Fjáraukalög 1992

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 17:58:36 (7092)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Fyrst út af því síðastnefnda. Því miður get ég nú ekki staðfest hver fjárlagahallinn verður á þessu ári. Kjarasamningar liggja ekki endanlega fyrir og því ekki hægt að svara því fyrr en svo er, en eins og hugmyndir liggja fyrir um, þá gæti ég trúað að fjárlagahallinn að óbreyttu gæti orðið 12--13 milljarðar á þessu ári. Ég get ekki hér og nú greint frá því hvort og hvernig viðbrögð ríkisstjórnarinnar verða til þess að ná niður þeim áætlaða halla. Það verður að bíða betri tíma.
    Í öðru lagi vil ég taka fram að mér finnst dálítið einkennilegt að saka ríkisstjórnina um skilningsleysi á málefnum atvinnulífsins þegar fyrir liggur að engin ríkisstjórn hefur skóflað sköttum jafnrækilega af atvinnulífinu og fært yfir á aðra eins og núv. ríkisstjórn. Og þegar við það bætist að reynt er að halda uppi kaupmættinum með öllum tiltækum ráðum og kannski þar stundum gengið fulllangt á ríkissjóð í þeim efnum. Ég vil nefna dæmi um þetta sem ég veit að hv. 1. þm. Austurl. þekkir líka, að með skattahækkunum og gengislækkunum á árinu 1989, þá varð kaupmáttur ráðstöfunartekna það árið 7,8% lakari en árið á undan. Árin 1992 og 1993 til samans er áætlað að kaupmáttarrýrnunin þegar miðað er við ráðstöfunartekjur verði 7,1% lakari heldur en var 1991. Þessi samanburður sýnir kannski við hvað er að etja og hve mikið er í lagt að reyna að halda kaupmættinum uppi með aðgerðum þrátt fyrir þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir.