Fjáraukalög 1992

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 17:43:09 (7090)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu lengi. Ég get tekið undir margt af því sem fram hefur komið í þessari 1. umr. um málið. Ég get tekið undir það að það er að vonum að menn reki augun í þann mikla mun sem er á niðurstöðum fjárlaga plús fjáraukalaga sem lögð voru fram í haust og afgreidd í desember og þessarar endanlegu niðurstöðu sem hér birtist í frumvarpsformi, en auðvitað á eftir að fara með það mál inn í nefndina og sjálfsagt tekur það einhverjum breytingum þar, þar til þetta liggur endanlega fyrir.
    Varðandi stofnkostnaðinn, þá er það út af fyrir sig rétt að búast má við því að það verði auknar framkvæmdir á yfirstandandi ári nema um varanlegar tafir sé að ræða sem stafi af því að menn kjósi að undirbúa verkin betur en gert hefur verið á umliðnum árum. Ég get reyndar nefnt dæmi um það og veit dæmi þess að menn hafa farið hægar í sakirnar t.d. í útboðum í stórum verkefnum af því að þeir vissu að það mundi ekki skaða verkið á næsta ári í framlögum og ég á þá von á því að slík verk taki þá heldur lengri tíma, en sem betur fer segi ég, af því að í þessu tilviki og í sumum getur verið sparnaður að því að verkin séu undirbúin betur á pappír áður en menn móta þau í steinsteypu.
    Ég vil einnig benda á að það er ekki einungis verið að færa á milli ára inneignir heldur líka skuldir. Við megum ekki gleyma því að þetta virkar á báða vegu.
    Ég ætla ekki að hefja hér deilur um sparnað og útgjöld í heilbrigðis- og tryggingmálum, enda heyrði ég á hv. 1. þm. Norðurl. e. að hann saknaði vinar í stað þar sem hæstv. heilbrrh. er ekki mættur á þennan fund, en ég get þó ekki varist því að benda á bls. 5 í skýrslu Ríkisendurskoðunar og reyndar líka bls. 40 þar sem Ríkisendurskoðun, reyndar á grundvelli sinnar eigin skýrslu, bendir á árangur sem orðið hefur í rekstri sjúkrahúsanna og klykkir út með því að segja: án þess að séð verði að þjónusta við sjúklinga hafi minnkað verulega. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að ugglaust eru að skila sér verk fyrri ára og tek undir það sem sagt hefur verið um þessi mál að þetta eru líklega þau mál sem brýnast er að ná tökum á. Flestallar OECD-þjóðir hafa verið að reyna að ná tökum á útgjöldum til heilbrigðismála, einkum og sér í lagi vegna óhóflegs kostnaðar af sérhæfðum sjúkrastofnunum og ég bendi á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að 60% af heilbrigðiskostnaðinum sé varið í kostnað vegna sjúklinga síðustu 6 mánaða á æviárum sjúklinganna. Þetta þykir Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni vera röng áhersla, hefur bent á að það mætti nota þessa fjármuni betur til forvarna eða til fjármuna í þriðja heiminum. Ég ætla ekki að taka þá deilu upp hér í dag sem er um þessi atriði. Ég vil hins vegar benda á að Bandaríkjaforseti valdi nýlega þá manneskju sem hann treysti allra best í því stóra ríki til þess að fást við og kljást við þessi mál en það var eiginkona hans, Hillary Clinton, sem leiðir nú hóp sérfræðinga sem ætlað er að skila raunhæfum tillögum en kostnaður heilbrigðisþjónustunnar í Bandaríkjunum er sá mesti í heiminum í dag, þegar allt er talið saman, bæði opinber kostnaður og kostnaður sem einkaaðilar greiða vegna heilbrigðisþjónustunnar. Ég hygg að þetta sé það verkefni sem sé kannski stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir og ég hvet eindregið til þess að þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum gefi því gaum því að hér er spurning um það hvernig nýta má fjármunina betur en við gerum í dag.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 6. þm. Vestf. fjölluðu aðeins um þær vinnureglur sem notaðar eru við flutning innstæðna og umframgjalda yfir áramót. Ég tek undir það að þessar reglur eru auðvitað alltaf til skoðunar, en það skiptir þó auðvitað miklu máli að þær séu nokkuð fastar í sessi til einhvers tíma í senn því að stofnanirnar eða stjórnendurnir verða frá upphafi að vita hverjar vinnureglur eru til að geta treyst því að þeim verði ekki breytt í lok ársins. Og ég tek skýrt fram að þetta eru vinnureglur fjmrn. við það að setja saman frv. til fjáraukalaga. Eftir að frv. hefur verið lagt fyrir þingið, þá er auðvitað valdið hjá þinginu þannig að það er ekki eðlilegt að fjárln. eða þingið semji þessar reglur. Hins vegar hefur þingið auðvitað allt vald til þess að breyta frv. eins og gefur að skilja. Ég hef hins vegar ekkert á móti því að fjárln. ræði reglurnar og gefi ábendingar því að þar eru auðvitað vanir menn og konur.
    Um fyrri liðinn sem hv. þm. Jóna Valgerður, 6. þm. Vestf. minnti á, þá held ég að þetta sé nú tiltölulega skýrt, þ.e. sá texti sem kemur fram í 1. tölul. en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ef hins vegar af einhverjum ástæðum hefur ekki verið haldið uppi þeirri þjónustu sem gert er ráð fyrir í fjárlögum, fellur heimildin niður.``
    Þetta er sett hér inn til þess að koma í veg fyrir það að einstakir stjórnendur stofnana grípi til þess ráðs að draga úr þjónustunni eins og Alþingi samþykkti að hafa hana í fjárlögum og ætli síðan að ná sér þannig í fjármuni sem þeir geta flutt til næsta árs til þess að eyða þeim á næsta ári. Ef hins vegar stendur þannig á að það væri ekki hægt að inna þjónustuna af hendi af einhverjum ástæðum á því ári sem liðið er, þá ber að sjálfsögðu að taka tillit til þess. En hér er einungis verið að koma í veg fyrir það að menn búi til sparnað með því að fara gegn vilja Alþingis og vona ég að það skýri kannski aðeins textann eins og á að skilja hann.
    Það er óþarfi fyrir mig að hafa mörg fleiri orð um það sem fram hefur komið. Ég kannast við sértekjur sem ofáætlaðar voru vegna Landspítalans að mig minnir vegna göngudeildar krabbameinsdeildar. Ég taldi það mál hafa leyst á milli ráðuneytanna og það skýrist þá í hv. fjárln.
    Að lokum, hæstv. forseti, vil ég taka undir það sem hv. þm. Jón Kristjánsson sagði um vanda ríkissjóðs. Hann er mikill og hann er vaxandi og við höfum áhyggjur af þeim vanda. Þessum vanda er stundum deilt í tvo þætti og sagt að annars vegar sé hann af hagrænum toga. Eins og kom fram hjá hv. þm., þá er það kvíðvænlegt þegar horft er á vaxandi útgjaldatölur vegna atvinnuleysistrygginga. Það er enn fremur slæmt að þurfa að sjá tekjur lækka vegna veltubreytinga í þjóðfélaginu, en sú veltubreyting stafar af samdrættinum í okkar atvinnulífi. Við getum þó huggað okkur við það að þessi halli hverfur um leið og efnahagur þjóðarinnar lagast á nýjan leik.
    Hinn þátturinn er sá kerfislægi eða innbyggði og hann er hættulegri. Allar okkar nágrannaþjóðir kappkosta nú að reyna að finna lausn á þessum kerfislægu útgjöldum, þessum innbyggða vexti sem er í ríkisútgjöldunum og sænska dæmið er kannski nýjasta og besta dæmið um það hvernig ríkisstjórn reynir að ná tökum á þessu mikla vandamáli.
    Á mánudaginn kemur verður haldinn fyrsti fundur fjármálaráðherra EFTA-ríkjanna og EB-ríkjanna saman einmitt til að ræða um það hvernig hægt sé að bregðast við vaxandi atvinnuleysi á Evrópska efnahagssvæðinu. Í undirbúningsskjölum kemur skýrt fram að allar ríkisstjórnirnar eða a.m.k. flestar hverjar eru að reyna að leita leiða með því að breyta útgjöldum ríkisins, hverfa frá eða draga úr tilfærslum og niðurgreiðslum en nýta í staðinn fjármagnið til framkvæmda, sér í lagi þeirra framkvæmda sem geta orðið grundvöllur nýs hagvaxtarskeiðs. Þar koma auðvitað samgöngur langhelst til sögunnar því að með bættum samgöngum á milli héraða má stækka atvinnusvæðin og ná fram meiri hagræðingu sem auðvitað kemur þjóðinni allri vel. Þetta vil ég taka fram vegna þess að ég held að það skorti ekki skilning af hálfu ríkisstjórnarinnar á þessu viðfangsefni og ég held að það þurfi að fara annað til þess að leita að slíkum skilningsskorti. Ég ætla nú ekki að hefja umræður um það hér, en vissulega hefur það stundum hvarflað að manni að margir, kannski allt of margir, átti sig ekki á því að halli ríkissjóðs og aukin skuldsetning hans í dag getur ekki orðið annað en kostnaður heimilanna og fyrirtækjanna á morgun því að það er engum til að dreifa til að greiða þessar skuldir öðrum en okkur sjálfum, einstaklingum og fyrirtækjum. Mér hefur stundum fundist og ég gæti nefnt nýleg dæmi þar um, meira að segja svo nýleg að maður þorir varla að nefna þau, sem benda til þess að því miður sé ekki alltaf allt of mikill skilningur á þessum sannindum.
    Að svo mæltu vonast ég til þess að nefndin sjái sér fært að afgreiða þetta frv. sem allra fyrst og satt að segja finnst mér varla boðlegt að biðja um að frv. verði geymt vegna ágreinings um færslu á málum frá 1991 því að þetta frv. á sér alveg sjálfstætt líf að mínu mati og þarf að ræðast sérstaklega sem aðskilið mál frá öðrum.