Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 10:40:54 (7115)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Skýrsla sú um utanríkismál sem ég mæli hér fyrir og dreift var á Alþingi þriðjudaginn 6. apríl sl., er hin önnur í röðinni sem lögð er fram í tíð núv. ríkisstjórnar. Á liðnum árum hafa bæði skýrslur um utanríkismál og umræður þingsins í kjölfar þeirra tekið mið af þeim viðfangsefnum sem efst voru á baugi hverju sinni í íslenskum utanríkismálum eða í alþjóðamálum. Fyrir ári eins og raunar nokkur undanfarin ár voru Evrópumál og hagsmunir Íslands í tengslum við Evrópska efnahagssvæðið í brennidepli og því vart við öðru að búast en að þeim málum yrði meiri gaumur gefinn i umfjöllun þingsins en öðrum þáttum alþjóðamála.
    Af ástæðum sem ekki þarf að tíunda á þessum vettvangi verða utanríkisviðskiptin og málefni Evrópska efnahagssvæðisins óhjákvæmilega veigamikil og tímafrek enn um sinn en mikilvægir þjóðarhagsmunir mega ekki verða til þess að byrgja Íslendingum sýn gagnvart heimsatburðum í stærra samhengi. Fjarlægðir milli heimshluta skipta æ minna máli með þeim afleiðingum að atburðir víðs fjarri Íslandsströndum kunna að hafa áhrif hér á landi líkt og komið hefur í ljós hvað eftir annað, t.d. í ófriðnum á Balkanskaga og Persaflóastríðinu þar á undan svo að nefnd séu dæmi.
    Við þetta bætist að skilin milli einstakra þátta í utanríkismálum eru ekki eins skýr og áður þar sem öryggismál svo tekið sé dæmi eru nú samþætt efnahags- og viðskiptamálum, mannréttinda- og umhverfismálum sem aldrei fyrr. Aðstæður í heiminum hafa bein og óbein áhrif á lífsskilyrði okkar þjóðar og í meira mæli en nokkru sinni. Þjóðleg utanríkisstefna krefst því fullnægjandi heildarsýnar yfir marga og afar ólíka þætti alþjóðamála samtímis. Við gerð þessarar skýrslu hefur hliðsjón verið höfð af þessum veruleika. Áhersla hefur verið lögð á almenn frekar en sértæk viðfangsefni, á nauðsynlega aðlögun íslenskrar utanríkisstefnu á tímum stórfelldra breytinga í alþjóðamálum. Ég vona því að skýrslan ásamt bæði þeim umræðum sem þegar hafa átt sér stað í tilefni aukaaðildar Íslands að Vestur-Evrópusambandinu og umræðum sem boðaðar hafa verið vegna nýútkominnar skýrslu nefndar um öryggis- og varnarmál --- að allar þessar umræður geti stuðlað að ítarlegri og málefnalegri umfjöllun um utanríkismálin á þeim tímamótum sem Íslendingar standa á um þessar mundir.
    Í fyrri skýrslum mínum til Alþingis hef ég lagt á það áherslu að stjórnvöld í samvinnu við Alþingi gerðu sér far um að meta áhrif umskiptanna á alþjóðavettvangi á forsendur og framkvæmd utanríkisstefnunnar. Nú á tímum umróts er ekki síður brýnt en á tímum kyrrstöðu kalda stríðsins að Alþingi og ríkisstjórn standi saman um meginmarkmið utanríkisstefnunnar.
    Ég tel ástæðu til að fagna þeim vísbendingum sem nýlega hafa komið fram á Alþingi af hálfu eins forustumanna stjórnarandstöðunnar um að flokkur hans kunni e.t.v. við hinar breyttu aðstæður í alþjóðamálum að vilja leggja lið aukinni samstöðu, samstöðu af því tagi sem öðru fremur hefur gert Íslendingum kleift á undanförnum áratugum að standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar og ná fram mikilvægum markmiðum í samskiptum við aðrar þjóðir. Slík viðhorfsbreyting verður vonandi til þess ef hugur fylgir máli, sem væntanlega kemur í ljós við þessa umræðu, að skapa rökræðum um íslensk utanríkismál vinsamlegra og skynsamlegra umhverfi en verið hefur.
    Breyttar aðstæður gefa einnig tilefni til að huga sérstaklega að tilhögun skýrslugjafar utanrrh. til Alþingis í framtíðinni og mun ég víkja nánar að því síðar.
    Virðulegi forseti. Staða Íslands í heiminum hefur breyst í veigamiklum atriðum á örstuttum tíma. Á tímum kalda stríðsins tryggði lykilstaða landsins í varnarsamstarfi vestrænna ríkja Íslendingum áhrifastöðu í Evrópu langt umfram það sem stærð þjóðarinnar eða efnahagslegir burðir gáfu tilefni til. Við hinar breyttu aðstæður verður ekki lengur gengið að því sem vísu að tillit verði tekið til íslenskra hagsmuna í evrópsku samstarfi af þeim sökum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að Ísland muni ekki slást í hóp þeirra EFTA-ríkja sem sótt hafa um aðild að Evrópubandalaginu. Umsókn Noregs, Svíþjóðar og Finnlands að Evrópubandalaginu veldur því að þungamiðja norræns samstarfs mun á næstunni færast nær Brussel. Ísland á því það á hættu að verða nokkuð afskipt, jafnvel einnig í norrænu samstarfi.

    Þessum breytingum þurfa Íslendingar að mæta af fullri einurð, hvort heldur sjálfvalin einangrun í tortryggni eða gagnrýnislaus undanlátssemi við volduga nágranna eru óásættanlegir kostir sem stuðla mundu að jaðarstöðu Íslands. Því er óhjákvæmilegt að Íslendingar hafi sjálfir að því frumkvæði að koma ár sinni betur fyrir borð í breyttu alþjóðlegu umhverfi með jafnvel virkari utanríkisstefnu en hingað til. Haldi Íslendingar hins vegar að sér höndum getur fátt komið í veg fyrir að stefnumörkun og ákvarðanir annarra ríkja hafi æ meiri áhrif á hagsmuni Íslands í framtíðinni.
    Á sviði öryggis- og varnarmála hefur ríkisstjórnin ákveðið að Ísland gerist aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu til að tryggja Íslendingum hlutdeild í samráði Evrópuríkja Atlantshafsbandalagsins. Í júní 1992 setti ég á fót nefnd fulltrúa samstarfsflokka í ríkisstjórn og embættismanna til að fjalla um öryggis- og varnarmál Íslands við breyttar aðstæður í alþjóðamálum. Nefndin skilaði nýlega áliti þar sem koma fram athyglisverðar ábendingar sem hafðar verða til hliðsjónar við stefnumörkun í náinni framtíð. Sókn ríkja Evrópubandalagsins í átt til nánara pólitísks sambands hefur einnig bein áhrif á íslenskt viðskiptaumhverfi. Að sönnu leiðir þróun þess ekki nauðsynlega til aukinna viðskiptahindrana, en hefur þó óhjákvæmilega áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Þess vegna þurfi að grípa til aðgerða til að tryggja stöðu Íslands á mikilvægasta markaðssvæðinu, Evrópu. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gafst ekki aðeins tækifæri til að tryggja aðgang að mörkuðum, heldur leiðir hann einnig til hraðari aðlögunar íslenskra fyrirtækja að nútímalegu viðskiptaumhverfi og aukinni samkeppni.
    Við lok kalda stríðsins bundu margir við það vonir að takast mætti að koma á nýrri skipan heimsmála sem mundi einkennast af friðsamlegum samskiptum og samstarfi lýðræðisríkjanna. Alþjóðlegum og svæðisbundnum samtökum, ekki síst Sameinuðu þjóðunum, var ætlað að renna styrkum stoðum undir hina nýju skipan. Dregið skyldi úr spennu og hættu á átökum, landamæri opnuð og stuðlað að aukinni hagsæld í skjóli frjálsrar verslunar þjóða í millum. Frjáls viðskipti kæmu loks með afgerandi hætti í stað verndarstefnu og einangrunarhyggju.
    Eftirleikurinn hefur orðið allur annar. Fáir gera sér lengur vonir um að fram undan bíði viburðasnautt þúsund ára sæluríki. Ofstæki, hatur og þjóðernishroki í einstökum ríkjum hefur á örstuttum tíma opinberað vanmátt hins alþjóðlega samfélags til að hafa hemil á skærum og átökum og þetta hefur minnt á að markmiðum lýðræðisríkjanna verður ekki náð nema með hægfara þróun og þrotlausu starfi til langs tíma.
    Snurður hafa einnig hlaupið á þráðinn í tilraunum ríkja Vestur-Evrópu til að koma á nánara sambandi sín í milli á viðskipta- og efnahagssviðinu. Ekki verður séð fyrir endann á GATT-viðræðunum og átti þeim þó að ljúka fyrir árslok 1990. Mikið er í húfi að þar takist vel til því renni þær út í sandinn aukast líkur á því að viðskiptaerjur magnist milli Bandaríkjanna, Evrópu- og Asíuríkja og brjótist jafnvel út í viðskiptatríði. Víst má telja að enginn fer með sigur af hólmi í slíkum átökum. Þar tapa allir.
    Umrót hefur farið vaxandi í öðrum heimshlutum, m.a. í mörgum þróunarlöndum þar sem stjórnleysi hefur leyst einræði af hólmi. Það verður að teljast ógnvekjandi að hátt á annar tugur ríkja um heim allan er talinn eiga eða geta framleitt gereyðingarvopn.
    Þetta ótrygga ástand í heiminum veldur því að óhjákvæmilegt er að hugað verði áfram að öryggi og landvörnum. Þrátt fyrir að skipting Evrópu í andstæðar fylkingar og sú beina hernaðarógn sem henni fylgdi heyri nú sögunni til, um sinn a.m.k., getur engin þjóð leyft sér að láta öryggi sitt og landvarnir fyrir róða. Ekki væri þó síður háskalegt að láta undir höfuð leggjast að leita allra þeirra færa sem nú gefast til að stuðla að auknum friðsamlegum samskiptum og samvinnu þjóða, ekki síst þeirra sem fyrir stuttu voru sitt hvorum megin markalínu austurs og vesturs. Þetta á við um samvinnu í öryggis- og varnarmálum en einnig á sviði efnahags- og viðskiptamála, umhverfismála og mannréttinda. Í þessu efni getur Ísland lagt lóð sitt á vogarskálarnar með virkri þátttöku í fjölþjóðasamstarfi.
    Virðulegi forseti. Í skýrslu nefndar um öryggis- og varnarmál sem áður er á minnst er réttilega á það bent að á tímum örra breytinga í heimsmálum standi Íslendingar ekki vörð um öryggi sitt nema með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og með varnarsamstarfi við vinveitt nágrannaríki. Breytingar sem átt hafa sér stað valdi því að renna þurfi fleiri stoðum undir íslenska öryggishagsmuni en gert er með varnarsamningnum við Bandaríkin og aðildinni að Atlantshafsbandalaginu. Jafnframt er áréttað að varnarsamstarfið við Bandaríkin og þátttaka Íslands í samstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins séu og verði hin bjargfasta undirstaða öryggis landsins.
    Þrátt fyrir óhjákvæmilegar stefnubreytingar innan Atlantshafsbandalagsins og í varnarsamstarfinu hafa hvorki Ísland né önnur bandalagsríki hug á grundvallarbreytingum. Á sama hátt og íslensk stjórnvöld hafa tekið þátt í aðlögun Atlantshafsbandalagsins að nýjum aðstæðum hafa þau átt skoðanaskipti við fulltrúa bandarískra stjórnvalda á ýmsum stigum um framtíð og framkvæmd varnarsamstarfsins bæði í ljósi breyttra aðstæðna á Norður-Atlantshafi og niðurskurðar útgjalda til varnarmála í Bandaríkjunum. Af hálfu bandarískra stjórnvalda og í öðrum nálægum bandalagsríkjum hefur hernaðarlegt mikilvægi hnattlegu Íslands verið ítrekað, ekki síst samfara fækkun í bandarísku herliði á meginlandi Evrópu og aukinni hættu á svæðisbundnum átökum. Á það má benda að varnaráætlanagerð Atlantshafsbandalagsins byggist nú æ meir og mun meira en áður á liðsauka og birgðaflutningum frá Norður-Ameríku til Evrópu.
    Á undanförnum árum hefur Ísland ásamt öðrum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins tekið þátt í að laga bandalagið að breyttum aðstæðum og nýjum verkefnum. Aðlögun þessi endurspeglast m.a. í nýrri öryggismálastefnu, sem byggist á fækkun í herjum og áherslu á fjölþjóðlegar viðbragðsskjótar hersveitir,

stofnun Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins, þátttöku í friðargæslu og aukinni ábyrgð evrópskra aðildarríkja á sameiginlegu öryggi okkar.
    Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur áhersla verið lögð á varfærna aðlögun bandalagsins þannig að ekki yrði dregið úr stjórnmálalegri samstöðu eða kjarna varnarsamstarfsins, einkum hvað varðar sterk tengsl aðildarríkjanna í Norður-Ameríku og Evrópu. Einnig hefur það verið afstaða íslenskra stjórnvalda að æskilegt væri að stofna til sem nánastra tengsla og samvinnu Atlantshafsbandalagsins við aðrar stofnanir og samtök í Evrópu.
    Þrátt fyrir nokkra umræðu um fjölgun bandalagsríkja hefur ekki verið talið tímabært að skilgreina sérstök inntökuskilyrði. Íslensk stjórnvöld munu hvetja til þess að umsóknir um fulla aðild eða beiðnir um öryggisskuldbindingar verði skoðaðar fyrst og fremst með tilliti til þess hvort það styrki bandalagið og stuðli að stöðugleika í Evrópu til lengri tíma litið.
    Þótt aðlögun Atlantshafsbandalagsins hafi að flestu leyti verið árangursrík er enn óljóst hvernig bandalagið mun þróast og hvert meginhlutverk þess verður. Stórfelld svæðisbundin átök verða yfirleitt ekki til lykta leidd af einni stofnun eða samtökum, heldur þarf sameiginlegt átak til að koma á friði og finna lausn á deilumálum. Þar getur Atlantshafsbandalagið vissulega gegnt lykilhlutverki vegna hernaðarlegra burða og stjórnmálalegra áhrifa, ekki síst í Mið- og Austur-Evrópu. Það hefur burði til að annast friðargæslu eða jafnvel aðgerðir til að stilla til friðar í Evrópu ef Sameinuðu þjóðirnar eða Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu óska eftir því að bandalagið taki að sér slík verkefni, enda samrýmist það stofnskrá og markmiðum þess. Öðrum aðilum er ekki til að dreifa til þess að gegna þessu hlutverki.
    Tillaga ríkisstjórnarinnar til þál. þar sem lýst er stuðningi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu endurspeglar þau varanlegu áhrif sem umskiptin í Evrópu hafa haft á samstarf vestrænna ríkja í öryggismálum. Aukaaðild Íslands að sambandinu er ekki aðeins í samræmi við íslenska öryggishagsmuni heldur þjónar hún einnig hagsmunum Atlantshafsbandalagsins sem heildar. Er það í samræmi við sjónarmið sem fram kom í viðræðum nefndarinnar um öryggis- og varnarmál við stjórnvöld í Bandaríkjunum, Noregi og Bretlandi og við forustumenn Atlantshafsbandalagsins þar sem allir viðmælendur okkar lýstu ánægju sinni með þá ákvörðun Íslands að taka boði um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu.
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa Evrópuríki, hvert með sínum hætti, þurft að taka afstöðu til þess hvernig framtíðarsamstarf ríkja álfunnar væri best háttað. Evrópubandalagið hefur nú öðlast slíkt vægi að allt milliríkjasamstarf innan Evrópu tekur mið af því sem þar gerist. Sókn Evrópubandalagsríkjanna í átt til nánara pólitísks sambands virtist um skeið óstöðvandi, en úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um Maastricht-samkomulagið í Danmörku, naumur stuðningur Frakka við það og tregða Breta hafa valdið því að jafnvel þótt Maastricht-samkomulagið verði að lokum samþykkt, bæði í Bretlandi og Danmörku má heita að allur vindur sé úr seglum heitustu talsmanna sambandsríkis Evrópu.
    Umrót á gjaldeyrismörkuðum Evrópu hefur einnig leitt til efasemda að efnahagslegar forsendur séru fyrir evrópskri gjaldeyriseiningu.
    Alkunna er að innan Evrópubandalagsins hefur því gjarnan verið haldið fram að erfitt væri að gera hvort tveggja í senn, fjölga aðildarríkjunum og styrkja innviði bandalagsins. Því var það skilyrði upphaflega sett á leiðtogafundi Evrópubandalagsins í Lissabon að aðildarviðræður við EFTA-ríkin, þau sem sótt hafa um aðild, gætu ekki hafist fyrr en eftir samþykkt Maastricht-samkomulagsins. Fjögur EFTA-ríkjanna hafa nú engu að síður hafið aðildarviðræður við Evrópubandalagið. En fari svo að Bretar eða Danir felli Maastricht-samkomulagið munu aðildarviðræður þessar greinilega lenda í uppnámi. Margt annað getur orðið til þess að draga aðildarviðræður á langinn. Ekki er heldur víst að sú niðurstaða náist að lokum sem verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í ríkjunum fjórum. Umsækjendur úr röðum EFTA-ríkjanna geta því þurft að treysta á EES-samninginn lengur en næstu tvö ár.
    Hvert nýtt aðildarríki breytir eðli og svipmóti Evrópubandalagsins og raskar viðkvæmu valdajafnvægi innan þess. Það er því farið varlega í sakirnar áður en nýjum ríkjum er hleypt að samningaborðinu. Tilboð leiðtogafundarins í Lissabon til EFTA-ríkjanna um að aðildarviðræður skyldu hefjast fljótt fékkst ekki fram nema fyrir verulegan pólitískan þrýsting og verður því vart endurtekið í bráð. EFTA-ríkin hafa nú þegar hvert á sinn hátt svarað því tilboði. Vangaveltur um mögulega aðild Íslands að EB eru því fjarlægari nú en fyrir ári síðan. Næst þegar Evrópubandalagið vekur máls á því að fjölga aðildarríkjum, þá verður það að takast á við umsóknir nýfrjálsra ríkja Austur-Evrópu þar sem svokölluð Visegrad-ríki, þ.e. Tékkland, Ungverjaland og Pólland, verða fremst í biðröðinni. Sú lota getur teygst fram á næstu öld ef af henni verður. Fjölgi aðildarríkjum mikið fram yfir 16 er ljóst að taka verður allar stofnanir EB til gagngerrar endurskoðunar og óvíst er hversu langan tíma það tekur, en því verkefni munu þeir væntanlega sinna samkvæmt þegar gerðu samkomulagi eftir 1996.
    Hinir kredduföstustu talsmanna Evrópubandalagsins hafa jafnan haldið því á loft að ekki þýði annað í samstarfi Evrópuríkja en að taka við öllum skuldbindingum án undantekninga, ekki gefist kostur á að velja og hafna. Þess sjást nú nokkur merki að þessi bókstafstrú er á undanhaldi þótt hún sé langt frá því að vera horfin af sjónarsviðinu.
    EES-samningurinn markar að því leyti tímamót að með honum var í fyrsta skipti vakið máls á því að veita ríkjum utan Evrópubandalagsins hindrunarlausan aðgang að innri markaðnum án þess að því fylgdi

að taka við öðrum skuldbindingum en þeim sem nauðsynlegar væru fyrir snurðulausan rekstur Evrópska efnahagssvæðisins. Gamlar starfsaðferðir innan Evrópubandalagsins sem miðuðust við að staðla og samræma öll tæki og starfsaðferðir hafa þróast í þá átt að setja aðildarríkjunum almenn markmið sem þau uppfylla síðan hvert á sinn hátt. Með Maastricht-samkomulaginu er fest í sessi þessi starfsregla að enga ákvörðun beri að taka á efra stjórnsýslustigi sem hægt væri að taka á neðra stigi án vandkvæða eða viðskiptahindrana. Samkvæmt þessari reglu, sem kennd hefur verið við dreifræði, er tryggt að sameiginlegar stofnanir EB gangi ekki um of inn á valdsvið einstakra aðildarríkja eða sveitarstjórna. Þess er þegar farið að gæta í stjórnkerfi Evrópubandalagsins að tekið er tillit til þessa því að tilskipanir eru að verða æ færri og almennari að eðli. Vaxandi sveigjanleiki EB tekur á sig aðrar myndir. Innan Evrópubandalagsins hefur hvort tveggja gerst að nokkur aðildarríki hafa tekið sig saman um að efla samstarf sín í milli án þess að öll aðildarríkin væru þar með og það að einstök ríki hafa verið undanþegin nýrri samþykktum EB á tilteknum sviðum. Má þar nefna undanþágu Dana frá hlutum Maastricht-samkomulagsins og Breta frá félagsmálasáttmála Evrópubandalagsins. Ef byggja á upp frekara samstarf allra Evrópuríkja verður að taka tillit til sérstöðu hvers og eins þeirra, finna hverju sína vistarveru.
    Að öllu þessu samanlögðu getur þróunin auðveldlega orðið á þann veg að EES-samningurinn geti átt fyrir höndum lengri lífdaga en menn ætluðu fyrir fáeinum missirum. Hvernig sem öðrum aðildarríkjum EFTA vegnar í aðildarviðræðunum verður EES-samningurinn traustur grunnur sem hægt verður að byggja á þegar samskiptum Íslands og Evrópubandalagsins verður ráðið til lykta í framtíðinni. Þær skuldbindingar og þau réttindi sem EES-samningnum fylgja munu standa þótt semja verði um einfaldara fyrirkomulag stofnana verði samningsaðilar ekki aðrir en Ísland og Evrópubandalagið.
    Virðulegi forseti. Tilraunir til að hemja borgarastyrjöldina í fyrrverandi Júgóslavíu hafa enn ekki borið árangur. Íbúar Bosníu-Hersegovínu hafa orðið hart úti og hætta er á að átökin breiðist út til annarra landsvæða.
    Ísland var á sínum tíma fyrst vestrænna ríkja til þess að viðurkenna sjálfstæði Slóveníu og Króatíu og viðurkenndi Bosníu-Hersegovínu skömmu síðar. Ísland stóð fyrir aðildartillögu Slóveníu að allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og utanrrh. þáði heimboð til Slóveníu dagana 14.--15. okt. sl. Á sama tíma stóð til að sækja heim Króatíu en af því gat ekki orðið af óviðráðanlegum ástæðum. Makedóníu var nýlega veitt aðild að Sameinuðu þjóðunum. Ísland var í síðustu viku meðflytjandi að tillögu á allsherjarþinginu um aðildina og hef ég sent utanríkisráðherra landsins heillaóskaskeyti og tilkynnt honum að íslensk stjórnvöld séu reiðubúin til viðræðna um stjórnmálasamband ríkjanna. Stjórnvöld hafa á undanförnum mánuðum tekið virkan þátt í alþjóðlegu starfi um málefni fyrrverandi Júgóslavíu. Auk almennra framlaga til hjálparstofnana var framlag Íslands á sl. ári til friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna í fyrrverandi Júgóslavíu tæpar 5 millj. kr. og viðbótarframlag til flóttamannastofnunar 3 millj. Ríkisstjórnin hafði samstarf við Rauða kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar um fjársöfnun til stuðnings stríðshrjáðum þegnum í fyrrverandi Júgóslavíu og Sómalíu og söfnuðust um 22 millj. kr. Þar af voru 4 millj. kr. framlag stjórnvalda. Einnig ákvað ríkisstjórnin að stofna vinnuhóp um aðgerðir til aðstoðar í fyrrverandi Júgóslavíu með fulltrúum utanrrn., Rauða kross Íslands og Hjálparstofnunar kirkjunnar. Tillögum vinnuhópsins var hrundið í framkvæmd. Þær fólu í sér kaup á fæði fyrir níu þúsund flóttamenn í Slóveníu, fatasöfnun, matvælasendingar og endurbyggingu húsnæðis fyrir flóttamenn fyrir 16 millj. kr. Fatasöfnunin heppnaðist vel og söfnuðust alls um 150--160 tonn af hlýlegum skjólfatnaði, en verðmæti hans er áætlað um 30--50 millj. kr. Það samstarf sem ríkisstjórnin hefur átt við óopinber félagasamtök hefur því skilað góðum árangri og er vonast til að framhald geti orðið á þessu samstarfi.
    Til viðbótar þessu ákvað ríkisstjórnin að veita 6,4 millj. kr. til að greiða laun allt að þriggja einstaklinga sem kunna að verða ráðnir til friðargæslustarfa í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu. Slík ákvörðun hefur ekki verið tekin áður og er liður í því að Ísland axli aukna ábyrgð á alþjóðavettvangi. Loks ákvað ríkisstjórnin að afsala sér 115 millj. kr. lánsheimild á niðurgreiddum vöxtum frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins að því tilskildu að lánið yrði notað til uppbyggingar og aðstoðar við flóttafólk í fyrrverandi Júgóslavíu en vextir af umræddu láni eru mun lægri en af öðrum sambærilegum lánum sem Ísland á kost á.
    Þátttaka Sameinuðu þjóðanna í friðarumleitunum hefur farið stigvaxandi. Öryggisráðið hefur samþykkt ályktun um efnahagslegar refsiaðgerðir auk annarra ályktana til þess að auka skilvirkni refsiaðgerðanna. Aðgerðirnar hafa hins vegar ekki enn þá skilað þeim árangri sem vonir voru við bundnar. Atlantshafsbandalagið hefur jafnt og þétt aukið þátttöku í framkvæmd refsiaðgerða Sameinuðu þjóðanna. Flotadeild bandalagsins hefur aðstoðað við framkvæmd ályktana öryggisráðsins. Nýlega ákvað bandalagið að aðstoða Sameinuðu þjóðirnar við framkvæmd ályktunar öryggisráðsins frá 31. mars sl. um aðgerðir til að framfylgja banni við flugi yfir Bosníu-Hersegovínu. Auk þess er hafinn undirbúningur að þátttöku Atlantshafsbandalagsins í framkvæmd Vance/Owen-friðaráætlunarinnar. Þess má geta að íslensk stjórnvöld styðja að fullu aðgerðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins til að knýja Serba í Bosníu-Hersegovínu og serbnesk stjórnvöld til að virða friðaráætlunina.
    Virðulegi forseti. Samskipti Íslands og Rússlands hafa verið vinsamleg á undanförnun áratugum. Stjórnmálaástandið í Rússlandi og breytingar á viðskiptum ríkjanna hafa nú sett þessum samskiptum þrengri skorður en ella og þrengri skorður en æskilegt væri. Þótt enn hafi ekki gefist tækifæri til beinna viðræðna íslenskra og rússneskra ráðamanna hafa íslensk stjórnvöld tekið þátt í samráði og aðgerðum vestrænna ríkja

til aðstoðar nýfrjálsum ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu, þar á meðal Rússlandi, innan hins svokallaða 24 landa samstarfs. Kanna þarf sérstaklega með hvaða hætti auka má samskipti Íslands og Rússlands með það fyrir augum að Ísland geti frekar stutt við bakið á lýðræðisþróuninni í Rússlandi.
    Á árinu 1992 voru haldnar tvær ráðstefnur í Washington, Lissabon og Tókíó að frumkvæði Bandaríkjastjórnar til þess að hvetja til og samræma aðstoð við fyrrverandi Sovétlýðveldin. Ríkisstjórn Íslands ákvað að veita 17 millj. kr. á síðasta ári í aðstoð. Stofnanir, fyrirtæki og félög á Íslandi lögðu fram svipaða upphæð. Stórum hluta framlags ríkisstjórnarinnar var varið til tækniaðstoðar við sjávarútveg í Kamtsjatka. Æskilegt er að Ísland taki þátt í að festa í sessi lýðræði og markaðshagkerfi í Rússlandi með aðstoð af þessu tagi.
    Hvað varðar viðskipti ríkjanna tveggja hafa endalok miðstýringarinnar þegar haft áhrif á þá tilhögun sem verið hefur við lýði í marga áratugi.
    Viðskiptafrelsi í stað miðstýringar ríkisverslunar gerir nýjar kröfur til þeirra sem vilja stunda viðskipti í Rússlandi en skapar jafnframt nýja möguleika, ný tækifæri. Sá vaxtarbroddur sem gefur sérstakt tilefni til bjartsýni í viðskiptum Íslands og Rússlands er samstarf á sviði orkumála, þar með talinn undirbúningur jarðhitaveitu á Kamtsjatka. Samvinna í sjávarútvegi er enn á byrjunarstigi. Íslensk fyrirtæki gætu hugsanlega látið í té vel búin skip, tækni- og markaðsþekkingu ef viðunandi lausn finnst varðandi greiðslufyrirkomulag, t.d. við Kamtsjatka og í Barentshafi. Og í því lagafrv. sem nú liggur fyrir um þróunarsjóð sjávarútvegsins eru ákveðin ákvæði sem eiga að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að taka þátt í verkefnum af þessu tagi. Viðskiptabókun Íslands og Rússlands féll úr gildi um síðustu áramót en hefur nú verið framlengd til áramóta.
    Þótt litið hafi verið á Jeltsín, forseta Rússlands, og ríkisstjórn hans sem eins konar persónugerving umbótastefnunnar er ekki þar með sagt að umbætur standi og falli með þessum einstaklingum. Á hinn bóginn skiptir miklu að réttkjörnir leiðtogar, sem sannanlega hafa umboð þjóðarinnar, veiti Rússlandi forustu í erfiðum hamskiptum frá kommúnísku alræði til lýðræðis og blandaðs hagkerfis. Ef ekki tekst fljótlega að leysa stjórnarfarslegar deilur og höggva á þann hnút sem torveldar róttækar efnahagsaðgerðir er alls óvíst hvað gerast kann í Rússlandi. Alls ekki er hægt að útiloka almenna upplausn og átök sem gætu haft afdrifaríkar afleiðingar um gervalla heimsbyggðina. Þrátt fyrir að afturhaldsöfl í Rússlandi hafi styrkst á undanförnum mánuðum er víst að ekki verður aftur horfið til þess ástands sem ríkti á valdatímum kommúnista. Á hinn bóginn er óljóst hvað við tekur. Ekki verður gengið að því vísu að það verði lýðræði og frjálst markaðshagkerfi að vestrænni fyrirmynd. Fundur Jeltsíns og Clintons forseta Bandaríkjanna í Vancouver og þjóðaratkvæðagreiðslan í Rússlandi síðar í þessum mánuði vekja nokkrir vonir um að Rússlandi geti sigrast á fyrrnefndum vandamálum sem vissulega eru risavaxin.
    Ísland viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi allra aðildarríkja Samveldis sjálfstæðra ríkja í byrjun liðins árs. Stofnað hefur verið til formlegs stjórnmálasambands við Úkraínu og Georgíu. Sú stefna var mörkuð í upphafi að láta ákvörðun um stjórnmálasamband við samveldisríkin, önnur en Rússland, einkum ráðast af möguleikum á sviði viðskipta eða annarra áþreifanlegra samskipta.
    Íslensk sérþekking á nýtingu jarðhita getur komið að góðum notum í ýmsum samveldisríkjanna. Auk Rússlands hafa Úkraína, Armenía og Georgía látið í ljós áhuga á samvinnu við Íslendinga á þessu sviði. Þess má vænta að víðtæk samvinna geti komist á á komandi árum þannig að íslenskir sérfræðingar taki þátt í að flýta jarðhitanýtingu í sumum þessara ríkja.
    Nú þegar liðið er á annað ár frá því að samveldi sjálfstæðra ríkja var stofnað og þrátt fyrir nokkrar væntingar í upphafi hefur það enn ekki orðið meira en mjög laustengt ríkjabandalag. Aðildarríkin eiga öll við risavaxna stjórnmálalega og efnahagslega erfiðleika að stríða og ekki bætir úr skák að tvíhliða samskipti einstakra samveldisríkja eru mjög misjöfn og minna en friðsamleg í mörgum tilvikum.
    Rússland og Úkraína komust að samkomulagi um skiptingu Svartahafsflotans í fyrra en deilan um yfirráð yfir Krímskaga er enn óleyst. Það sem veldur jafnvel enn meiri áhyggjum innan samveldisins sem utan er tregða úkraínskra stjórnvalda til að leyfa flutninga á langdrægum kjarnaflaugum frá Úkraínu til Rússlands þrátt fyrir samningsbundnar skuldbindingar í þessum efnum. Samkvæmt Minsk-samkomulaginu á síðasta ári voru öll skammdræg kjarnavopn flutt frá Úkraínu til Rússlands, en um þriðjungur allra langdrægra kjarnaflauga Sovétríkjanna fyrrverandi eru enn í Úkraínu í trássi við svonefnt Lissabon-samkomulag sem Kasakstan og Hvíta-Rússland stóðu einnig að. Úkraína hefur ekki fullgilt samninginn gegn útbreiðslu kjarnavopna eða START I samninginn um takmörkun langdrægra kjarnavopna.
    Margt bendir til þess að Úkraínustjórn reyni að nota kjarnavopnin sem tromp á hendi í samskiptum við Rússland og Vesturlönd, einkum Bandaríkin. Vestræn ríki, sem hafa heitið umtalsverðu fjármagni til aðstoðar við eyðingu kjarnavopna og til endurþjálfunar vísindamanna í samveldisríkjunum, leggja mikla áherslu á að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kjarnavopna. Því gæti ákvörðun Úkraínu um að virða að vettugi umsamdar skuldbindingar til skemmri eða lengri tíma hafi mjög neikvætt fordæmisgildi varðandi útbreiðslu slíkra vopna.
    Stuðningur íslenskra stjórnvalda við baráttu Eystrasaltsríkjanna fyrir endurheimt sjálfstæðis og fullveldis á árunum 1990--1991 hefur valdið því að sérstök tengsl hafa myndast á milli Íslands og ríkjanna þriggja. Þetta endurspeglaðist m.a. í nýlegri heimsókn Brazauskas, nýkjörins forseta Litáens, hingað til lands. Áframhaldandi stuðningur vinveittra ríkja getur jafnvel ráðið úrslitum um hvort takast muni að renna nægilega styrkum stoðum undir sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna í framtíðinni.
    Íslensk stjórnvöld hafa af fremsta megni reynt að aðstoða Eystrasaltsríkin við að hefja þátttöku í alþjóðlegu og fjölþjóðlegu samstarfi, m.a. með því að kynna þeim rekstur og skipulag utanríkisþjónustu. Einnig hafa Norðurlöndin verið samtaka í aðstoð við ríkin þrjú, t.d. með því að standa straum af þátttöku þeirra í starfsemi Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu í Vínarborg á síðasta ári.
    Ísland veitti Eystrasaltsríkjunum 1 millj. Bandaríkjadala í greiðslujafnaðaraðstoð á síðasta ári. Þá hafa stjórnvöld staðið að þjálfun og námskeiðum fyrir fjölda einstaklinga frá ríkjunum þremur, þar á meðal með styrkveitingum til náms við Háskóla Íslands og þjálfun í stjórnun fyrirtækja. Síðastnefnda verkefnin var einnig styrkt af íslenskum félögum og fyrirtækjum. Einnig hafa verið veittir styrkir vegna hugsanlegra samstarfsverkefna og til stofnunar lyfjaverksmiðju í Litáen, til rannsókna á jarðvarma og til ráðgjafar um flugöryggismál.
    Fjármálaráðherrar Norðurlanda undirrituðu samkomulag í Helsinki um fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin í þeim tilgangi að aðstoða þar lítil og meðalstór fyrirtæki. Samkvæmt áætluninni verður varið meira en 7,5 milljörðum íslenskra króna til fjárfestinga í formi ábyrgða á lánum sem renna til þessara ríkja og hefur m.a. verið leitað til Evrópubankans og Norræna fjárfestingarbankans um þessa fjármögnun.
    Af skiljanlegum ástæðum hefur verið tilhneiging á Vesturlöndum á undanförnum árum til að spyrða saman Eystrasaltsríkin þrjú og móta heildarstefnu gagnvart þeim þótt í raun séu ólíkar aðstæður og hagsmunir í hverju ríki. Þetta er m.a. afleiðing af nauðsynlegri samstöðu Eystrasaltsríkjanna meðan þau voru að brjótast undan sovéskum yfirráðum og afleiðing af landfræðilegri og efnahagslegri smæð þeirra. Nú um tveimur árum eftir að ríkin þrjú öðluðust fullt sjálfstæði á ný fer hvert þeirra í auknum mæli eigin leiðir. Tvíhliða samskipti þeirra við önnur ríki eru að komast í fastari skorður. Eftir sem áður eiga Eystrasaltsríkin sameiginlegra hagsmuna að gæta á sviði öryggismála og einkum hvað varðar samskiptin við Rússland.
    Mjög hefur verið lagt að rússneskum stjórnvöldum á alþjóðavettvangi að ljúka samskiptum við Eystrsaltsríkin um áætlun um brottflutning rússnesks herliðs. Vonast er til að brottflutningur rússnesks herliðs frá Eystrasaltsríkjunum haldi áfram þrátt fyrir yfirlýsingu stjórnvalda í Moskvu nýlega um að brottflutningur hafi verið stöðvaður sökum húsnæðiseklu í Rússlandi. Einstök ríki hafa staðið að fjölþjóðlegu samráði um hvernig hugsanlega væri hægt að auðvelda brottflutninginn með efnahagsaðstoð, ekki síst fjárveitingum til byggingar íbúðarhúsnæðis. Íslensk stjórnvöld hafa tekið undir áskoranir um umsamin en skilyrðislausan brottflutning rússnesks herliðs frá Eystrasaltsríkjunum. Vestræn ríki, þar á meðal Ísland, hafa algjörlega hafnað óbeinni tengingu rússneskra stjórnvalda milli brottflutnings og réttinda rússneskra minnihlutahópa í ríkjunum þremur.
    Ísland og önnur Norðurlönd hafa gengið frá tvísköttunarsamningum við Eystrasaltsríkin þrjú og undirbúningur er hafinn að gerð fríverslunarsamnings við þau einnig.
    Þótt öll ríki Mið- og Austur-Evrópu hafi virst vera órofa heild á tímum kalda stríðsins, ofurseld sovéskri yfirdrottnun og miðstýrðu hagkerfi í rúmlega fjóra áratugi kemur stjórnmálalegur, efnahagslegur og menningarlegur munur þeirra í millum æ betur í ljós. Aðlögun þessara ríkja að lýðræði og markaðskerfi verður óhjákvæmilega misjöfn að umgangi og í tíma, en miklu skiptir fyrir öll ríki álfunnar að múr velmegunar og öryggis komi ekki í stað járntjaldsins sem fyrir var.
    Samskipti Íslands við ríki Mið- og Austur-Evrópu hafa löngum fyrst og fremst verið á sviði viðskipta, en verulega hefur dregið úr þeim frá því sem var. Ísland á eftir sem áður gott samstarf við þessi ríki innan alþjóðlegra og fjölþjóðlegra stofnana og samtaka.
    Öryggismál eru ofarlega á baugi víðast hvar í Mið- og Austur-Evrópu. Endalok Varsjárbandalagsins og upplausn Sovétríkjanna skildu þar eftir tómarúm sem flest ríkin á svæðinu reyna nú að eyða í krafti samvinnunnar innan Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins og Ráðstefnunnar og öryggi í Evrópu fremur en með svæðisbundinni varnarsamvinnu. Nú og um næstu framtíð verða næg tilefni í Mið- og Austur-Evrópu til deilna og jafnvel átaka sem erfitt gæti reynst að reisa skorður við. Þar koma við sögu staða þjóðernisminnihluta, skipan landamæra, nýting náttúruauðlinda, að ónefndum afleiðingunum af styrjöldinni í fyrrverandi Júgóslavíu og erfiðri sambúð Sovétlýðveldanna fyrrverandi. Einnig stendur flestum fyrrverandi bandalagsríkjunum Sovétríkjanna stuggur af hugsanlegri valdatöku kommúnista eða þjóðernis- og öfgasinna í Rússlandi. Miklu skiptir því að það takist að brúa bilið til meiri stöðugleika með friðsamlegum hætti.
    Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum talið eðlilegt og æskilegt að Atlantshafsbandalagið stofnaði til samskipta við fyrrverandi aðildarríki Varsjárbandalagsins á sem flestum sviðum. Þess vegna var Ísland frá upphafi fylgjandi tillögunni um stofnun Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins og hefur síðan hvatt til þess að samstarfið yrði eflt í áföngum. Auk fyrrverandi Varsjárbandalagsríkja hefur Albaníu nú verið veitt aðild að þessu samstarfsráði og Finnlandi áheyrnaraðild.
    Starfsáætlun Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins er umfangsmikil. Hún kveður á um samstarf á sviðum öryggis- og varnarmála, efnahagsmála, vísinda og rannsókna, umhverfismála og upplýsinga. Í áætluninni fyrir þetta ár er sameiginleg friðargæsla eitt þeirra verkefna sem vonir eru bundnar við að geti leitt til nánari tengsla bandalagsins og samstarfsríkjanna á sviði hermála.
    Þrátt fyrir að stofnun Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins komi um tíma til móts við þarfir ríkja í

Mið- og Austur-Evrópu er engu að síður nauðsynlegt að ráðið öðlist annan og meiri tilgang. Meðan bandalagið er ekki tilbúið að koma til móts við ríki þessi með öryggisskuldbindingar eða gera greinarmun á einstökum samstarfsríkjum er ekki raunhæft að gera ráð fyrir að þau láti sér nægja til frambúðar að ráðið sé eins konar biðstofa hugsanlegrar aðildar að Atlantshafsbandalaginu sem hugur margra þessara ríkja vissulega stendur til. Hafi Norður-Atlantshafssamstarfsráðið einungis óbein áhrif á öryggismál í Evrópu er sennilegt að sum samstarfsríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu leggi aukna áherslu á bein tvíhliða samskipti við Atlantshafsbandalagið.
    Virðulegi forseti. Í tæpa tvo áratugi hefur Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu verið snar þáttur í skipan öryggismála í Evrópu. Frá upphafi miðuðust helstu verkefni ráðstefnunnar við hina þrjá meginþætti Helsinki-skjalsins, öryggismál, efnahagssamvinnu og mannréttindi. Meðan kalda stríðið var í algleymingi var mestum árangri náð á sviði öryggismála og mannréttinda, en í kjölfar leiðtogafundar í París árið 1990 og Helsinki-fundarins á síðasta ári eignaðist ráðstefnan sínar fyrstu stofnanir og er nú orðin mun margþættari en áður.
    Ísland hefur tekið þátt í störfum ráðstefnunnar frá upphafi eins og öll önnur Atlantshafsbandalagsríki og talið hana nauðsynlegan hluta evrópskrar öryggisskipunar seinni ára, ekki síst á dögum kalda stríðsins. Ráðstefnan hefur lengi verið eini sameiginlegi vettvangur allra Evrópuríkja þar sem fjallað er um öryggismál í víðu samhengi. Þó svo að verkefnin hafi í vaxandi mæli skarast við verkefni annarra stofnana og samtaka í Evrópu eftir að kalda stríðinu lauk hefur það verið afstaða Íslands líkt og annarra Atlantshafsbandalagsríkja að ekki sé nauðsynlegt að kveða afdráttarlaust á um verkefni og verkaskiptingu stofnana og samtaka meðan breytingaskeiðið stendur enn yfir. Á tímum óvissu og öryggisleysis er slík skörun betri en aðgerðaleysi. Vegna aukinna umsvifa ráðstefnunnar var ákveðið á síðsta ári að opna skrifstofu Íslands í Vín. Fylgst verður með þróun ferlisins og ákvörðun tekin um frekari tilhögun á þátttöku Íslands í þessu samstarfi að fenginni reynslu.
    Evrópuráðið hefur unnið mjög árangursríkt starf á mörgum sviðum, sérstaklega á sviði mannréttindamála. Í kjölfar stjórnmálalegra umbrota á undanförnum árum hefur mikilvægi Evrópuráðsins aukist og stendur nú yfir allsherjarendurskoðun á starsemi stofnunarinnar. Slík endurskoðun miðar ekki síst að því að gera Evrópuráðinu betur kleift að greiða götu ríkja Mið- og Austur-Evrópu sem reyna nú að tileinka sér lýðræðislegt stjórnarfar að vestrænni fyrirmynd. Í ríkjum þessum er litið á aðild að Evrópuráðinu sem upphaf aukinnar samvinnu við vestræn ríki og sem lið í varðveislu öryggishagsmuna.
    Við núverandi aðstæður í alþjóðamálum, þar sem aukin áhersla er lögð á virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði sem undirstöðu réttlætis og varanlegs friðar, getur Ísland hiklaust lagt skerf af mörkum ekki síst með virkari þátttöku í Evrópuráðinu.
    Norðurlöndin standa nú á mikilvægum krossgötum í alþjóðamálum. Hinar föstu skorður sem einkenndu samskipti austurs og vesturs á tímum kalda stríðsins áttu sinn þátt í því að Norðurlöndin gátu einbeitt sér að samstarfi sínu innbyrðis á þeim sviðum sem það tók til. Hinar stórfelldu pólitísku breytingar sem átt hafa sér stað í umheiminum valda því að norrænt samstarf þarf í auknum mæli að laga sig að kröfum nýrra tíma, þeirri óvissu sem einkennir þróunina í austanverðri Evrópu annars vegar og samrunaferlinu í álfunni vestanverðri hins vegar.
    Þrátt fyrir þessar breytingar eða jafnvel vegna þeirra munu Norðurlönd áfram hafa sameiginlega hagsmuni og áhugamál sem best verður unnið að í þeirra hópi. Aukin áhersla á svæðisbundna samvinnu í Evrópu og nauðsyn á nálgun við evrópska samrunaferlið stuðlar enn frekar að norrænni samvinnu og samstöðu. Þar vegur EES-samstarfið þyngst en nú er fyrirsjáanlegt að öll Norðurlönd taki í fyrsta skipti sameiginlegan þátt í viðskiptasamstarfi Evrópu.
    Þegar fram líða stundir og fleiri Norðurlandanna kunna að hafa gerst aðilar að Evrópubandalaginu þarf að endurmeta norræna samvinnu þannig að hún verði áfram í samræmi við þarfir allra Norðurlanda. Fyrrnefnd atriði, og einkum það síðastnefnda, sýna að það verður að leggja sérstaka áherslu á að efla óformlegt samráð og samstarf Norðurlandaþjóðanna sem hefur á ýmsan hátt auðveldað Íslandi þátttöku í alþjóðlegu og fjölþjóðlegu samstarfi til þessa.
    Samstarfshópur forsætisráðherra Norðurlandanna hefur lagt fram skýrslu um endurmat á norrænni samvinnu. Virkari þátttaka forsætisráðherranna í norrænu samstarfi er vissulega af hinu góða, enda getur hún leitt til þess að samstarfið fái aukið pólitískt vægi. Hins vegar er full ástæða til að minna á hlutverk fagráðherra, ekki síst utanríkisráðherra og utanríkisviðskiptaráðherra þar sem ýmsar þær breytingar, sem kallað hafa á endurmat á norrænu samstarfi, falla undir verksvið þeirra.
    Lok kalda stríðsins hafa opnað nýjar leiðir í svæðisbundnu samstarfi ríkja jafnframt því sem ríki gera sér í auknum mæli grein fyrir mikilvægi þess að fást við uppsafnaðan vanda með sameiginlegum aðgerðum. Þessi þróun hefur m.a. leitt til endurskoðunar hefðbundinna leiða í öryggismálum. Ríkari áhersla er lögð á að samvinna á sviði efnahags- og viðskiptamála, stjórnmála, umhverfismála og menningarmála stuðli að friði og öryggi í heiminum.
    Svæðisbundið samstarf um umhverfisvandann á norðurslóðum hefur aukist verulega og má t.d. nefna Rovaniemi-ferlið á sviði umhverfisnefndar með aðild átta ríkja: Rússlands, Kanada Bandaríkjanna og Norðurlandanna. Þessi sömu ríki tóku þátt í stofnun Barentsráðsins í byrjun þessa árs. Tilgangur ráðsins er að stuðla að auknum samskiptum ríkja á Barentshafssvæðinu og í næsta nágrenni og brúa bilið milli Rússlands og Vesturlanda. Af hálfu Íslands hefur höfuðáhersla verið lögð á tvo málaflokka innan þessa samstarfs, annars vegar umhverfismál, sem litið er á sem helsta viðfangsefni ráðsins, en hins vegar viðskiptasamstarf.
    Stofnun Barentsráðsins á sér að hluta til fyrirmynd í Eystrasaltsráðinu, enda eru marmið samtakanna að mörgu leyti svipuð. Aðilar að Eystrasaltsráðinu eru ríki sem liggja að Eystrasalti ásamt Noregi. Íslandi var upphaflega ekki boðin aðild að ráðinu og synjað um stöðu áheyrnarfulltrúa. Ísland hefur látið í ljós áhuga á því að nálgast þetta samstarf og er sú ósk nú til umræðu innan ráðsins.
    Virðulegi forseti. Atburðir í Mið-Austurlöndum hafa á undanförnum áratugum verið orsök deilna og átaka sem ekki hafa einungis verið svæðisbundin heldur hafa oft og tíðum ógnað stöðugleika og friði á alþjóðavísu á alþjóðlegum vettvangi. Langvarandi togstreita Ísraels og Arabaríkja, vandi Palestínumanna og efnahagsleg misskipting í þessum heimshluta hafa tengst útflutningi olíu til iðnvæddra ríkja og leitt til vígbúnaðarkapphlaups sem virðist óstöðvandi. Af þessum sökum voru Mið-Austurlönd átakasvæði kalda stríðsins. Eftir sem áður hafa iðnríkin verulegra hagsmuna að gæta í þessum heimshluta.
    Stjórnvöld á Íslandi hafa ekki haft bein afskipti af deilum í Mið-Austurlöndum eða nálægum svæðum, en hafa á hinn bóginn tekið þátt í umræðum og samráði um málefni þessa heimshluta á alþjóðavettvangi og tvíhliða við einstaka deiluaðila þegar tækifæri hafa gefist. Ríkisstjórnin hefur stutt friðarumleitanir Bandaríkjastjórnar í Mið-Austurlöndum. Hún hefur látið í ljós áhyggjur vegna atburða eða aðgerða deiluaðila sem spillt gætu fyrir friði. Þetta á t.d. við um nýlegan brottflutning ísraelskra stjórnvalda á rúmlega 400 palestínskum liðsmönnum heittrúarsamtaka frá herteknu svæðunum til Líbanons. Af því tilefni gerði utanrrh. stjórnvöldum í Ísrael bréflega grein fyrir afstöðu Íslands þar sem lögð var áhersla á að stjórnvöld í Ísrael fari að alþjóðalögum og afturkalli ákvörðun sína um nauðungarflutninga Palestínumanna jafnframt því sem nauðsyn varna gegn hryðjuverkum var áréttuð.
    Ísland hefur einnig látið sig varða almenn mannréttindi í Mið-Austurlöndum. Þannig hefur Ísland gerst meðflytjandi að tillögum á þingi Mannréttindaráðs Sameinðuu þjóðanna um byggðir ísraelskra landnema á herteknu svæðunum og um mannréttindi í Írak og Íran. Einnig hafa íslensk stjórnvöld fordæmt brot Íraksstjórnar á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og refsiaðgerðir samtakanna gegn Írak og Líbíu eru enn í gildi hér á landi.
    Nú þegar betur horfir en lengi áður um friðsamlega lausn deilumála milli Ísraela og Arabaríkja og þegar hlutskipti Palestínumanna er ofarlega á baugi vill svo til að ekki er hægt að útiloka að aðstæður í Arabaríkjunum verði til að viðhalda og jafnvel auka spennu allt frá Persaflóa til Atlantshafs. Hér er einkum átt við vöxt og viðgang heittrúarstefnu múhameðstrúarmanna. Þótt heittrúarstefnan hafi staðbundin sérkenni og sé stjórnmálalega frumstæð getur hún með tíð og tíma orðið alvarleg ógnun við sunnanverða Evrópa og við lýðræði og mannréttindi víða um heim.
    Pólitísk samskipti Íslands og Kína hafa verið með takmarkaðra móti undanfarin ár. Með hliðsjón af þeirri jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað í Kína á undanförnum árum er eðlilegt að hugað verði að eflingu samskipta Íslands og Kína en jafnframt að lögð verði áhersla á úrbætur í mannréttindamálum.
    Nýlega var lagt fram frv. á Alþingi með ítarlegri greinargerð um afnám viðskiptaþvingana gegn Suður-Afríku. Það er mat íslenskra stjórnvalda að þrátt fyrir hörmulegt ofbeldisástand í landinu verði umbótaþróuninni ekki snúið við. Mannréttindabrot eru ekki lengur framin í skjóli stjórnvalda og kynþáttaaðskilnaðarstefnan hefur verið afnumin. Forsendur viðskiptabanns íslenskra stjórnvalda eru þar með brostnar. Viðskiptabann Íslendinga hefur engin efnahagsleg áhrif á Suður-Afríku. Nágrannaþjóðir okkar og mikilvægir viðskiptaaðilar Suður-Afríku hafa aflétt banninu. Viðskiptabann Íslendinga hefur því ekki gildi lengur. Þrátt fyrir að viðskiptahagsmunir Íslendinga í Suður-Afríku séu óverulegir er óeðlilegt með hliðsjón af framangreindu að íslensk fyrirtæki búi við verri viðskiptaskilyrði en samkeppnisaðilar í öðrum ríkjum.
    Virðulegi forseti. Að kalda stríðinu loknu skapaðist loks grundvöllur fyrir Sameinuðu þjóðirnar til þess að gegna hlutverki sínu eins og það var upphaflega hugsað. Nú síðustu árin hafa völd öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna aukist og verkaskipting þess og allsherjarþingsins er ekki eins skýrt afmörkuð og áður. Auknar kröfur eru nú gerðar til öryggisráðsins við framkvæmd mannúðaraðstoðar vegna aðgerða gegn stórfelldum mannréttindabrotum og jafnvel við eflingu lýðræðislegra stjórnarhátta sem áður voru af pólitískum ástæðum frekar túlkuð sem úrlausnarefni allsherjarþingsins. Þetta aukna mikilvægi öryggisráðsins og hugsanlegar breytingar á skipan þess veldur því að íslensk stjórnvöld þurfa að fylgjast sérstaklega vel með störfum ráðsins, jafnvel með tímabundna setu Íslands í huga.
    Alls eru nú friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna á þrettán stöðum í heiminum og starfa rúmlega 60 þús. manns í þessum friðargæslusveitum. Árlegur kostnaður við friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna nemur nú meira en þremur milljörðum Bandaríkjadala. Þá hafa ríki sem freista þess að tileinka sér lýðræðislega stjórnarhætti óskað eftir því að Sameinuðu þjóðirnar sendi eftirlitsmenn til að fylgjast með frjálsum kosningum. Þannig hafa íslenskum stjórnvöldum borist óskir frá Sameinuðu þjóðunum um að tilnefndir yrðu starfsmenn til starfa við friðargæslu í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu og víðar og einnig að tilnefndir yrðu aðilar sem starfað gætu við kosningaeftirlit. Ríkisstjórnin hefur þegar orðið við ósk um tilnefningu starfsmanna til friðargæslu. Einnig hefur verið lagður fram listi yfir starfsmenn sem til greina koma til eftirlits með kosningum. Þegar hefur verið óskað eftir íslenskum starfsmanni vegna kosninga í Erítreu og hefur verið brugðist jákvætt við þeirri beiðni. Ég vil taka það fram að af hálfu ríkisstjórnarinnar verður áhersla lögð á liðveislu íslenska ríkisins við verkefni af þessu tagi.
    Í framhaldi af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Rio de Janiero í júní 1992, samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í desember sl. að stofna sérstaka umhverfisnefnd (Commission on Sustainable Development) sem hefði það verkefni að fylgjast með og vinna að framgangi samþykkta ráðstefnunnar. Kosið var í nefndina í fyrsta skipti í febrúar sl. og hlaut Ísland kosningu í nefndina.
    Þátttaka Íslands í umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur í för með sér verulega aukin verkefni fyrir íslensk stjórnvöld. Mikilvægt er að vel og skipulega verði að þessu starfi staðið.
    Umhverfisnefndin verður mikilvægasta stofnun Sameinuðu þjóðanna í umhverfismálum. Hún mun annast samræmingu aðgerða hinna ýmsu stofnana Sameinuðu þjóðanna á sviði umhverfismála og fylgjast með starfi nefnda sem vinna að framgangi einstakra samþykkta Ríó-ráðstefnunnar. Í samræmi við framkvæmdaáætlun Ríó-ráðstefnunnar er nú starfandi fjöldi alþjóðlegra nefnda um einstök framkvæmdaatriði áætlunarinnar og munu þær hafa mikil áhrif á störf þessarar umhverfisnefndar. Unnið verður m.a. að málaflokkum sem skipta sérhagsmuni Íslands miklu, svo sem að því er varðar fiskveiðar, nýtingu lifandi auðlinda hafsins og verndun andrúmsloftsins.
    Virðulegi forseti. Alvarleg mannréttindabrot eiga sér stað í flestum ríkjum heims. Það er stjórnvalda í hverju ríki að sjá til þess að mannréttindi séu virt, en jafnframt er nauðsynlegt að leggja ríka áherslu á alþjóðlegt samstarf og aðhald. Eðlilegt er að ríki, sem staðið hafa framarlega í baráttunni fyrir mannréttindum, miðli reynslu sinni til þeirra sem af stjórnmálalegum, efnahagslegum, félagslegum eða öðrum ástæðum standa öðrum þar að baki.
    Lok kalda stríðsins hafa gert ríkjum kleift að endurskoða hefðbundnar áherslur í öryggismálum. Umburðarlyndi, skilningur og virðing fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi eru í auknum mæli talin vera undirstaða friðar og öryggis í heiminum. Viðfangsefni alþjóðlegra stofnana og samtaka endurspeglar þetta í auknum mæli. Þótt íslensk stjórnvöld geti ekki teflt fram herliði til varðveislu friðar geta þau lagt mikilvægan skerf af mörkum þar sem mannréttindamál eru annars vegar. Þannig hefur mannréttindamálum verið gefinn aukinn gaumur á undanförnum árum m.a. með vaxandi þátttöku í mannréttindadráði Sameinuðu þjóðanna.
    Friðargæsluverkefni miðast í auknum mæli við þætti sem eru taldir undirstaða friðar þar á meðal virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum, þ.e. hér er um að ræða þætti sem eru utan hins hernaðarlega sviðs.
    Miklar vonir voru bundnar við stóreflt mannréttindastarf við lok kalda stíðsins. Síðastliðin tvö ár hefur orðið vart við vandamál sem hamlað hafa þessu starfi. Þá á ég við ágreining milli ríkja í norðri og suðri sem farið hefur vaxandi. Krafa nokkurra þróunarlanda um svokallaða menningarlega afstæðishyggju sem felur í sér að mannréttindi geti verið breytileg eftir aðstæðum, efnahagslegu þróunarstigi og fleiru, verður æ háværari. Reglan um algildi mannréttinda er því mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr sem einn af hornsteinum alþjóðlegs mannréttindastarfs.
    Eitt af mikilvægari verkefnum 47. allsherjarþingsins var undirbúningur og samþykkt dagskrár alþjóðlegrar mannréttindaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Vín á komandi sumri þar sem ákveðið hefur verið að Íslendingar muni taka fullan þátt.
    Virðulegi forseti. Takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna og búnaði til að beita þeim er orðin eitt mikilvægasta viðfangsefnið á sviði afvopnunarmála. Íslensk stjórnvöld hafa brugðist við þessari þróun með því að gerast nýlega aðili að sérstöku samstarfi ríkja til að hefta útbreiðslu á langdrægum eldflaugum og tækni eða búnaði til framleiðslu þeirra. Þetta samstarf (Missile Technology Control Regime) hefur miðast við að koma í veg fyrir að slíkar eldflaugar og búnaður kæmust til ríkja sem beitt gætu þeim til árása eða ógnana með samræmdum útflutningstakmörkunum og upplýsingaskiptum. Ráðgert er að Ísland verði einnig þátttakandi í hliðstæðu samstarfi annars hóps, svonefndum Ástralíu-hópi, um takmörkun á útbreiðslu efna- og lífefnavopna og efna eða búnaðar til framleiðslu þeirra.
    Mikil áhersla hefur verið lögð á að tryggja framkvæmd samningsins um bann við útbreiðslu kjarnavopna (Non Proliferation Treaty) sem tók gildi árið 1970. Íslensk stjórnvöld fordæmdu nýlega ákvörðun Norður-Kóreu um að rjúfa samninginn og hvöttu stjórnvöld til að hlíta ákvæðum samningsins um eftirlit Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Samningurinn við bann við útbreiðslu kjarnavopna verður endurskoðaður árið 1995 auk þess sem þá verður tekin ákvörðun um frekari gildistíma hans. Mörg ríki þar á meðal Ísland hallast að því að samningurinn eigi að hafa ótakmarkaðan gildistíma.
    Ísland átti þátt í öðrum mikilvægum áfanga í takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna sem stofnaðili að samningnum um bann við framleiðslu, öflun, þróun og notkun efnavopna, sem var undirritaður í París í byrjun þessa árs. Samningurinn tekur gildi árið 1995 en um þessar mundir er unnið að undirbúningi fullgildingar af hálfu Íslands.
    Athygli manna beinist nú í æ ríkari mæli að samningaviðræðum um algjört bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Íslensk stjórnvöld eru í grundvallaratriðum hlynnt umsömdu allsherjarbanni við tilraunum þegar til lengri tíma er litið og hafa gerst meðflytjendur að ályktunartillögu um það efni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ekki verður þó unnt að útiloka tilraunir með kjarnavopn með öllu svo lengi sem þau eru snar þáttur í öryggis- og varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins.

    Afvopnun á höfunum var gerð ítareg skil í skýrslu minni til Alþingis á síðasta ári. Ég vil minna á það að eftir yfirlýsingu Bandaríkjaforseta um niðurskurð kjarnavopna á höfunum í september 1991 og viðbrögð stjórnvalda í fyrrverandi Sovétríkjum, en þetta til samans fól í sér að öll skammdræg kjarnavopn og stýriflaugar búnar kjarnaoddum skyldu fjarlægðar úr flotum ríkjanna og eyðilögð að miklum hluta, hefur orðið mikil breyting til hins betra á þessum vettvangi. Einnig kveða báðir sáttmálarnir, START I og START II, á um verulega fækkun kjarnorkuvopna í höfunum.
    Ég vil benda á að áhugi Íslendinga á kjarnorku í höfunum er öðru fremur af umhverfislegum toga spunninn. Hin síðustu ár hefur það gerst að komið hefur til sögunnar sérstakt umhverfisráðuneyti sem fjallar um mál sem þessi og hafa ráðuneytin tvö, umhvrn. og utanrrn., að sjálfsögðu náið samráð um þessi og önnur mál þar sem þau láta til sín taka á vettvangi ýmissa alþjóðastofnana.
    Virðulegi forseti. Á sama hátt og aðrar þjóðir hefur Ísland tekið þróunaraðstoð sína til endurskoðunar. Ríkisstjórnin hefur ákveðið og fylgir því eftir í verki í fyrsta sinn að auka verulega fjárframlög til þessa málaflokks. Í byrjun árs 1992 skilaði starfshópur á vegum forsrn. skýrslu um framtíð þróunarsamvinnu á vegum íslenska ríkisins. Þessi skýrsla var síðan til meðferðar í hópi embættismanna frá fimm ráðuneytum og skilaði hópurinn áliti í desember. Enn hefur ekki verið tekin afstaða til álitsins í ríkisstjórn.
    Árangur þróunarmála hefur verið minni en vonir stóðu til við lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Oft er jafnvel talað um að áratugi hinna glötuðu tækifæra í þessum efnum. Þessu valda ýmsar ástæður. Iðnríkin hafa greitt minna til þróunarmála en þau höfðu lofað, aðstoðin var oft ómarkviss, tilgangur þróunarsamvinnu var í mörgum tilvikum lausn efnahagslegra vandamála heima fyrir og var oft veitt misjafnlega spilltum stjórnvöldum í pólitískum tilgangi. Lok kalda stríðsins hafa gert það að verkum að iðnríkin og alþjóðlegar stofnanir hafa á undanförnum árum endurskoðað tilgang og markmið þróunaraðstoðar. Um þessar mundir er þróunaraðstoð í auknum mæli beint til einkaaðila, stuðlað er að stofnun og eflingu smáfyrirtækja, aukin áhersla er lögð á svokallaða sjálfbæra þróun, lausn fólksfjölgunarvandamálsins, aukna þátttöku kvenna í atvinnulífi og útrýmingu sárustu fátæktar. Einnig hafa iðnríkin í auknum mæli tengt þróunaraðstoð við pólitískar úrbætur, sem jafnframt hefur leitt til aukinna vandamála í samskiptum við þróunarlöndin sem kvarta sáran yfir yfirlætislegri góðvild fyrrverandi nýlenduherra í ýmsum tilvikum. Fara verður varlega í þessum efnum og allar aðgerðir verða að taka mið af tilgangi og markmiði þróunaraðstoðar, sem er velmegun og hagsæld einstaklingsins í viðkomandi löndum.
    Þessi þróun er vísbending um að iðnríkin gera sér í auknum mæli grein fyrir að þörfin fyrir stórfellt átak á sviði þróunarmála hefur líklega aldrei verið meiri en á núverandi tímamótum þegar fjöldi ríkja hefur sett stefnuna á lýðræði og aðrar pólitískar og efnahagslegar úrbætur.
    Virðulegur forseti. Í upphafi máls míns vék ég að því að breytingarnar í alþjóðamálum gæfu tilefni til að endurskoða fyrirkomulag skýrslugjafar til Alþingis um utanríkismál. Á undanförnum árum hefur sú venja verið viðhöfð að utanrrh. gefi þinginu ársyfirlit um utanríkismál þar sem safnað er á einn stað ítarlegum upplýsingum um þá fjölmörgu málaflokka sem undir utanrrh. heyra. Eðlilegt er að utanrrn. gegni áfram þeirri sjálfsögðu skyldu að upplýsa bæði Alþingi og almenning um stöðu íslenskra utanríkismála á hverjum tíma. Spurningin er hins vegar hvort hinar öru breytingar á alþjóðavettvangi og sífellt flóknari samþætting hinna ýmsu þráða utanríkismálanna valdi því ekki að stuðla beri að reglubundnari og markvissari umræðu á Alþingi um utanríkismál en tíðkast hefur hin síðustu ár. Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, gera það að tillögu minni að í stað árlegrar prentaðrar yfirlitsskýrslu geri utanrrh. Alþingi reglulega grein fyrir stöðu utanríkismála á haustþingi og vorþingi en komi upplýsingum um afmarkaða málaflokka, þar á meðal utanríkisviðskipti, þróunarmál eða starfsemi tengda varnarsvæðum, á framfæri með öðrum hætti eftir því sem tilefni er til. Vonast ég til að þannig megi beina umræðum um utanríkismál í skipulegri og árangursríkari farveg eftirleiðis, Alþingi og þjóðinni allri til heilla.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.