Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:12:40 (7125)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er hafið yfir allan vafa að það voru og eru sameiginlegir hagsmunir launþega í landinu, forsvarsmanna atvinnulífs og þjóðarheildarinnar að það hefðu tekist samningar til langs tíma.

Hitt er jafnljóst að það var engan veginn auðvelt að ná slíkum samningum. Á þeim stutta tíma sem ég hef hér til umráða, ætla ég aðeins að svara einni spurningu og hún er þessi: Þeir sem halda því fram að þessir samningar hafi strandað á því að ríkisstjórnin hafi verið ófús til þess að leggja fram af sinni hálfu það sem til þurfti hafa annaðhvort ekki kynnt sér málið eða talað gegn betri vitund. Sannleikurinn er sá að við þessar kringumstæður þegar nánast allir vegvísar um efnahags- og atvinnulíf okkar stefna niður á við og þegar það er orðið ljóst að það er um nánast ekkert að semja milli atvinnuveitenda og launþega, sneru þessir aðilar sér sameiginlega til ríkisstjórnarinnar. Við vísum í fyrsta lagi til þess að ríkisstjórnin greip til efnahagsaðgerða á sl. hausti. Í því fólst að létta sköttum af atvinnulífinu svo nam mörgum milljörðum króna. Í því fólst að auka útgjöld ríkissjóðs til atvinnuskapandi aðgerða. Í því fólst að grípa til sérstakra aðgerða, m.a. stóraukinna framlaga til hagræðingar og skuldaskila í sjávarútvegi fyrir utan þá gengisaðlögun sem þá fór fram. Núna liggur fyrir að af hálfu ríkisstjórnarinnar var í boði að greiða fyrir þessum samningum með verulega auknum framlögum til atvinnuskapandi aðgerða, með breytingum á skattkerfinu, fyrst og fremst til þess að koma til móts við kröfur forustumanna Alþýðusambands Íslands þannig að teflt var á tæpasta vað um það að sameiginleg markmið næðust. Þá á ég einfaldlega við það að teflt var á tæpasta vað um stöðuna í ríkisfjármálum, en aukinn halli á þeim stefndi auðvitað á móti markmiðinu um lækkun vaxta. Ég endurtek: Það er staðreynd að af hálfu stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, var gengið mjög langt til móts við þessa aðila. Sú staðreynd að samningar tókust ekki er ekki ríkisstjórninni að kenna heldur því, eins og fram kom hjá forsrh., að þau öfl sem vildu ekki standa að slíkum langtímasamningum af pólitískum ástæðum urðu einfaldlega ofan á.