Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 21:36:10 (7109)

     Flm. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 368 um afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum. Þar sem 1. flm. er ekki hér á þinginu, þá mæli ég fyrir þessari tillögu fyrir hönd flm. sem eru Guðmundur H. Garðarsson, Sólveig Pétursdóttir og Þuríður Pálsdóttir. Tillagan hljóðar þannig.
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að leggja fyrir Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem leiði til afnáms tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum og jafnræðis í skattalegri meðferð vaxtahluta lífeyrisins.``
    Á 113. löggjafarþingi var samþykkt till. til þál. svipaðs efnis og hér er fram lögð. Af hálfu hv. fjmrh. var ekki orðið við þeim tilmælum sem þál. felur í sér. Á 115. löggjafarþingi var samhljóða þáltill. einnig lögð fram en fékk ekki viðeigandi afgreiðslu. Þar sem hér er um að ræða mikið mannréttinda- og réttlætismál gagnvart þúsundum aldraðra sem með ráðdeild og sparsemi hafa á starfsævinni lagt til hliðar mikið fé af takmörkuðum tekjum til að mæta ellinni er þetta mál endurflutt í trausti þess að eftirlaunafólk fái að njóta þessa sparnaðar lífeyrisgreiðslnanna, með sama hætti og aðrir sparifjáreigendur.
    Í upprunalegri greinargerð þessa máls á 113. löggjafarþingi segir svo:
    ,,Afar brýnt er að afnema það ranglæti sem viðgengst í skattalegri meðferð iðgjalda til lífeyrissjóðanna ásamt því hvernig lífeyrisgreiðslur frá sjóðunum valda lækkun greiðslna tekjutryggingar frá Tryggingastofnun.
    Þannig má í raun segja að iðgjöld sjóðfélaganna til lífeyrissjóðanna sé skattlagt í þrígang, fyrst iðgjaldið, síðan greiðslur frá sjóðunum og hvernig þeir valda skerðingu tekjutryggingar frá Tryggingastofnun sem auðvitað er líka skattlagning.
    Í flestum löndum Evrópubandalagsins eru iðgjöld bæði launþega og atvinnurekenda skattfrjáls, en lífeyrir frá lífeyrissjóðum í þessum löndum er aftur á móti skattskyldur eins og hér a landi. Nú kann einhver að halda því fram að 4% iðgjald sjóðfélagans sé innifalið í persónuafslættinum í staðgreiðslunni. Um það má deila. En nauðsynlegt er að taka af öll tvímæli þannig að launþeginn sjái greinilega að iðgjald hans til lífeyrissjóðs sé ekki skattstofn.
    Margoft hefur komið fram hversu mikið ranglæti felst í því að þeim einstaklingum sem innt hafa af hendi greiðslur til lífeyrissjóðanna skuli refsað þegar að töku ellilífeyris kemur með því að greiðslur frá sjóðunum valdi lækkun á greiðslum Tryggingastofnunar. Í kjarasamningum í febrúar 1990 var samið um að greiðslur frá lífeyrissjóðum valdi minni lækkun á tekjutryggingu en aðrar tekjur. Frá því að þetta var ákveðið hefur aftur sigið á ógæfuhliðina svo að ekki verður lengur við unað.``
    Í greinargerð Jónasar Bjarnasonar verkfræðings um ofangreint efni, og þessi greinargerð er reyndar birt í meðfylgjandi fskj., en þessa greinargerð tók hann saman fyrir Landssamband lífeyrissjóða, má sjá að jaðarskattur einstaklings sem býr einn getur orðið 76% á tilteknu tekjubili, þ.e. af hverjum 1.000 kr. sem ellilífeyrir hans frá lífeyrissjóði hækkar um heldur hann einungis eftir 239 kr. Í þessari greinargerð Jónasar Bjarnasonar koma fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar og m.a. segir þar í niðurstöðum á bls. 8 í fskj., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Niðurstaðan er hér sú að greiðslur gegnum lífeyrissjóði sæta mun óhagstæðari skattalegri meðhöndlun en greiðslur beint til launþega. Þetta ætti t.d. að hvetja launþega til þess að óska eftir að ekki verði greitt af yfirvinnu þeirri í lífeyrissjóð, heldur gangi greiðslan beint til þeirra. Þannig geti þeir ,,búið til sinn eigin lífeyrissjóð``.`` --- En það hefur einmitt nýverið komið fram tillaga hér á Alþingi um aukið frelsi í þessum málum, enda hefur núverandi fyrirkomulag sætt talsverðri gagnrýni, m.a. í þá veru sem þessi tillaga tekur á. Enn fremur segir í greinargerð Jónasar:
    ,,Þetta letur launþega til að greiða í lífeyrissjóð og verðlaunar þá sem hafa komið sér undan lagaskyldu sinni að greiða í lífeyrissjóð. Ekki skiptir miklu máli hvort greitt hefur verið í lífeyrissjóð eða ekki.`` --- Þetta atriði kemur ekki síst fram í tengslum við greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og almennt í heilbrigðis- og tryggingamálum.
    Ofangreint ástand þessara mála er Alþingi og ríkisstjórn til hreinnar skammar. Því er mikilvægt að þessi þál. verði afgreidd þegar á þessu þingi þannig að fjmrh. fari ekki í grafgötur um vilja Alþingis og leggi þegar fram lagafrv. til lausnar málinu.
    Í greinargerð með till. til þál. sem lögð var fram á 115 löggjafarþingi eru framgreind sjónarmið áréttuð með svohljóðandi hætti:
    ,,Þegar staðgreiðslu skatta var komið á var um leið tekin upp tvísköttun lífeyrisgreiðslna. Þær höfðu áður verið undanþegnar tekjuskatti. Eftir breytinguna var tekjuskattur lagður á þær tekjur sem launþegi greiddi sem iðgjald í lífeyrissjóð (4%) og síðan er lífeyririnn skattlagður á nýjan leik þegar hann er greiddur út. Eins kom upp skattaleg mismunun hvað varðar ávöxtun hluta lífeyrisiðgjaldsins þar sem tekinn er tekjuskattur af lífeyrisgreiðslum á sama tíma og ávöxtun annars sparifjár er skattfrjáls. Hér er um óviðunandi ástand að ræða. Tvísköttun tekna af þessu tagi er óþolandi og sömuleiðis mismunun í skattlagningu fjármagnstekna með þeim hætti sem hér er bent á.
    Það skal áréttað að hér er eingöngu farið fram á breytta skattalega meðferð iðgjaldshluta launþega í lífeyrissjóð.``
    Virðulegi forseti. Ýmsir hafa orðið til þess að álykta um þetta mál, t.d. Félag eldri borgara sem hefur gert ýmsar samþykktir, m.a. þá samþykkt sem gerð var á stjórnarfundi í Félagi eldri borgara þann 16. nóv. 1992, en þar segir m.a.:
    ,,Félagið mótmælir því misrétti sem í því felst að þeir peningar sem einstaklingar greiða í lífeyrissjóði skuli af ríkisvaldinu skattlagðir tvisvar og í mörgum tilvikum í raun þrisvar þar sem greiðslur úr lífeyrissjóðum skerða ýmsar greiðslur almannatrygginga, svo sem heimilisuppbót, tekjutryggingu og sérstaka heimilisuppbót.``
    Það er því ljóst að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, sem margir hafa áhyggjur af, ekki síst eldri borgarar þessa lands og því er það von mín að þessu máli verði vel tekið á hinu háa Alþingi.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og hv. efh.- og viðskn.