Ríkisreikningur 1991

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 14:34:50 (7078)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega hægt að taka undir að það er svolítið einkennilegt að standa frammi fyrir þeim ágreiningi sem hér er risinn á milli tveggja þingmanna Sjálfstfl. og þó að hann sé að mestu leyti málefnalegur, ég get tekið undir það, þá erum við að sjálfsögðu að ræða líka fjármál ríkisins, uppgjör á fjármálum ríkisins málefnalega, hvernig að því skuli staðið.
    Þegar rætt er um ágreining af þessu tagi er yfirleitt vísað í það að ekki séu fullmótaðar tillögur komnar frá ríkisreikningsnefnd og það nýjasta sem við höfum heyrt um að hún ljúki störfum er að það muni gerast a.m.k. fyrir árslok og helst fyrir upphaf næsta þings eða næsta vetur. Vonandi verður það sem fyrst því að það er mjög mikilsvert að álit ríkisreikningsnefndar, sem er búin að vinna mikið í þessum málum, liggi fyrir.
    Það hefur komið fram í umræðum hér á undan að þetta þurfi að sjálfsögðu að ræða miklu betur. Það þurfi að ræða þetta og skoða málin frá öllum hliðum í fjárln. Að því búnu kemur málið aftur til 2. umr. og væntanlega hefur það þá skýrst betur. Það er þó nokkuð merkilegt að yfirskoðunarmenn komast að sömu niðurstöðu og Ríkisendurskoðun í sambandi við endurskoðun ríkisreiknings 1991. Ég vil einnig taka undir það sem fram kom í máli hv. 1. þm. Norðurl. e. að það mun vera sjaldgæft að slíkur ágreiningur komi fram þannig að það séu lagðar fram beinar tillögur um breytingu á ríkisreikningi þegar hann er tilbúinn, prentaður og kominn hér inn í Alþingi fyrst sem stór bók og síðan sem frv. til laga.
    Ég ætla ekki gera þennan ágreining mikið að umtalsefni hér, en vil þó benda á það að við vorum fyrir nokkru síðan að ræða um málefni Landsbankans. Landsbankinn er í eigu ríkisins, hann er ríkisbanki og það kemur í ljós um síðustu áramót að staða hans er þannig eftir það ár að við það verður ekki unað og ríkissjóður verður að koma til skjalanna. Þessa sögu þekkja alþingismenn og flestir landsmenn, svo mikið sem rætt var um það hér fyrir nokkru síðan. Sá vandi sem þar var um að ræða var til kominn á árinu 1992. Þá skyldi maður ætla að þær ákvarðanir sem hér voru teknar í formi framlaga, skuldabréfa eða hvað það nú verður endanlega frá ríkinu, mundi þá koma inn í þann reikning til þess að laga þá stöðu. Svo verður þó ekki gert. Samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið í fjárln., við spurðum að þessu, þá mun það ekki verða gert. Þeim reikningi verður ekki breytt til samræmis við það og framlag til Landsbankans verður ekki fært í ríkisreikningi fyrir árið 1992. Þó er þessi vandi til kominn á því ári. Núna er verið að ræða þann vanda og gera samþykktir í framhaldi af því. Mér finnst þetta vera nokkuð skylt mál og vil beina því til hæstv. fjmrh. hvað honum finnst um það, hvort hann telji ekki að þarna sé nokkuð skylt mál. Þessi vandi verður til á árinu 1992. Á þá að færa það þannig í bókhaldi Landsbankans og á þá þar af leiðandi að færa það í ríkisreikninginn sem síðar mun koma fyrir árið 1992 eða er þetta háð því þegar málið er rætt og afgreitt hér á Alþingi þótt vandinn hafi orðið til á árinu 1992? Það sama gerðist með Framkvæmdasjóð. Vandinn varð til á árinu 1991 en ekki var tekið á honum fyrr en á árinu 1992. En þetta verður að öðru leyti rætt í fjárln. og sjálfsagt meira hér við 2. umr.
    Ég ætla að öðru leyti ekki að gera að umtalsefni skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings þar sem ég tel að hv. þm. Pálmi Jónsson hafi gert það hér mjög skilmerkilega og raunar bætti hv. þm. Guðmundur Bjarnason þar nokkru við.
    Ég ætla hins vegar að nefna nokkra atriði sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Fyrst vil

ég nefna að í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar er vakin sérstök athygli á skuldastöðu A-hluta ríkissjóðs og þróuninni frá árinu 1987, þ.e. að heildarskuldir A-hluta ríkissjóðs að frádregnum kröfum séu orðnar 131,4 milljarðar kr. Að vísu eru lífeyrisskuldbindingar meðtaldar sem eru 55 milljarðar, þ.e. tæpur helmingur af upphæðinni er lífeyrisskuldbindingar vegna opinberra starfsmanna. Engu að síður er þetta mjög alvarleg staða og má benda á að skuldastaða ríkisins hefur hækkað mjög mikið milli ára og sem hlutfall af tekjum A-hluta ríkisins er þetta 124%. Þetta er sem sagt rúmlega árstekjur ríkissjóðs.
    Þá er einnig hægt að benda á eitt atriði í framhaldi af þessu sem fylgir auðvitað skuldsetningunni, þ.e. að fjármagnskostnaður A-hluta ríkissjóðs er tæpir 13 milljarðar kr. á árinu 1991 og er þá nokkurn veginn sama upphæð og álagður tekjuskattur einstaklinga árið 1991 eða 13,9 milljarðar. Allur tekjuskattur einstaklinga á árinu fer því til þess að greiða fjármagnskostnað af skuldum.
    Þá vildi ég einnig benda á að ekki hefur náðst að innheimta virðisaukaskattinn eins og áætlað var. Ég bendi sérstaklega á að það virðist sem framkvæmd virðisaukaskattsins sé mun þyngri í vöfum en öll framkvæmdin var áður á söluskattinum. Það var þó ein af aðalástæðunum fyrir því að svo mjög var barist fyrir því að taka upp virðisaukaskattskerfi að það yrði mun skilvirkara, það sparaði ótrúlega mikið, mun betur gengi að innheimta virðisaukaskattinn en söluskattinn. Hins vegar sýnist mér að framkvæmdin og reynslan síðan virðisaukaskatturinn var settur á sýni þvert á móti að viðvaranir þeirra sem töldu að þetta yrði ekki til bóta hafa haft við rök að styðjast að ég nú ekki tali um allan þann kostnað sem af því varð að breyta söluskattskerfinu yfir í virðisaukaskattskerfi. Þær tölur hef ég ekki en ég man að þegar umræðan fór fram voru þetta umtalsverðar upphæðir. Svo virðist koma í ljós að virðisaukaskattskerfið sé í raun og veru ekki miklu betra en söluskattskerfið.
    Þá má einnig nefna að mjög mikil vanskil eru á bifreiðagjöldum á þessu ári og hafa ekki innheimst nema 76% af bifreiðagjöldum á þessu ári. Þarna virðist vera pottur brotinn í innheimtu bifreiðagjalda og þyrfti að herða eftirlit með því.
    Í umræðum um fjárlög, fjáraukalög og nú um ríkisreikning hefur oft komið fram að rekstrarhallinn varð 13,5 milljarðar kr. en var 11 milljarðar á árinu áður þannig að hallinn hækkaði talsvert mikið og þó varð aukning á tekjum einnig umtalsverð því að ríkissjóðstekjurnar hækkuðu líka allmikið. Þær hækkuðu um 4,2% á milli ára en það hefur ekki dugað til þess að koma á móti því að hallinn minnkaði á þessu ári.
    Í sambandi við tekjuöflun ríkissjóðs finnst mér rétt að vekja athygli á þeirri staðreynd hversu hátt hlutfall tekna ríkisins er orðið af sköttum einstaklinga. Eignarskattar jukust nokkuð mikið. Þeir jukust eiginlega einna mest að raungildi á þessu ári. Þarna var 13% aukning á milli ára og tekjuskattur hækkaði líka, en sérstaklega hækkaði tekjuskattur einstaklinga mjög mikið. Hann jókst á milli ára um 315 millj. kr. en hann minnkaði aftur hjá fyrirtækjum. Ég bendi á það sem er að gerast einnig núna á yfirstandandi ári að tekjuskattur einstaklinga var hækkaður, staðgreiðslan var hækkuð úr rúmlega 39% í 41,5% og það virðist því vera að tilhneigingin núna frá þessu ári, 1991, og fram til ársins í ár sé sú að hækka tekjuskatt einstaklinga á móti því að skattar fyrirtækja fari lækkandi. Ég veit að þetta er rökstutt með því að fyrirtækin standi svo illa að þau þurfi að losna við eitthvað af skattgreiðslum sínum og það þurfi að létta sköttum af þeim. En ég get ekki séð að einstaklingarnir standi svo miklu betur að hægt sé að hækka sífellt skatta á þeim til þess að koma til móts við sjónarmið atvinnurekstrarins. Þarna held ég að við þurfum að stansa og skoða hvort það sé rétt að það sé sífellt hærra hlutfall sem bæði eignarskattar og tekjuskattar einstaklinga skili en minnkandi hlutfall fyrirtækja.
    Önnur tekjuöflun ríkissjóðs á þessu ári er arðgreiðslur. Þær lækkuðu umtalsvert á árinu 1991 og munaði þar mest um það að á árinu 1990 voru rúmar 500 millj. kr. arðgreiðslur frá Íslenskum aðalverktökum en engin arðgreiðsla barst á árinu 1991 eins og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það segir raunar ekki í þessari skýrslu og ég þori ekki að fullyrða um það hvort Íslenskir aðalverktakar hafi átt að greiða arð á þessu ári en a.m.k. berst engin arðgreiðsla á þessu ári. Því væri fróðlegt að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort Íslenskir aðalverktakar hafi ekki átt að greiða neinn arð á árinu 1991 eða hvernig á því stendur að engin arðgreiðsla barst frá þeim á því ári. Það er ekki mjög langt síðan, hvort það var arðgreiðsla fyrir árið 1991 eða fyrir 1992 þori ég nú ekki að fullyrða, en eigendur að Íslenskum aðalverktökum og Sameinuðum verktökum fengu háar greiðslur og var það mikið rætt, um einn milljarður kr. skiptist á milli einstaklinga. Hvort það var fyrir þetta ár eða síðasta ár vil ég ekki leyfa mér að fullyrða, en það stingur nokkuð í augu að árinu 1991 skuli Íslenskir aðalverktakar engan arð greiða til ríkissjóðs en á sama tíma eða á svipuðum tíma er stórum fjárupphæðum skipt á milli eigenda.
    Sala eigna, sem átti að skila nokkrum tekjum á þessu ári, varð ekki mikil því að bókfærðar tekjur af sölu eigna ríkissjóðs á þessu ári námu alls 383 millj. kr. og af því fóru 305 millj. til þess að kaupa aðrar fasteignir eða aðallega til kaupa á húsnæði SS við Laugarnesveg. Þarna varð nú meiri hreyfing á fjármagni og litlar tekjur að hafa af sölu eigna á þessu ári. Kannski var það ekki markmiðið fyrir árið 1991 en a.m.k. fyrir árið 1992 og 1993 er ætlunin að hafa miklar tekjur af sölu eigna en það virðist ekki ætla að ganga eftir.
    Ég gerði áðan að umtalsefni mismuninn á innheimtu söluskatts og virðisaukaskatts, þ.e. að ekki virðist ganga betur að innheimta virðisaukaskatt en söluskattinn á sínum tíma, en í úttekt Ríkisendurskoðunar á því hvernig hafi náðst að innheimta söluskattinn, sem hefur ekki verið lagður á síðan í árslok 1989,

kemur í ljós að ekki hefur gengið mjög vel að innheimta þessar gömlu skuldir eða eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:
    ,,Í árslok 1989, sem var síðasta árið sem söluskattur var við lýði, námu gjaldfallnar eftirstöðvar 3 milljörðum 554 millj. kr. Á árinu 1990 og 1991 nam álagning tæpum 700 millj. kr. Á því ári sem enginn söluskattur er á lagður, á árinu 1990 og 1991, er álagning 700 millj. kr. en það eru að stærstum hluta reiknaðir dráttarvextir.`` Síðan koma einhverjar lækkanir vegna breytinga og afskrifta sem er upp á rúman milljarð kr. En á sama tíma hafa aðeins innheimst 715 millj. kr.
    Það er alveg greinilegt að þarna innheimtist í raun og veru ekki nema um 5,6% af útistandandi skuldum söluskatts. Fróðlegt væri að vita hvort eitthvað af þessu er innheimt með skuldabréfum. Dæmi voru um það að gamlar söluskattsskuldir væru settar á skuldabréf og þau síðan sett í innheimtu. Ég veit ekki um hversu háar upphæðir þar er að ræða, en þó einhverjar milljónir og mér finnst það svolítið einkennilega staðið að verki þar sem þeir sem vildu gera upp söluskattsskuldir sínar og standa í skilum þó þeir hefðu orðið að safna upp einhverjum skuldum, sem hefði dregist að borga af ýmsum ástæðum, gerðu þá hreint fyrir sínum dyrum og sömdu og undirrituðu skuldabréf til greiðslu á þessum skuldum. Þær skuldir standa enn þá á skuldabréfi, a.m.k. hjá nokkrum aðilum, en á sama tíma er rúmur milljarður kr. afskrifaður hjá þeim sem standa ekki í skilum, hjá þeim sem semja ekki um greiðslu og standa ekki í skilum með greiðslu á söluskatti á neinn hátt. Hjá þeim er hægt að afskrifa rúman milljarð kr. og ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig er með þessi skuldabréf sem ég veit að munu vera til. Eru mörg slík skuldabréf í gangi og hvernig hefur gengið að innheimta af þeim eða er eitthvað af þeim innifalið í þeirri upphæð sem hér er verið að afskrifa? Ef svo er sitja trúlega ekki allir við sama borð í því.
    Hægt væri að rekja hvernig staða ýmissa stofnana er samkvæmt þessum reikningi og hvort þær hafa staðist fjárlög eða farið mikið fram úr fjárlögum. Ég ætla að nefna tvær stofnanir, önnur er Bessastaðastofan og hin er Þjóðleikhúsið sem er hjá menntmrn. Það sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á er að vinna við þessar stofnanir hefur farið mjög mikið fram úr fjárlögum og Ríkisendurskoðun telur að ástæða þess að þær fara svona mikið fram úr fjárlögum sé sú að hönnunarvinnu hafi verið mjög ábótavant. Áætlun hafi engan veginn staðist og til þess að koma í veg fyrir það að framkvæmdin fari svo langt fram úr áætlun þurfi að skilgreina þessa hluti miklu betur í upphafi og hönnun allra verkþátta eigi að vera lokið áður en framkvæmdir hefjast. Það er athyglisvert að t.d. Bessastaðastofa hefur farið fram úr áætlun um 56,9%. Framkvæmdakostnaðurinn var 176 millj. en áætlunin 112 millj. og Þjóðleikhúsið þurfti að fá á fjáraukalögum 220 millj. kr. til aukinna framkvæmda við endurbætur hússins og fór þannig að í fjáraukalögum fyrir árið 1991, sem eru frá því í desember 1991, var samþykkt 250 millj. kr. framlag til verkefnisins. Á þeim tíma hafði bæði ríkisábyrgð fyrir láni sem tekið var, sjálf lántakan og uppgreiðsla lánsins allt verið gert án heimildar Alþingis og þar tel ég að sé ekki rétt að málum staðið. Þó að ég sé ekki að gagnrýna að það hafi þurft að endurbæta og endurbyggja Þjóðleikhúsið og vonandi verður hægt að ljúka því eins og fyrirhugað er þá hefur að ýmsu leyti ekki verið nógu vel að verki staðið og síðan farið út í bæði lántöku og ríkisábyrgð án heimildar Alþingis.
    Þá mætti einnig spyrja um hvort einhverju af þeim athugasemdum, sem Ríkisendurskoðun hefur gert í sambandi við einstakar stofnanir, hefur verið fylgt eftir og hvort einhverju hefur verið breytt. T.d. hafa verið gerðar athugasemdir við sendiráðin og sagt að samræmt reikningsform fyrir sendiráð og fastar nefndir sé ekki til. Þar leggur Ríkisendurskoðun til að ráðuneytið hafi forgöngu um að útbúa reikningsform til notkunar í sendiráðum og hjá fastanefndum. Ég vildi spyrja hvort búið sé að bæta þetta sem hér er gerð athugasemd við. Einnig er gerð athugasemd við bifreiðamál ríkisins og sérstök skýrsla kom reyndar út á vegum Ríkisendurskoðunar um bifreiðamál ríkisins þar sem ýmsar athugasemdir eru gerðar. Ég vildi einnig spyrja hæstv. ráðherra að því hvort verið er að vinna eitthvað eftir þeirri skýrslu eða hvort eitthvað hefur verið tekið tillit til þeirra ábendinga, sem þar voru gerðar, hvort búið er að lagfæra eitthvað af þeim ágöllum sem þar var bent á.
    Hægt væri að halda áfram að rekja einstök atriði en ég geri nú ráð fyrir að betur verði farið yfir það eins og ég sagði áðan þegar málið verður rætt í fjárln. Ég ætla þó aðeins að nefna hér eitt og það er vegna þess að ásamt því að eiga sæti í hv. fjárln. þá sit ég einnig í samgn. Alþingis. Mér finnst einkennilegar athugasemdir, ef ég má orða það svo, sem gerðar eru við Vegagerð ríkisins. Ég ætla að lesa hér stutta kafla um athugasemdir þar. Varla er hægt að búast við því að menn skilji þessar athugasemdir nema með því að lesa þær a.m.k. tvisvar en þær hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Viðskiptaskuldir A-hluta Vegagerðar við B-hluta Vegagerðar hafa aukist um 106,6 millj. kr. Hér er um óbeina lántöku A-hlutans hjá B-hluta Vegagerðar að ræða. Ríkisendurskoðun bendir á að lántaka þessi hjá B-hlutanum er vegna viðskipta sem A-hlutinn á við B-hlutann og bókfærir sem vegaframkvæmdir hjá A-hluta.``
    Þarna virðist vera mikið samkrull á milli A-hluta og B-hluta Vegagerðarinnar og trúlega er það eitthvað sem þarf að lagfæra. Ég er ekki að segja að Vegagerðin sé með vísvitandi villandi upplýsingar þarna eða villandi færslur. Ég er alveg viss um að allir hjá Vegagerðinni vinna þar af einlægum áhuga og heilindum fyrir framgangi mála hjá stofnuninni og leggja metnað sinn í að hafa sem mest fjármagn til vegagerðar og vinna vel úr því. Þessar athugasemdir þarf greinilega að skoða og vita hvort ekki sé hægt að aðgreina þennan efnahag betur og raunar mun því eins og mörgu öðru í þessum ágreiningi um fjármál vera

vísað til ríkisreikningsnefndar. En eins og ég segi erum við hér að ræða ríkisreikning fyrir árið 1991 og e.t.v. er nú búið að lagfæra þessi mál og breyta þessu eitthvað til betri vegar. Ég sé nú að hv. 1. þm. Norðurl. e. hristir höfuðið en það kemur kannski í ljós hér á eftir hvort þessi mál hafa verið lagfærð.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja umræðurnar. Ég mun skoða þetta mál eins og aðrir fjárlaganefndarmenn þegar það kemur til nefndarinnar en trúlega mun mikill tími hjá nefndinni fara í það að ræða þann ágreining sem hér er milli Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings annars vegar og fjmrn. hins vegar. Þann ágreining þarf að leysa og skera úr honum og á meðan þessi ágreiningur er ekki leystur er afgreiðsla fjáraukalaga líka í lausu lofti fyrir árið 1991 og 1992 því að það hlýtur að fylgjast að að þeim sé lokið um leið. Mér er þá eiginlega spurn hvort nauðsyn beri til að afgreiða ríkisreikninginn nú, hvort þetta verður ekki allt að skoðast í samhengi.