Fjáraukalög 1992

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 17:16:49 (7088)


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil leggja inn örfá orð í þessa 1. umr. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992, það síðasta, en þetta frv. kemur að sjálfsögðu til fjárln. sem ég á sæti í þannig að það gefst tækifæri til að fjalla þar um það nánar. En eins og fram hefur komið við þessa umræðu er þetta lokafrv. fyrir árið 1992 og þá kemur reynsla á hvernig fyrsta heila ár núv. ríkisstjórnar og núv. fjmrh. hefur komið út.
    Það er oft svo að fjárlögum er fylgt úr hlaði með þeim orðum --- og þetta fjárlagafrv. fyrir árið 1992 var engin undantekning að því leyti --- að það væri um raunhæfustu fjárlög að ræða sem lögð hefðu verið fram. Það kom auðvitað í ljós að svo var ekki. Og það var einnig svo að það vantaði ekki viðvaranir í þeim efnum. Stjórnarandstaðan og minni hluti fjárln. varaði mjög sterklega við mörgum atriðum í þessu fjárlagafrv. sem mundu ekki standast og það hefur nú komið á daginn í lokaafgreiðslu þessara fjáraukalaga að þær viðvaranir áttu við rök að styðjast og mun ég aðeins koma nánar að því varðandi einstök atriði.
    Í mars kom skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 1992 og þar koma fram meginlínur í því hvernig þessi gerningur hefur staðist. Þar kemur fram að það skakkar 3,1 milljarði kr. að fjárlögin standist þær áætlanir sem voru gerðar í upphafi árs. Það er dálítið merkilegt að það kom hér frv. til fjáraukalaga hið næstsíðasta, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. tók fram í sinni ræðu, sem gerði ráð fyrir að þessi halli yrði nokkru meiri þannig að það er hægt að kynna að hallinn hafi minnkað milli þessara fjáraukalagafrumvarpa. En auðvitað stendur það eftir að halli ríkissjóðs er mun meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir.
    Ég held að ef blaðað er í skýrslu Ríkisendurskoðunar og í fjáraukalagafrv. og þessi tvö fjáraukalagafrumvörp eru skoðuð í samhengi, þá komi það í ljós að samdráttur, atvinnuleysi, útgjöld ríkisins af þeim sökum og tekjutap er að verða stærsti vandi ríkisfjármálanna. En mér finnst og það er áreiðanlega svo um marga fleiri að ríkisstjórnin hafi ekki brugðist við þessum vanda með nógu sannfærandi hætti.
    Það kom fram í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. að það sem munar í afkomu ríkissjóðs er í vaxtakostnaðinum og í fjárfestingarliðnum en hér á bls. 4 í skýrslu Ríkisendurskoðunar er tekið fram að fjárfesting hafi verið 1,6 milljörðum kr. lægri en ráð var fyrir gert, en viðhaldskostnaður hækkað um 400 millj. kr. minna en ráð var fyrir gert. Þetta er nú dálítið einkennilegt í því atvinnuástandi sem er og var á sl. ári og vafasöm efnahagsráðstöfun svo að ekki sé meira sagt. Þó að það sé vissulega jákvætt á pappírunum að þessir liðir hafi lækkað og viðhaldskostnaður hafi hækkað minna en ráð var fyrir gert, þá þýðir það að ekki hafi verið atvinna af þessum sökum og það er spurning hvað þetta er mikill sparnaður fyrir ríkið í heild, mjög vafasamt að hann sé nokkur. Ég held að þetta sé nefnilega angi af þeirri samdráttarstefnu sem rekin hefur verið allt sl. ár og það hefur ekki verið brugðist við vaxandi atvinnuleysi með nógu afgerandi hætti.
    Í fjárlagafrv. sem afgreitt var í desember er afgreidd 709 millj. kr. aukafjárveiting til Atvinnuleysistryggingasjóðs og einnig hefur atvinnuástandið afgerandi áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs. Það kemur í ljós að tekjurnar lækka af þessum sökum en útgjöldin hækka mjög hraðfara. Það er þess vegna að þessi stefna ríkisstjórnarinnar um samdrátt og afskiptaleysi ríkisvaldsins á öllum sviðum er að verða mesti vandi ríkisfjármálanna. Og niðurstaðan er að rekstrarhalli ríkissjóðs nemur 7,2 milljörðum kr. í árslok 1992 sem er 3,1 milljarði kr. hærri fjárhæð en fjárlög gerðu ráð fyrir.
    Það mætti auðvitað lengi tína til atriði sem hafa ekki gengið eftir í fjárlögunum. Það kemur í ljós að t.d. í tryggingakerfinu hafa þau útgjaldamarkmið sem fram voru sett alls ekki staðist. Því eru gerð skil í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar var áætlað í fjárlögum að sparnaður almannatrygginga árið 1992 næmi rúmum 1,1 milljarði kr. miðað við rekstrarumfang ársins 1991. Það var áætlað að spara 850 millj. kr. í sjúkratryggingum en reyndin varð sú að þær greiðslur jukust um 180 millj. kr. milli áranna og það segir orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:
    ,,Þannig var niðurstaða ársins nokkuð langt frá þeim markmiðum sem að var stefnt. Mestu munar að sá sparnaður sem stefnt var að í lyfjakostnaði, svo og lækna- og tannlæknakostnaði náði ekki fram að ganga á árinu 1992.``
    Það vantaði ekki að það var varað við þessum aðgerðum í upphafi ársins 1992 og minni hluti fjárln. á þeim tíma varaði mjög sterklega við því að þessar aðgerðir sem þá var gripið til í almannatryggingakerfinu væru vanhugsaðar, fljóthugsaðar og mundu ekki standast. Það er nú auðvitað komið á daginn.
    Það var varað við því mjög sterklega þegar fjárlögin voru til umræðu á sínum tíma að sala eigna mundi ekki ganga eftir. Það hefur komið á daginn. Og enn á árinu 1993 er lagt upp með óraunhæf markmið í þessum efnum sem þegar á fyrstu 4 mánuðum ársins, en nú eru tæplega 4 mánuðir liðnir af árinu, er ljóst að það stendur ekki steinn yfir steini í þeim áformum. En samt eru þessi markmið sett. Ekki síður var varað við að sala aflaheimilda Hagræðingarsjóðs mundi ekki skila þeim tekjum sem áætlað var og það hefur svo sannarlega komið á daginn að það hefði verið ástæða til að taka tillit til ábendinga stjórnarandstöðunnar að þessu leyti. En það sem er langalvarlegast í þessu öllu saman er það að Atvinnuleysistryggingasjóður mokar til sín peningum til þess að greiða út atvinnuleysisbætur sem er auðvitað nauðsynlegt og þyrfti auðvitað að taka fleiri aðila þar inn því að það er fjöldi af fólki atvinnulaust og nýtur ekki bóta þannig að það er ljóst að á yfirstandandi ári verða útgjöld þessa sjóðs gríðarleg. Og þess vegna ætti höfuðáherslan nú að vera lögð á að reyna að stemma stigu við þessum útgjöldum og það er vandséð að aðgerðir sem leiða til þess að fólki sé sagt upp í stórum stíl leiði til nokkurs sparnaðar. Í mörgum tilfellum er verið að segja upp fólki á lægstu töxtum. Því eru borgaðar atvinnuleysisbætur sem jaðrar við það að vera jafnháar og þessir taxtar sem fólkið vinnur á. Mér finnst allt of mikil áhersla vera lögð á það að skera niður útgjöld án þess að taka tillit til þess hvaða áhrif það hefur á atvinnustigið í landinu og þær aðgerðir sem hafa verið í þessum efnum eru afar ómarkvissar og máttlausar.
    Nú þessa dagana er þóf um þessi mál í kjarasamningum, hvort það á að auka aðgerðir ríkisvaldsins til atvinnusköpunar. Það er ekkert útséð um það hvort samningar nást. Verkalýðshreyfingin og Vinnuveitendasambandið, aðilar vinnumarkaðarins hafa verið með útrétta hönd í þessum efnum svo mánuðum skiptir en ríkisvaldið hefur dregið lappirnar. Þessi mál sjást í hnotskurn í þessu fjáraukalagafrv. og það eru megineinkenni þess hvað samdrátturinn hefur leikið ríkisfjármálin illa, bæði gjalda- og tekjumegin.
    Ég get tekið undir það að á ýmsum sviðum hefur verið unnið vel á síðasta ári og opinberir starfsmenn og embættismenn og aðrir sem vinna hjá ríkisvaldinu hafa reynt sitt ýtrasta til þess að halda utan um þá fjármuni sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé allt vont í þeim efnum. Hins vegar þó að eitthvað hafi áunnist, þá er það allt unnið fyrir gýg vegna þess að það er samdráttur í þjóðfélaginu sem ekki hefur verið brugðist við með nógu skýrum og afgerandi hætti.
    Ég mun að þessu sinni ekki fara í einstaka liði þessa fjáraukalagafrv. Það gefst tækifæri til þess í fjárln. að fjalla þar um nánar, bæði þá liði sem hæstv. fjmrh. benti sérstaklega á í sinni framsöguræðu og aðra, en ég vildi einkum við þessa 1. umr. undirstrika það hver þörf er á því að breyta um stefnu, reyna að gera sitt af hálfu ríkisvaldsins til þess að koma hjólum atvinnulífsins til þess að snúast, til þess að stuðla að því að sem flestir hafi atvinnu í landinu og til þess að stuðla að því að sem flestir geti greitt til ríkisvaldsins af sínum tekjum eðlileg gjöld og hafi tekjur til þess. En það hefur allt saman brugðist á síðasta ári að meira eða minna leyti og því er nú komið sem komið er í ríkisfjármálunum. Auðvitað hafa utanaðkomandi aðstæður gert þarna erfitt fyrir. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að svo hafi ekki verið. En hins vegar séu utanaðkomandi aðstæður erfiðar þarf ríkisvaldið að hafa forustu um að bregðast við þeim með sannfærandi hætti en það hefur svo sannarlega ekki verið gert á síðsta ári og þau áform sem uppi hafa verið í þeim efnum hafa runnið út í sandinn meira og minna eins og er hægt að tína til dæmi um, en ég ætla að láta þessi orð nægja í 1. umr.