Gjald af tóbaksvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 21:20:55 (7107)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er að mörgu leyti sammála því sem kemur fram hjá hv. ræðumanni en ég bendi á að þegar t.d. er talað um bandarísku tóbaksrisana þá eru auðvitað möguleikar þeirra af skornum skammti vegna þess að hluti innflutningsverðlagsins af heildarverðinu er í dag og mun varla fara langt frá því að vera um það bil 15% af útsöluverði þessarar vöru. Jafnvel þótt þeir lækkuðu verðið um 10, 15 eða 20%, og þeim þykir mikið þegar talað eru um nokkurra prósentuna verðlækkun, þá hefur það auðvitað ekki úrslitaáhrif á útsöluverðið. Ég er hins vegar sammála því að auðvitað er einhver hætta á að frjáls verðlagning eða frjálst útsöluverð getur gert það að verkum að sumir sjái sér hag af því að halda verðlagningunni niðri. Það gildir um þessa vöru eins og aðrar og þekkist auðvitað hér eins og annars staðar að vissu vöruverði er haldið niðri til að freista þess að fá kaupendurna til að koma í verslunina. Ég get vel fallist á það. Við vitum ekkert hvernig það virkar fyrr en við sjáum það hvernig þetta verður í raun. Auðvitað verða menn að feta sig áfram í þessum efnum eins og öðrum. Ég legg hins vegar mikinn þunga á það sem ég hef sagt að ég vil að við spyrjum okkur ekki: hvers vegna á að breyta? heldur: hvers vegna á ríkið að gera þessa hluti? Ég hef enn ekki heyrt neitt koma fram í þessum umræðum í dag sem sannfærir mig um að nauðsyn sé á því nema síður sé að ríkið sjái um þessa starfsemi.