernig mér sýnist að með þessar færslur eigi að fara og hvaða tillit eigi þá að taka til þeirra athugasemda sem yfirskoðunarmenn hafa hér sett fram við ríkisreikning. En ég hlýt þó að benda á að það hlýtur að vera nokkuð sérkennilegt ef það færi svo að Alþingi tæki ekki tilliti til ábendinga þeirra yfirskoðunarmanna sem Alþingi hefur kosið og þeir

þá trúlega að velta fyrir sér stöðu sinni. Þeir eru kosnir af hv. Alþingi til að gegna þessu trúnaðarhlutverki, koma með athugasemdir eða ábendingar sem auðvitað geta ekki verið annað en þeirra skoðanir og Alþingi á síðan eftir að segja sitt álit á málinu. En það hlyti að verða nokkuð sérkennileg staða ef það kæmi upp að Alþingi féllist ekki á þeirra niðurstöðu eða álit um það hvernig fara beri með þessar færslur sem hér hafa valdið ágreiningi. Það er auðvitað líka ofurlítið --- ég vil nú ekki segja að það sé spaugilegt en það örlar þó kannski á því að við stjórnarandstæðingar höfum ofurlítið gaman af því að heyra þá takast á um þessar færslur, hv. þm. Pálma Jónsson fulltrúa Sjálfstfl. sem yfirskoðunarmaður ríkisreiknings, og fyrrv. ráðherra, fyrrv. fjárveitinganefndarmaður sem hefur komið að þessum málum á ýmsum vettvangi og hins vegar hæstv. fjmrh., ( Fjmrh.: Þetta eru húnvetnsk glímubrögð.) fulltrúa Sjálfstfl. í ríkisstjórninni sem leggur þetta fram með öðrum hætti heldur en yfirskoðunarmaðurinn vill við hafa. Þetta eru kannski húnvetnsk glímubrögð, ég kann lítið inn á þau en báðir þessir ágætu hv. þm. munu nú telja ættir sínar til Húnvetninga og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, hæstv. forseti. Ég vil aðeins ítreka að ég tel að það sé nauðsynlegt að það finnist farvegur eða vinnubrögð til að fylgja eftir athugasemdum af því tagi sem hér eru settar fram og það sé einhver aðili sem Alþingi getur treyst sem muni fara yfir þessar athugasemdir og beina því til viðkomandi stofnana og fylgja því eftir að stofnanirnar annaðhvort verði við þeim athugasemdum sem þar eru settar fram með því að lagfæra sín mál eða þá á hinn bóginn gefi skýringar á því af hverju það er ekki gert ef ráðuneytin og stofnanirnar sem undir þau heyra telja ekki ástæðu til þess að verða við slíku.
    Þetta á eins og ég sagði ekki eingöngu við um skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi ríkisreikninginn heldur og ýmsar aðrar stjórnsýsluendurskoðanir sem Ríkisendurskoðun hefur framkvæmt á undanförnum árum og það er mál sem Alþingi þarf að velta fyrir sér. Við höfum rætt það í fjárln., þeir hv. þm. sem þar sitja, hvernig með skuli farið, en ég tel að hér sé um það stórt mál að ræða að það þurfi að koma á skipulegum vinnubrögðum um það hvernig fara skuli með mál af þessu tagi.