Fjáraukalög 1992

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 17:56:11 (7091)


     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. fór að ræða það hér að það væri skilningsleysi á því í samfélaginu að vandi ríkissjóðs yrði vandi heimilanna og fyrirtækjanna í framtíðinni. Það má vel vera. En hann sagði jafnframt að ríkisstjórnin hefði mikinn skilning á atvinnumálum. Ég vil hins vegar árétta þá skoðun mína sem ég hef margoft látið koma fram og við í Framsfl. að það þarf að líta á þessi mál í þjóðhagslegu samhengi, þ.e. á afkomu þjóðfélagsins í heild. Það er ekki nægilegt að stefna að góðri afkomu ríkissjóðs ef það verður til þess að draga þróttinn úr atvinnulífinu í landinu. Það er til lítils að bæta stöðu ríkissjóðs og draga úr möguleikum nýrra atvinnuvega eins og t.d. ferðamannaþjónustu eða draga þannig lífið úr sjávarútveginum að þessar atvinnugreinar verði hálflamaðar á eftir og auki atvinnuleysið. Ég tel að það hafi verulega skort á þennan skilning hjá núv. hæstv. ríkisstjórn og í reynd hjá hæstv. fjmrh. Hitt er svo annað mál að það er mikil ástæða til þess að hafa áhyggjur af afkomu ríkissjóðs og þeim mikla halla sem þar er og mér hefur skilist að áhyggjur ríkisstjórnarinnar væru miklar í þeim efnum. En þrátt fyrir það stefnir í mjög vaxandi halla og það væri fróðlegt að fá það upplýst hér við þessa umræðu fyrst hæstv. fjmrh. hóf hana hvert er hans mat á því hver verði fjárlagahallinn á árinu 1993 miðað við þá kjarasamninga sem nú er verið að gera og hvernig hæstv. fjmrh. hafði hugsað sér að það yrði fjármagnað.