Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 12:13:32 (7117)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég beið með nokkurri forvitni eftir þeirri skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur lagt hér fyrir Alþingi. Ástæðurnar voru margar. Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér hvaða ályktanir ráðherrann mundi draga af því mikla umróti sem hefur verið í veröldinni allri á síðustu missirum.
    Í öðru lagi velti ég því fyrir mér hvernig ráðherrann mundi, sérstaklega í ljósi skýrslu hans í fyrra, taka á þeirri staðreynd að flest það sem menn töldu að mundi gerast í málefnum Evrópubandalagsins og þeirra þjóða sem því tengjast, sérstaklega fyrir einu til tveimur árum síðan, snýr nú að okkur með öfugum formerkjum. Í stað hinnar glæstu framtíðarsýnar Evrópu skrifa menn nú um upplausn álfunnar, um afturför, um svartsýni og um gífurlega efnahagslega kreppu sem enginn endir virðist vera á.
    Í þriðja lagi velti ég því fyrir mér hvort ráðherrann mundi í þessari skýrslu sýna raunveruleg merki þess að vilji væri til þess að skapa við þessar nýju aðstæður vettvang fyrir umræður allra flokka hér á Alþingi um ályktanir sem menn kynnu að draga af þessu öllu saman.
    Ég vil segja það strax í upphafi að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með skýrsluna hvað þetta snertir. Að vísu kemur fram í þriðju málsgrein upphafskafla skýrslunnar sú yfirlýsing að það sé nauðsynlegt á þessum miklu óvissutímum að Alþingi og ríkisstjórn standi saman í þessum málum. Ég er alveg sammála því. En síðan er skýrslan samfelld lýsing á því að ríkisstjórnin hafi ein ákveðið þetta og hitt og það kemur strax fram á þessari sömu síðu að ríkisstjórnin hafi ákveðið aðild að Vestur-Evrópusambandinu. Mér finnst þess vegna mjög mikilvægt að menn átti sig á því í þessari umræðu hvort raunverulegur vilji er fyrir hendi hjá hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstjórn til þess að skapa skilyrði fyrir því að áður en ákvarðanir séu teknar leggi menn í þá miklu vinnu að endurmeta allar þær nýju aðstæður sem nú blasa við.
    Ég vil líka segja það að mér finnst nokkuð þröng heimssýn í þessari skýrslu. Ég tek sem dæmi að það er fyrst á bls. 26 í skýrslunni eftir að búnir eru að vera fjölmargir kaflar um hin og þessi umfjöllunarefni sem vikið er að þeirri nýju umræðu og þeim nýju verkefnum sem við blasa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna varðandi öryggismál. Og grundvallarskjalið í þeirri þróun, tillögugerð aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem hann setti fram samkvæmt ósk leiðtogafundar öryggisráðsins, fær í þessari skýrslu aðeins eina stutta málsgrein á bls. 26. Mér finnst endurspeglast í þessu, virðulegi utanrrh., það sem ég vék aðeins að hér um daginn að þegar utanrrn. og þar með Ísland hefur verið án fastskipaðs sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum núna um langt bil, rúmlega ár ef ekki meir nú þegar, þá sést það greinilega á þessari skýrslu að annaðhvort hafa menn ekki upplýsingar eða ekki vilja til að setja þessar miklu breytingar í rétt samhengi.
    Ég vil líka nefna það hér, þó að ég muni koma að því nokkru síðar, að það er mjög sérkennilegt að sjá það að utanrrh. Íslands skuli í afstöðu sinni til kjarnorkuvopnatilrauna vera vígbúnaðarsinnaðri heldur en fulltrúadeild Bandaríkjaþings og öldungadeild Bandaríkjaþings því sú afstaða sem lýst er á bls. 31 gengur gegn nýsamþykktum lögum á Bandaríkjaþingi um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Í skýrslunni segir að ekki sé unnt að útiloka tilraunir með kjarnorkuvopn með öllu svo lengi sem þau eru stór þáttur í varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins. En það er einmitt það sem bandaríska þingið gerði í október í fyrra, það útilokaði slíkar tilraunir eftir 1996. Það eru lög í Bandaríkjunum í dag. Ég velti því fyrir mér: Er þessi texti í skýrslunni byggður á svo hróplegri vanþekkingu í utanrrn. að menn hafi ekki skilning á því hvað þessi lög þýða sem höfðu stuðning 2 / 3 í öldungadeildinni til þess að Bush gæti ekki beitt neitunarvaldi, að menn setja á blað texta af þessu tagi? Eða er það virkilega stefnuaðstaða utanrrh. að vera vígbúnaðarsinnaðri heldur en 2 / 3 bandarísku öldungardeildarinnar í þessum málum? Ég vænti að svo sé ekki og skýringin sé frekar alveg ótrúleg vanþekking á því sem hefur verið að gerast í Bandaríkjunum á síðustu missirum sem liggur hér að baki. Svo stendur meira að segja hér að stjórnvöld í Bandaríkjunum séu treg til að semja um allsherjarbann og telji nauðsynlgt af öryggisástæðum að halda tilraunum áfram. Virðulegi utanrrh. Þetta var stefna ríkisstjórnar George Bush. Þessi skýrsla er send Alþingi í apríl 1993. Hinn nýi forseti Bandaríkjanna hefur það á stefnuskrá sinni að koma á allsherjarbanni við tilraunum með kjarnorkuvopn. Það er yfirlýst stefna hinnar nýju ríkisstjórnar Bandaríkjanna og hún hefur afneitað því að nauðsynlegt sé að halda tilraunum áfram af öryggisástæðum. Og það hefur þingið líka gert. Þingið hefur leyft að hámarki 15 tilraunir fram að 1996, þar af fjórar, ef ég man rétt, sem Bretar eiga að fá að framkvæma í tilefni af stöðu Bandaríkjanna. Eftir 1996 er varanlegt bann á tilraunum með kjarnorkuvopn nema aðrar þjóðir hefji þær tilraunir á tímabilinu þannig að stefnan er þvert á móti að koma á allsherjarbanni við tilraunum með kjarnorkuvopn.
    Mér finnst satt að segja dálítið dapurlegt að slík vanþekking, sem ég reikna nú frekar með að þetta sé, skuli vera augljós í utanrrn. á Íslandi, að menn fylgjast ekki með heldur endurtaka bara gamlar lummur frá ríkisstjórn sem var felld í kosningunum í Bandaríkjunum því að þessi texti hefur út af fyrir sig sómt sér vel í 12 ár undir Reagan og Bush. Þá var hann réttur en hann er það ekki í dag.
    Virðulegi forseti. Það er alltaf nokkuð flókið að taka á skýrslu af þessu tagi vegna þess að auðvitað víkur hún að fjölmörgum atriðum þó í stuttu máli sé. Ég ætla þess vegna ekki að fara með einhverjum tæmandi hætti yfir skýrsluna heldur frekar nefna ýmsa þætti inn í umræðuna sem ég tel nauðsynlegt að vakin sé athygli á. Það fyrsta sem ég vil nefna í því samhengi er spurningin um það hvort raunverulegur vilji sé til þess að Alþingi og ríkisstjórn standi saman um meginmarkmið utanríkisstefnunnar. Ef svo er, þá er það auðvitað ekki hægt að ríkisstjórnin ákveði einhliða hver stefnan eigi að vera og segi svo við þingið: Nú skulið þið samþykkja það sem við erum búnir að ákveða. Þess vegna blasir það við okkur að finna farveg fyrir umræður um þessi mál á næstu mánuðum. Hann getur verið innan utanrmn. Vissulega. Ég tel það alveg geta komið til greina með vissum hætti. En það má líka finna honum annað form. Aðalatriðið er, held ég, að reynslan af síðustu missirum kenni okkur það að það má ekki halda áfram með þeim hætti.
    Í öðru lagi, virðulegi utanrrh., er notað hér nokkuð oft hugtakið samrunaþróunin í Evrópu og í skýrslunni er að finna þá grundvallarforsendu að í Evrópu sé í gangi eitthvað sem kalla mætti samrunaþróun. Það er hægt að draga það mjög í efa að atburðarásin í Evrópu, virðulegi utanrrh., beri þess merki. Þvert á móti hefur stór hluti Evrópu verið að skilja sig frá því sem hann áður tilheyrði. Tékkóslóvakíu hefur verið skipt upp í tvö ríki. Júgóslavía er sundruð. Innan fyrrverandi Sovétríkjanna eru þegar komin fram þó nokkuð mörg sjálfstæð ríki. Sum þeirra munu kannski klofna upp í enn fleiri ríki þannig að ef litið er yfir Evrópu í heild sinni, þá fullyrði ég að það er miklu frekar hægt að færa rök fyrir því að þar sé ekki í gangi samrunaþróun.
    Sjálfsagt hvílir hér á bak við hugmyndin um að það sem hefur verið að gerast innan Evrópubandalagsins sé samrunaþróun, en þar ber fyrst að vekja athygli á því að Evrópubandalagið er ekki Evrópa. Hvað eftir annað er í þessari skýrslu orðanotkun sem felur það í sér að þegar menn eru í reynd að tala um Evrópubandalagið segja menn bara Evrópa. Ég veit að þetta er gert víða úti í heimi. Margir fulltrúar Evrópubandalagsins tala svona. Hugtakið Evrópa er notað mjög lauslega. En við getum ekki gert það þegar við erum að reyna að fást við grundvallarþætti í utanríkisstefnu Íslendinga. Hefur samrunaþróun verið að styrkjast í Evrópubandalaginu á því tímabili sem liðið er frá því að utanrrh. gaf Alþingi síðast skýrslu? Svarið er tvímælalaust nei. Samstarfið í gjaldeyrismálum og gengismálum er miklu veikara nú en það var fyrir einu til tveimur árum síðan og mjög vafasamt að það muni styrkjast í bráð.
    Maastricht-samkomulagið er enn þá í fullkominni óvissu og það er auðvitað mjög merkilegt að fylgjast með því hve erfiðlega gengur í Bretlandi, ekki í Danmörku heldur í Bretlandi fyrst og fremst að fá það staðfest. Stjórnkerfi sumra lykillanda eins og Ítalíu er t.d. í upplausn og samstarf Þjóðverja og Frakka er nú með töluvert öðrum hætti en það var um langt árabil. Það sem kannski skiptir höfuðmáli er að við veikleikann, bæði pólitískan og efnahagslegan hjá öðrum ríkjum í Evrópubandalaginu, hefur Þýskaland í æ ríkari mæli farið sínar eigin leiðar efnahagslega og að nokkru leyti pólitískt. Þannig að ef litið er á þróunina á síðustu missirum, þá er kannski meira um það að ræða að Evrópubandalagið sjálft hefur verið að togast í sundur og þjóðareiningarnar að skipa sér sérstöðu í gengismálum, í gjaldeyrismálum og í öðrum þáttum efnahagsmála. Ég held þess vegna að það sé ekki hægt að líta þannig á að í Evrópu sé í gangi einhver samrunaþróun sem þurfi að vera grundvallarforsenda í umræðu hér á landi. Þvert á móti má færa fyrir því rök að það sé hið nýja sundurþykki og hin nýju átök og hin nýja óvissa í málefnum álfunnar í heild sinni sem skapi nýjar aðstæður. Það er auðvitað líka mjög athyglisvert þegar maður horfir tvö ár, jafnvel eitt ár aftur í tímann, að vonir manna um það að stofnanir Evrópu, Evrópubandalagið, Vestur-Evrópusambandið, kannski Ráðstefnan um öryggi og samvinnu þó að fleiri ríki taki þar þátt, gætu orðið grundvöllur að lausn vandamála eins og t.d. í Júgóslavíu, þessar vonir hafa að engu orðið og það hefur orðið að leita til Sameinuðu þjóðanna og síðan NATO til þess að taka að sér verkefni sem ýmsir töldu fyrir einu eða tveimur árum síðan að þessar nýju evrópsku stofnanir ættu að annast. Þess vegna er kannski miklu meira verkefnið að glíma við það hvernig stendur á því að allt þetta liggur nánast í rúst hvað hugmyndaheim höfundanna um hvað hina miklu, nýju Evrópu snertir.
    Virðulegi forseti. Vissulega kemur utanrrh. í skýrslunni við og við að óvissu í þessum efnum eins og hann gerir á bls. 6 þar sem hann segir: ,,Óvissa setur nú svip á stjórnmálaástandið í Evrópu.`` Og segir: ,,Snurður einnig hafa hlaupið á þráðinn í tilraunum ríkja Vestur-Evrópu til að koma á nánara sambandi sín á milli á viðskipta- og efnahagssviðinu.`` Ég verð að segja með fullri virðingu að mér finnst orðið ,,snurður`` vera ansi vægt orð í þessu samhengi. Það eru satt að segja miklu stærri grundvallarvandamál sem þar hafa komið fram heldur en að hægt sé að gefa þeim þetta heiti.
    Í því samhengi er fróðlegt að benda líka á það að á bls. 11 segir hæstv. ráðherra: ,,EES-samningurinn getur átt fyrir höndum lengri líftíma en marga grunar.`` Það kann vel að vera, en hann er bara ekki fæddur enn, hæstv. ráðherra, sem lögformlegur gerningur milli þjóðanna. Hann er enn þá í meðferð. Og fréttir gærdagsins voru þær að fæðingunni yrði frestað enn um sinn þannig að við erum hugsanlega komin fram í síðari hluta kjörtímabils núv. ríkisstjórnar án þess að þessi ungi hafi komið úr egginu. Þess vegna er fullkomlega ótímabært að fara að velta því fyrir sér hvað hann muni lifa lengi. Fyrst þarf hann nú að fæðast, hæstv. ráðherra. Það hefur hann ekki gert enn.
    Það er líka mjög fróðlegt að velta því fyrir sér, af því að hér hefur nú staðið mikil umræða um það hvað Íslendingar hafi verið sérkennilegir í þessu og hæstv. ráðherra fór á alþjóðlegan vettvang og gaf lýsingar á ræðustíl og þingsköpum og líffæraástandi þingmanna á Íslandi. Svo kemur bara í ljós að Ísland er í hópi þeirra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins sem hafa verið landa fyrst til þess að ganga frá

málinu. Það er röð af ríkjum sem eru sum hver ekki einu sinni búin að leggja samninginn fyrir þjóðþingin. Það kom fram í gögnum sem hæstv. utanrrh. afhenti utanrmn. að minni beiðni fyrir skömmu síðan að það er ekki búið að leggja frv. um Evrópskt efnahagssvæði fyrir franska þingið enn þá, ekki einu sinni búið að leggja grunnfrv., frv. sem við vorum að afgreiða hérna í janúar, fyrir franska þingið. Og hefur verið kvartað yfir þingsköpum í Frakklandi eða líffæraástandi franskra þingmanna? Eða hvað er það sem veldur að ríkisstjórnin í Frakklandi er ekki enn búin að leggja frv. fyrir franska þingið? Ég nefni þetta bara sem eitt dæmi af mörgum. Þannig hlýtur lærdómur okkar, jafnvel þótt menn væru miklir stuðningsmenn Evrópska efnahagssvæðisins, að vera sá að þeir sem eru með okkur í þessari farþegalest eru sífellt að grípa í bremsurnar. Á sama tíma hafa svo íslensk fyrirtæki og ýmsir aðrir verið að gera sér vonir um það og miðað kannski verkefni sín við það að hægt væri að koma þessu í gang, en þá eru bara félagar okkar í þessari lest að koma í veg fyrir það.
    Allt þetta finnst mér kalla á umræður um það hvernig 260 þús. manna hagkerfi á að haga sér í þessari þróun allri saman og þar vil ég nefna hlut sem er ekki vikið að í þessari skýrslu en hefur orðið mér æ meira umhugsunarefni. Það eru þær ályktanir sem við getum dregið út frá því að við erum bara 260 þús. manna þjóð. Kannski er tími til kominn að við setjumst niður og förum bara að velta þeirri staðreynd fyrir okkur einni og sér, látum allt annað bara bíða í bili, veltum því fyrir okkur að það hljóta að vera efnisleg takmörk fyrir því hvað 260 þús. manna þjóð getur tekið mikið að sér af alþjóðlegum verkefnum. Það eru takmörk fyrir því hvað hún getur teygt sig mikið til verkefna og samstarfs á alþjóðavettvangi. Hún hefur ekki mannafla til þess, hún hefur ekki embættismenn. Fyrirtækin geta ekki hagnýtt er möguleikana o.s.frv. Ég held að ég hafi einu sinni áður sagt það við hæstv. utanrrh. að það ruglar menn kannski í ríminu að sitja í mörg ár á fundum erlendis kringum þessi stóru hringborð sem þar eru. Þar mætir utanríkisráðherra Bandaríkjanna og hann fær svona spjald og svo situr hann einn fyrir aftan það með kannski einum embættismanni og svo utanríkisráðherra Bretlands og svona koll af kolli. Og svo kemur þessi utanríkisráðherra frá 260 þús. manna þjóðinni og hann fær sams konar spjald og hann fær líka einn stól og annan stól fyrir annan mann. Þannig að þeir sitja þarna alveg í sama þungavigtarflokki, sá sem er fulltrúi Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands og sá sem er fulltrúi 260 þús. manna þjóðar. Það er kannski engum manni hollt til lengdar að sitja marga svona fundi.
    Þetta snertir líka hið efnahagslega samstarf okkar. Ég óttast það dálítið að menn séu að dreifa þar kröftunum allt of víða. Í raun og veru þarf kannski ekki mjög stórt svæði af markaði veraldarinnar, litlar hillur fyrir íslenska hagkerfið til að gera það nokkuð gott. Ef við erum aftur á móti að teygja okkur allt of víða og alls staðar án þess að nýta þau tækifæri sem gefast til fullnustu þá verður kannski lítið úr þeim möguleikum sem opnaðir eru.
    Ég vil biðja hæstv. utanrrh. að hugleiða þennan þátt stærðarinnar í allri þessari umræðu því að í raun og veru er það þannig að þegar maður les þessa skýrslu í gegn, þá skín víða orðalag og hugsunarháttur sem gefur það til kynna að hér sé nokkuð öflugt ríki að útskýra sín viðfangsefni og marka stefnuna. Og það kunni kannski að vera ágæt byrjun á umræðu milli flokkanna að menn geri sér grein fyrir þeim takmörkunum sem við höfum.
    Virðulegi forseti. Hér að undanförnu hafa verið nokkrar umræður um Atlantshafsbandalagið og Sameinuðu þjóðirnir og tengsl okkar við Atlantshafsbandalagið og að hluta til einnig samning við Bandaríkin um þá starfsemi sem þau hafa haft hér á landi. Mér finnst því miður í þessari skýrslu nánast engin tilraun vera gerð til þess að draga einhverjar nýjar ályktanir af því mikla sem gerst hefur. Ég veit að ég þarf ekki að rifja það upp hér í þessum sal að í áratugi hefur sú röksemd verið notuð fyrir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, fyrir dvöl bandaríska hersins á Íslandi að Íslandi sé ógnað frá fyrst og fremst Sovétríkjunum. Eins og við vitum eru Sovétríkin ekki til og Varsjárbandalagið ekki lengur til. Bandaríkin og Rússland hafa gert formlegan vináttusamning og þó ég hafi nú ekki lesið þessa skýrslu grannt, hæstv. utanrrh., hverja einustu setningu, þá vil ég spyrja að því: Er það virkilega þannig að í þessari skýrslu sé hvergi minnst á hinn formlega vináttusamning Rússlands og Bandaríkjanna, hæstv. utanrrh.? Ég get að vísu farið aftur yfir skýrsluna og reynt að leita þetta uppi. En mér finnst það líka dálítið merkilegt ef hægt er að leggja skýrslu fyrir Alþingi um þessi mál þar sem drepið er á mörgu og hér er búinn að vera síðan 1951 samningur við Bandaríkin um varnir Íslands, fyrst og fremst vegna ógnar frá Sovétríkjunum, og menn ætla bara ekkert að fjalla um það að nú er höfuðóvinurinn búinn að gera formlegan vináttusamning við þann sem er hér til að verja okkur fyrir þessum sama höfuðóvini. Menn mega passa sig mjög á gamla orðfærinu í þessari nýju umræðu Hér stendur t.d. á bls. 7 í þessum stutta kafla: Bjargföst undirstaða öryggis --- þetta er nú skáldlegt orðalag, alltaf mjög hættulegt að tala um bjarg, utanrrh., í alþjóðamálum um þessar mundir. Þau hafa haft mikla tilhneigingu til þess að klofna. ,,Bjargföst undirstaða öryggis`` --- og þar stendur þessi gullvæga setning:
    ,,Í skýrslu nefndarinnar um öryggis- og varnarmál er réttilega á það bent að á tímum örra breytinga í heimsmálum standi Íslendingar ekki vörð um öryggi sitt nema með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og með varnarsamstarfi við vinveitt nágrannaríki.`` Lykilhugtak, ,,vinveitt nágrannaríki``, í þessum stutta kafla um hina bjargföstu undirstöðu öryggis. Og nú vil ég spyrja bæði af stjórnmálaástæðum og rökrænum ástæðum, hæstv. utanrrh.: Hver eru hin óvinveittu nágrannaríki? Eða eru einhver nágrannaríki sem ekki flokkast undir þetta heiti ,,vinveitt nágrannaríki``? Ég veit ekki betur en Ísland starfi í Atlantshafsráðinu þar

sem fyrrverandi ríki Austur-Evrópu og NATO-ríkin hafa gengið að einu borði til þess að starfa saman. Ég veit ekki betur en að Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu sé búin að fá nýtt hlutverk þar sem þessi ríki sitja einnig. Og ég nefni enn hinn formlega vináttu- og friðarsamning Rússa og Bandaríkjanna. Ef Rússland er orðið formlegt vinátturíki Bandaríkjanna, eins og það er orðið með formlegum samningi, er það þá enn þá óvinaríki Íslands, hæstv. utanrrh.? Eða er ríki sem er orðið formlega, samkvæmt alþjóðlegum samningi, vinátturíki Bandaríkjanna ekki vinátturíki okkar? Hvers konar hugmyndafræði og rökfræði liggur á bak við það að segja ,,með varnarsamstarfi við vinveitt nágrannaríki``? Og þetta á að vera bjargið, hæstv. ráðherra.
    Ég nefni þetta bara sem lítið dæmi um það að mér finnst í þessari skýrslu ekki nokkur tilraun gerð til þess að fara undir yfirborðið á því sem verið hefur að gerast. Ég get skilið það, af því að maður þekkir dálítið til í ráðuneytum, að svona skýrslur eru oft samdar þannig að embættismenn eru látnir semja einhvern texta og svo er þessu hrúgað svona saman og það er kannski tilviljunum háð hvað í þessu stendur. En hæstv. utanrrh. hefur þó sagst hafa og oft sýnt meiri metnað en þann að taka bara einhver plögg frá embættismönnum og endurprenta þau sem álitgerðir frá sér. Mér finnst vera mjög brýnt að menn fari að setja sig í það að fara undir yfirborðið á þessu af því að það þarf að skoða hugtökin upp á nýtt. Hér er notað hugtakið ,,vinveitt nágrannaríki``. Hvað merkir það í þessari nýju umræðu, við þessar nýju aðstæður, við brotthvarf Varsjárbandaglagsins, við stofnun Atlantshafsráðsins, við vináttusamning Rússlands og Bandaríkjanna? Og svo er sett hér innan gæsalappa hugtakið ,,hin bjargfasta undirstaða öryggis landsins``.
    Síðan er þar á eftir kafli sem heitir ,,Óbreytt hlutverk varnarliðsins``. Það er satt að segja, virðulegi forseti, afar sérkennilegur kafli. Hvernig getur varnarliðið haft óbreytt hlutverk við þær aðstæður sem nú eru orðnar? Það getur ekki verið óbreytt, hæstv. ráðherra. Það má hins vegar ræða það að hve miklu leyti það kann að breytast og hvernig þær breytingar eiga að verða, en það getur alls ekki verið óbreytt. Og hvers vegna getur það ekki verið óbreytt? Það eru margar ástæður, ekki bara þessar formlegu sem ég hef hér rakið um stofnun Atlantshafsráðsins og brotthvarf Varsjárbandalagsins og um vináttusamning Bandaríkjanna og Rússlands. Það er líka sú staðreynd að samkvæmt upplýsingum Bandaríkjamanna sjálfra eru flugvélar Rússa hættar að fljúga hér í kring að mestu eða öllu leyti. Það væri t.d. fróðlegt að utanrrh. upplýsti hér hvenær herflugvél frá Rússlandi flaug síðast inn í okkar lofthelgi. Í öðru lagi væri fróðlegt að ráðherrann upplýsti, hvers eðlis hefur umferð kjarnorkukafbáta Rússlands verið hér á undanförnum missirum? Eða er það kannski staðreynd að vegna efnahagserfiðleikanna í Rússlandi hafi þeir einfaldlega ekki lengur efni á því að verja eldsneyti, mannafla og orku, fjármagni og tækjabúnaði í að endurnýja þennan flota og halda honum gangandi, bæði flugflotann og kjarnorkuvopnaflotann. Ætli það sé ekki þannig?
    Þar að auki er það auðvitað þannig að í Bandaríkjunum er í gangi markviss stefna um að skera niður hernaðarumsvif Bandaríkjanna í Evrópu. Ég held, virðulegi forseti, að það sé heldur hvergi að finna í þessari skýrslu tilvísun til þess að hin nýja stjórn Bandaríkjanna tilkynnti fyrir þó nokkrum vikum síðan á fundi Atlantshafsbandalagsins að hin nýja stjórn stefni að enn meiri fækkun hermanna Bandaríkjanna í Evrópu heldur en fyrri stjórn stefndi að. Ég held að það sé hvergi í þessari skýrslu. Og það kom heldur ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra að hann gerði nokkra tilraun til þess að draga ályktanir af því.
    Það eina sem sagt er hér er að fram hafi komið á Bandaríkjaþingi tillögur um að leggja niður varaliðsherdeildir sem tengdar hafa verið Íslandi á árunum 1995--1996. Bandaríkin hafa sem sagt ákveðið sjálf að leggja fram tillögur um það að nú sé ekki lengur þörf á þessum varaliðsherdeildum. Þá kemur utanrrh. Íslands og vill endilega halda þeim áfram eða finna einhverjar nýjar. Er það virkilega þannig að utanríkisráðherra Íslands sé að biðja um meiri hernaðarumsvif heldur en Bandaríkin telja nauðsynlegt út frá þeirra upplýsingum? Og hvaðan koma þá utanríkisráðuneytinu á Íslandi upplýsingar sem kalla á það að það telur þá nauðsynlegt að finna nýjar varaliðsherdeildir fyrir þær sem Bandaríkin ætla að leggja niður? Er þetta virkilega þannig að sú stefna sem er ríkjandi innan ráðuneytisins, hvort sem það er hjá ráðherrunum eða embættismönnunum, sé að loka augunum fyrir því sem er að gerast, það skuli bara halda áfram öllu því sem verið eins og heimurinn hafi ekkert breyst? Það sé bara óbreytt hlutverk varnarliðsins, bjargföst undirstaða öryggis, svo að maður vitni í nokkrar kaflafyrirsagnir? Mér finnst, virðulegi ráðherra, þetta ekki vera vitnisburður um það að menn séu reiðubúnir að skoða þetta með opnum huga, mér finnst þetta vera svona álíka og þessi tilvitnun sem ég gat um hér áðan, í kjarnorkuvopnatilraunastefnu Bandaríkjastjórnar, að það er vitnað í gömlu stefnu Bush í þessari skýrslu. Þó að skýrslan sé lögð fyrir Alþingi um það bil hálfu ári eftir að Bush féll, þá eru forsendurnar bara gamla stefna Bush í þessari skýrslu og Ísland ætlar að fylgja henni áfram, takk fyrir.
    Eins er umræðan hér um herstöðina. Hún ber engin merki þess að gerð sé tilraun til að draga ályktanir af hinum nýju viðhorfum sem hafa verið að koma fram í Washington. Er Ísland þó með sendiherra enn þá í Washington. Þó að ekki sé sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, þá er enn þá sendiherra í Washington. Það er heldur ekki, virðulegi forseti, ef ég hef lesið þessa skýrslu grannt, ég skal þó ekki útiloka að það hafi farið fram hjá mér, gerð mikil tilraun til þess í skýrslunni að fjalla um kjarnorkuafvopnun á höfunum. Þó var það nú þannig að utanríkisráðherra Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, hafði merkilegt frumkvæði að því fyrir nokkrum árum síðan að flytja það mál inn á alþjóðlegan vettvang. Síðan það var gert hafa verið að koma fram staðreyndir og upplýsingar sem sýna enn meiri þörf á þeirri stefnu nú en áður

vegna þess að nú er að koma fram í dagsljósið hvernig Sovétríkin höguðu sér varðandi umhverfisöryggi hafsins í meðferð búnaðar kjarnorkukafbátanna og kjarnorkukafbátanna sjálfra á hafsvæðum sem eru í nágrenni Íslands. Það hefði þess vegna verið full ástæða til þess að endurvekja nú þá stefnu af miklum krafti. Það er hins vegar ekki gert í skýrslunni og sakna ég þess að hæstv. utannrrh. skuli ekki hafa reynt að endurvekja sínar fyrri hugmyndir og tengja þær við þær staðreyndir sem nú renna miklu sterkari stoðum undir það stefnufrumkvæði sem hann tók á sínum tíma heldur en þó lágu fyrir. Ég minni t.d. á að hann hefur sagt frá því að hann og þáv. forsrh. Steingrímur Hermannsson hafi háð nokkra lotu við Margréti Thatcher og aðra á leiðtogafundi NATO, að mig minnir í London, sællar minningar, þar sem utanrrh. stóð vaktina langt fram eftir nóttu meðan aðrir sátu að veisluborði í orðahríð við fulltrúa annarra ríkja sem ekki vildu samþykkja að afvopnun á höfunum væri tekin inn í stefnumótunina. Nú eru aftur á móti komin fram skýr og efnisleg rök sem liggja á hafsbotninum og upplýsingar úr hinu nýja stjórnkerfi í Rússlandi sem eiga að gera þennan málflutning svo sterkan í dag að ég efast um að jafnvel baráttuglaðir menn á fundum NATO mundu treysta sér til að leggjast gegn hugmyndum og tillögum sem þeir gerðu þó á fundinum í London á sínum tíma.
    Eins er þetta auðvitað með herstöðina, hæstv. utanrrh. Það liggur alveg ljóst fyrir það þær breytingar sem hafa orðið hljóta að breyta eðli hennar með afgerandi hætti og eins og ég sagði fyrir páska, þá getur enginn maður fullyrt það í dag að Bandaríkjastjórn muni ekki einhliða taka ákvarðanir um það að minnka og jafnvel skera niður með afgerandi hætti þá starfsemi sem hér hefur verið. Hver á að vera afstaða Íslands í þessu? Á afstaðan að vera bara að bíða, búa til frasa eins og bjargföst undirstaða öryggis, óbreytt hlutverk varnarliðsins eða eigum við að reyna að búa hér til grundvöll fyrir sameiginlega afstöðu Íslendinga gagnvart hinu nýja öryggiskerfi? Hver er ástæðan fyrir því að það er í gangi mjög víðtæk umræða um alþjóðlegt öryggiskerfi, umræða sem nánast hverfur í þessari skýrslu? Henni er hvergi lyft í þessari skýrslu. Þó er það að dómi kunnáttumanna það merkilegasta sem hefur verið að gerast á vettvangi öryggismála á síðustu missirum, að í fyrsta skipti frá því að kalda stríðið frysti Sameinuðu þjóðirnar skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina eru menn nú að koma fram með fjölda tillagna og framkvæma breytingar sem allar fela í sér nýtt öryggiskerfi. Ástæðurnar eru margar:
    1. Lok kalda stríðsins sýna það að vandamál sem hafa verið falin knýja á um fjölþjóðlegar lausnir. Menn ráða ekki við átök af þjóðernisuppruna eða uppbrot ríkja án þess að fara í fjölþjóðlegar lausnir af því tagi.
    2. Hættan sem umhverfinu stafar af margvíslegum mengunarorsökum er orðin slík og svo víðtæk að hún ógnar ekki síður öryggi ríkja heldur en vígbúnaðarkapphlaupið áður fyrr. Og menn geta ekki tekist á við þetta vandamál nema með nýju öryggiskerfi.
    3. Það er staðreynd að þekkingin á að búa til kjarnorkuvopn, tæknigetan til að búa til kjarnorkuvopn og efnahagslega getan til að búa til kjarnorkuvopn er orðin mjög útbreidd og það eru núna milli 15 og 20 ríki sem geta hæglega komið sér upp kjarnorkuvopnum ef þau svo kjósa. Hvernig ætla menn að glíma við það vandamál? Menn fengu sýnishorn af því vegna Norður-Kóreu fyrir nokkrum vikum síðan. Og sýnishornið sýndi auðvitað að eina raunhæfa leiðin til þess að glíma við að vandamál var í gegnum fjölþjóðlegt öryggissamstarf tengdu Sameinuðu þjóðunum. Þetta var auðvitað ástæðan fyrir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna steig það skref að boða í fyrsta skipti í sögu sinni til leiðtogafundar öryggisráðsins. Það hefur aldrei gerst áður. Í áratugi komu varla utanríkisráðherrar inn í sal öryggisráðsins, hvað þá heldur forsætisráðherrar eða forsetar. Það voru annaðhvort sendiherrar eða minni háttar embættismenn í ráðuneytunum heima fyrir sem þar sátu. En á síðustu missirum eru þeir orðnir svo margir fundirnir sem hæstv. utanríkisráðherrarnir mæta á að menn eru hættir að telja þá. Og það sem löndin telja mikilvægast er að sumir af þeirra æðstu mönnum sitji í sætunum þegar atkvæðagreiðslan fer fram og leiðtogar allra ríkjanna töldu nauðsynlegt að koma saman til fundar og taka ákvörðun um að biðja hinn nýja framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að skila þeim tillögum um nýtt öryggiskerfi. Það gerði hann fyrir tæpu ári síðan. Og nú fer reglulega fram hjá Sameinuðu þjóðunum í hverjum mánuði umræða milli ríkjanna í öryggisráðinu þar sem þau taka afstöðu til þessara hugmynda lið fyrir lið þannig að þau eru í reynd að smíða þetta nýja kerfi frá einum mánuði til annars. Það er ekki einhver umræða eða hugtök eða vangaveltur. Sú smíði er í gangi. Eðli þess kerfis hlýtur að vera það að smáþjóðir sem ekki hafa eigin her hljóta að hafa varanlega hagsmuni af því hvernig sú umræða verður og hvaða ákvarðanir verða teknar. Þá kem ég enn og aftur að því að það er bókstaflega óskiljanlegt að á slíkum umbrotatímum og nýsköpunartímum í sögu Sameinuðu þjóðanna skuli utanrrh. Íslands einmitt kjósa að Ísland hafi þar ekki sendiherra. Það er nánast eins og tilkynning til Sameinuðu þjóðanna að Ísland eitt örfárra ríkja í Sameinuðu þjóðunum telji ekki mikilvægt að fylgjast með því sem þar er að gerast og hafa fullmektuga sveit manna. Það er ekki hægt að kalla sendiherra Íslands Sameinuðu þjóðanna til fundar. Það hefur ekki verið hægt missirum saman því hann er ekki á staðnum. Hann er ekki til. Og það er satt að segja dálítið sérkennilegt miðað við að úrval manna sem rætt er nú um að séu að sækjast eftir hinum og þessum embættum á vegum ríkisstjórnarinnar að ráðherrann skuli ekki geta fundið einhvern til að gegna þessari stöðu.
    Fyrir örfáum árum síðan voru ýmsir sem sögðu að þessi umræða um nýtt, alþjóðlegt öryggiskerfi væri nánast í blámóðu fjarskans, draumórar sem ekki tæki því að tala um. Það sem skipti máli væru þær stofnanir sem fyrir væru, hernaðarbandalögin og annað þeim tengt. Nú er þetta gjörbreytt. Nú er þetta bara

að gerast. Og menn þurfa ekki annað en fara hérna inn í lesherbergi þingsins, taka International Herald Tribune á hverjum einasta degi og það er ekki bara ein, ekki bara tvær, ekki bara þrjár, það er fjöldi frétta í þessu blaði sem eingöngu fjallar um það hvernig Sameinuðu þjóðirnar eru að taka upp þessi nýju verkefni, frétt eftir frétt eftir frétt eftir frétt. Og ef maður lítur yfir þennan vettvang frásagnanna á síðustu tveim til þremur missirum og ber það saman við það sem var fyrir tveimur til þremur árum, þá sjá menn þessar breytingar í raunveruleikanum. Væntanlega er það ekki stefna Íslendinga að vera hér með erlenda herstöð varanlega. Það hefur a.m.k. enginn íslenskur stjórnmálamaður sagt það fram að þessu. Menn tala stundum um þessi mál núna út frá atvinnuhagsmunum og öðrum slíkum, gjaldeyrishagsmunum. En ég minni á það að menn eins og núv. formaður utanrmn. hafa ávallt sagt það að menn gætu ekki dæmt varnarsamninginn við Bandaríkin og tilvist herstöðvarinnar út frá peningalegum hagsmunum eða atvinnuhagsmunum. Menn yrðu að gera það út frá öryggishagsmunum. Og það er alveg ljóst, ef maður gerði innihaldsgreiningu og hefði það sem verkefni, jafnvel doktorsverkefni í stjórnmálafræðum, að framkvæma innihaldsgreiningu á röksemdum fyrir dvöl hersins á Íslandi á undanförnum 40 árum, þá er það alveg ljóst að þær röksemdir eiga flestar ekki við í dag. Þær eru úreltar. Og eiga íslensk stjórnvöld þá að bregðast við með þeim hætti að fara að leita dauðaleit að nýjum röksemdum, bara einhverjum röksemdum til þess að geta rökstutt að þetta verði að vera svona áfram? Eða á að breyta því? Á virkilega að fara að halda áfram að gefa skýrslu hér til Alþingis að þegar jafnvel Bandaríkin sjálf gera tillögu um það að hætta að vera með varahersveitir á Íslandi, þá komi endilega utanrrh. Íslands og segi: Nei, það þarf að halda þeim áfram?
    Ég hef nefnt þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að þegar hæstv. ráðherra --- og ég fagna því --- tekur jákvætt undir það að menn hefji nýja umræðu, þá geri hann sér líka grein fyrir því að heimurinn hefur breyst með þeim hætti að þeir sem hafa setið báðum megin við þetta borð þurfa að endurskoða sín vinnubrögð og sínar hugmyndir.
    Ég sagði í október í þessum ræðustól í umræðum um stefnuræðu forsrh. að það væri nauðsynlegt að bæði stjórn og stjórnarandstaða tækju upp ný vinnubrögð, hættu fyrri vinnubrögðum varðandi efnahagsmál í landinu. Hæstv. utanrrh. kaus þá, og reyndar hæstv. forsrh. líka, að henda þessa yfirlýsingu á lofti og endurtaka hana hvað eftir annað á þann veg að nú hefði ég sagt að nú yrði stjórnarandstaðan að taka upp ný vinnubrögð, hætta úreltum, gömlum stjórnarandstöðuvinnubrögðum. Þetta var svona sniðugt í nokkra mánuði. En ég held, hæstv. ráðherra, ef horft er til atburðanna á sviði íslensks efnhagslífs og kjaramála á þeim tíma sem liðinn er frá því í október, þá geti menn dregið þá ályktun að það hafi verið rétt sem ég sagði, það hefði verið skynsamlegt fyrir bæði fyrir stjórn og stjórnarandstöðu að setjast niður og reyna að ná nokkuð breiðri samstöðu um þá miklu erfiðleika sem hér er við að glíma. Það var ekki gert. Þvert á móti fóru menn að reyna að fleyta flokkspólitískar keilur í þeirri orðræðu. Niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin og þjóðin situr uppi með mikinn vanda. Ég vona að það verði ekki vinnubrögðin í þessari umræðu um utanríkismál.
    Ég hef af fullum heilindum komið hér fram og sagt: Við skulum ræða þessa hluti með nýjum hætti. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það eru ekki allir ánægðir með það, t.d. í mínum flokki eða annars staðar í þjóðfélaginu sem hafa stutt ýmis þau sjónarmið, ég geri mér fyllilega grein fyrir því. Ég er ekki svo blindur. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þegar menn koma fram með slíkar yfirlýsingar, þá taka menn þá áhættu að skammsýnir, ungir stjórnmálamenn fari fram í fjölmiðlum og komi með billegar og ómerkilegar tilgátur um það hvað liggi þarna á bak við eins og formaður þingflokks Alþfl. gerði á Stöð 2. ( ÖS: Vertu ekki spældur, Ólafur minn.) Já, þetta frammíkall er ágætt dæmi um pólitískan þroska stuðningsliðs utanrrh. að kalla hér fram í: ,,Vertu ekki spældur, Ólafur minn.`` Ef þetta er standardinn á umræðunni sem helstu forustumenn stjórnarflokkanna, eins og formaður þingflokks Alþfl. vilja hafa, þá er það auðvitað alveg ljóst að það er vonlaust að fara hér inn í þann farveg að bjóða upp á opna umræðu um þessi mál. Ég segi hins vegar við hæstv. utanrrh.: Þessi mál eru miklu alvarlegri en svo að menn geti leyft sér það að taka á þeim með þessum hætti. Menn geta ekki leyft sér það. Og það verður prófraun á hæstv. ríkisstjórn á næstu mánuðum hvort hún er reiðubúin í þessar umræður eða ekki með einhverjum hætti að finna þeim formlegan farveg eða hvort þetta verður eins og í efnahagsmálunum að skammsýnin, hrokinn og spíssfyndugheitin fái að ráða ferðinni. Verður það leiðbeinandi það sem formaður þingflokks Alþfl. hefur sagt við upphaf þessarar umræðu eða verður það leiðbeinandi sem Björn Bjarnason hefur sagt við upphaf þessarar umræðu? Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvor þeirra mun ráða þessum viðbrögðum, hv. þm. Björn Bjarnason eða hv. þm. Össur Skarphéðinsson.
    Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég að fara örfáum orðum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson vék aðeins að því máli hér áðan og ég tel líka nauðsynlegt að gera það hér með örfáum orðum.
    Nú er það nokkuð ljóst, greinilega, að það voru mikil mistök að byggja þessa flugstöð á sínum tíma einfaldlega vegna þess að hún var of dýr. Við vorum margir sem sögðum það 1983, 1984 og 1985: Þessi flugstöðvarbygging er allt of dýr. Ég sat í nefnd um þá byggingu, ég lagðist gegn henni. Ég benti á það að á Heathrow, Kastrup, Lúxemborg og annars staðar létu menn sér nægja kassabyggingar, ekkert mjög glæsilegar en einfaldar kassabyggingar sem hægt var þá að stækka ef þörf væri. Nei takk, það var ekki gert hér. Bandaríkjamenn höfðu boðið, ef ég man rétt, 40 millj. dollara. Þeim dollurum var veifað framan í þjóðina og sagt: Ætla menn að hafna þessu tilboði frá Bandaríkjamönnum? Hvað er þetta? Eru menn á móti

vestrænni samvinnu? Og ég veit ekki hvað og hvað. En Bandaríkjamenn höfðu auðvitað vit á því að segja: Þetta eru 40 millj. dollarar og ekki dollar meir. Niðurstaðan varð sú að íslenska þjóðin skuldar nú, hæstv. ráðherra, 4 milljarða í þessari byggingu. Og það hefur verið viðfangsefni stjórnvalda um langt árabil að glíma við þennan fortíðarvanda.
    Þá gerist það, virðulegi ráðherra, að aðstoðarmaður utanrrh., Þröstur Ólafsson, tilkynnir það að búið sé að taka ákvörðun um útleigu Fríhafnarinnar, þessarar meginviðskiptastarfsemi sem fer fram í flugstöðinni. Og það eigi að bjóða reksturinn út í haust. Hér er greinilega á ferðinni enn á ný eitthvert einkavæðingarflipp af hálfu stjórnarflokkanna án þess að nokkur efnisrök séu færð fyrir því að það sé hagkvæmt. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra:
    Í fyrsta lagi: Hvar hefur verið tekin ákvörðun um að leigja út Fríhöfnina í haust?
    Í öðru lagi: Er þetta ákvörðun stjórnarflokkanna beggja, ef þessi ákvörðun hefur verið tekin, eða er hún ákvörðun ráðherrans eins? Er formið á þessu með þeim hætti að ráðherra geti ákveðið þetta nánast einn og sér án þess að spyrja Alþingi að því? Og ég vil spyrja: Hver eru rökin? Eru rökin efnahagsleg? Hefur rekstur flugstöðvarinnar í núverandi formi ekki verið hagkvæmur? Og ég vil spyrja t.d. hæstv. utanrrh. hvort hann hafi kynnt sér opinberar tölur um hagkvæmni flugstöðva.
    Ég er hér með fyrir framan mig skrá yfir hagkvæmni 500 flugstöðva í veröldinni og það sem á ensku stendur: ,,The world's top 500 duty free shops 1991.`` Hvað kemur í ljós þegar þessar tölur eru skoðaðar? Hagkvæmnismælikvarðinn er sala á farþega. Þá kemur í ljós að í flugstöðinni í Keflavík er salan 43,78, í Vínarborg 11,09, í Kaupmannahöfn 14,24, í Frankfurt 16,88, í Amsterdam 27,55, í London 16,58. Ég gæti haldið áfram að þylja þessar tölur hér, en þær sýna það að flugstöðin, Fríhöfnin, salan, viðskiptastarfsemin sem fram fer í flugstöðinni hér á Íslandi er miklu hagkvæmari heldur en þær helstu flugstöðvar sem Íslendingar koma í. Og hver eru þá rökin fyrir að breyta þessu formi ef þegar er ljóst að það hefur náðst miklu meiri hagkvæmni í rekstrinum hér hjá okkur á Íslandi heldur en í þessum helstu nágrannalöndum? (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég skal ljúka máli mínu á örfáum mínútum. ( Forseti: Hæstv. ráðherra verður að yfirgefa . . .  ) Já, ég veit það að vegna annarra skyldustarfa verður ráðherrann að fara, en ég vil hins vegar biðja hann hér síðar í umræðunni að víkja að þessu máli og það gefst þá kannski tækifæri til þess að fara um það fleiri orðum.
    Ég er hér með í höndum tölur yfir launakostnað í flugstöðinni sem hefur farið hraðminnkandi á undanförnum árum. Ég er með tölur yfir söluaukningu sem hefur farið hraðvaxandi. Ég er með tölur yfir umsvifin og annað, farþegafjöldann og fleira, sem allt bendir til þess að sá rekstur sem þar hefur verið sé einstaklega hagkvæmur. Og hvaða aðilar gætu boðið í þennan rekstur? Eru það kannski Flugleiðir og Eimskipafélagið enn á ný sem eiga þá líka að fara að teygja sína anga inn í þessa starfsemi? Mér finnst þetta vera enn eitt dæmið um fljótræðislega ákvörðun sem ekki sé nokkurt vit í að vera tilkynna af hálfu utanrrn. að eigi að verða að veruleika í haust án þess að menn hafi tækifæri til þess að fara efnislega og af skynsemi ofan í þessa þætti. Ég vona að hæstv. ráðherra svari þessu síðar í þessari umræðu svo að við getum vikið að þessum afmarkaða þætti.