Fjáraukalög 1992

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 18:00:47 (7093)


     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að ákveðið hefur verið að fella niður skatt eins og t.d. aðstöðugjöldin. En það hefur líka verið ákveðið að skattleggja ferðamannaþjónustuna í landinu sérstaklega. Það er fyrst núna sem ríkisstjórnin ætlar að standa við loforð sem hún gaf fyrir mörgum mánuðum og er búin að hafa yfir sér verkfallshótanir í marga mánuði til þess að standa við eigin loforð. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, hæstv. fjmrh.? Af hverju eru menn að eyða tíma sínum og þrótti í mál af þessu tagi í stað þess að eyða honum í það verkefni sem blasir við okkar alls staðar í þjóðfélaginu, þ.e. að auka atvinnuna? Vissulega er rétt hjá hæstv. fjmrh. að það er mikilvægt að halda uppi kaupmætti. En að mínu mati er miklu mikilvægara að halda atvinnu fyrir sem flesta, jafnvel þótt það þurfi að kosta einhverja kaupmáttarskerðingu. Ég tel að það sé mikilvægara eins og núna stendur að við reynum að jafna byrðar samfélagsins með þeim hætti. Hvort nægilegur skilningur er á því verkefni hjá aðilum vinnumarkaðarins skal ég ekkert segja um. En a.m.k. hefur mér fundist vera heldur lítill skilningur á því hjá hæstv. ríkisstjórn og satt best að segja hafa aðgerðir hennar í skattamálum verið afar fálmkenndar og ruglingslegar svo ekki sé nú meira sagt.