Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:17:58 (7127)


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að það ferli sem hefur verið frá sl. hausti í samningamálunum er ferli glataðra tækifæra fyrir ríkisstjórnina. Það hefur verið alveg ljóst frá því í haust að verkalýðshreyfingin hefur verið fús til samninga án verulegra kauphækkana. Hins vegar hafa vinnubrögð ríkisstjórnarinnar verið sein og fálmkennd, þau hafa verið í því fólgin að leggja nýjar álögur á fólkið í landinu, nýjar álögur í skattamálum, nýjar álögur í heilbrigðiskerfinu og tryggingakerfinu, setja fram ákvarðanir um atvinnuskapandi aðgerðir sem hafa svo verið dregnar til baka eins og ákvarðanir um viðhald opinberra bygginga, vegagerðar o.s.frv. og ekkert samráð hefur verið haft t.d. í fjárln. um aðgerðir í ríkisfjármálum núna upp á síðkastið. Störf í þeirri nefnd hafa alveg legið niðri.
    Það er engin furða við þessar aðstæður þó að verkalýðshreyfingin sé treg og tortryggin að semja á grundvelli almennt orðaðar yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um að stuðla skuli að lækkun vaxta og það skuli tekin upp öflug sókn í atvinnumálum til að treysta íslenskt atvinnulíf. Þetta hefur heyrst áður. Og að ríkisstjórnin sé reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks um slíka sókn. Þetta eru bara almennt orðaðar yfirlýsingar og sú yfirlýsing sem birtist í Morgunblaðinu í morgun er í stórum dráttum eins og kosningastefnuskrá. Það mætti halda að það væru kosningar fram undan. Þessi bið hefur auðvitað stórskaðað efnahagslífið og sett efnahagsmálin í mjög mikla óvissu.