Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:05:56 (7123)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég geri ekkert með það þó hv. þm. reyni að nota tækifærið til þess að koma höggi á ríkisstjórnina, honum ber að gera það í starfi sem leiðtogi stjórnarandstöðuflokks. En það er einnig

þarft að ræða þetta mál málefnalega. Ekkert þýðir að halda því fram að kjarasamningar hefðu náðst fyrir mörgum vikum ef legið hefðu fyrir ákvarðanir ríkisstjórnar. Allur þingheimur og þjóðin öll veit að forsenda af hálfu Alþýðusambandsins fyrir því að kjarasamningar tækjust var að greitt hefði verið úr þeirri flóknu stöðu sem var í áldeilunni, og það gerðist fyrir fáeinum dögum. Þetta veit hv. þm. og hefði átt að átta sig á þegar hann talaði áðan.
    Þegar gengið var til umræðna um kjarasamninga nú voru uppi sjónarmið hjá aðilum, beggja vegna við borðið, um það að staðan í þjóðfélaginu væri slík að ekki væri skynsamlegt að ganga til samninga til lengri tíma. Þær raddir voru mjög sterkar innan Vinnuveitendasambandsins vegna stöðunnar í sjávarútvegi, ekki síst vegna lækkandi verðs og almennrar óvissu. Þær raddir voru líka uppi innan Alþýðusambandsins að ekki væri skynsamlegt við núverandi aðstæður að ganga til samninga sem tækju til lengri tíma. Þær raddir voru á hinn bóginn líka uppi innan beggja þessara raða að það væri reynandi og eftir því leitandi að reyna að ná samningum til lengri tíma. Þær raddir urðu ofan á að leita þessara leiða. Ég fyrir mitt leyti og ríkisstjórnin var þess fýsandi að þessir kostir væru skoðaðir. Það var vegna þessara kosta sem atbeini ríkisstjórnarinnar og ríkisins urðu að koma til vegna þess að forsendan fyrir kjarasamning til lengri tíma var atbeini ríkisins. Ríkisstjórnin hefur unnið að þessu markmiði með þeim öflum sem vildu samning til lengri tíma og ég tel að ríkisstjórnin hafi teygt sig afskaplega langt í þeim efnum. Ég tel að ekki sé hægt að sýna fram á það með rökum eða dæmum að ríkisstjórnin hafi í annan tíma, um háa herrans tíð mælt, teygt sig svo langt til þess að stuðla að kjarasamningum og að hlutdeild ríkisins í kjarasamningi hafi átt að vera jafnmikil og stóð til í þessum kjarasamningum. Það er því rangt og eingöngu pólitískir sleggjudómar að halda því fram að ríkisstjórnin hafi með afstöðu sinni gert það að verkum að menn hafa nú um stund hrokkið frá því að stefna að kjarasamningum til lengri tíma. Ég tel að þeir aðilar, sem vildu kjarasamningana til skemmri tíma, hafi því miður orðið ofan á innan Alþýðusambandsins og vilji nú leita eftir samningum til skemmri tíma. Ljóst er að til bráðabirgðasamninga þarf ekki atbeina ríkisvaldsins. Þess vegna er það svo að staðan í augnablikinu er sú að aðilar á vinnumarkaði munu leita eftir því sín á milli að ræða samninga sem gilda til skemmri tíma. Þeir hafa báðir tilkynnt það að það sé dagskrárefni viðræðna næstu daga að leita eftir samningum til skemmri tíma sem ég vildi kalla bráðabirgðasamninga. Við þær aðstæður þarf ekki að koma til atbeini ríkisstjórnarinnar með þeim hætti sem við vorum fús í ríkisstjórn að fylgja fast eftir.
    Ég vonast til að viðræðurnar muni þó leiða til þess að menn hugsi sinn gang á nýjan leik og hverfi að þeim hugmyndum að þrátt fyrir allt sé skynsamlegra að leita eftir mögulegum og færum til þess að samningar séu til lengri tíma. Ég er sammála því sem hv. þm. nefndi að vissulega er mikilvæg forsenda fyrir stöðugleika, fyrir batnandi kjörum vegna þess að vextir kunna að lækka og önnur slík skilyrði fyrir því að atvinnulífið fari af stað, að samningar séu gerðir til lengri tíma. Þess vegna var ríkisstjórnin þrátt fyrir allt tilbúin til að ganga jafnlangt og hún gerði. Ef menn horfa á þau dæmi sem eru tiltekin sem skýring á því að Alþýðusambandið hafi fallið frá því að ganga þá götu til enda að reyna lengri samninga, sjá þeir að þau eru þess eðlis að það er bersýnilega fyrirsláttur. Það hefur ekki verið eining innan þess hóps að fara þá leið sem áður var talað um af hálfu Alþýðusambandsins. Vissulega er mikill skaði að sú hafi orðið niðurstaðan hjá þessum ágætu samtökum.