Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:20:30 (7128)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þegar röðin er komin að láglaunafólki og konum, sem oftar en ekki eru reyndar sömu manneskjurnar, þá er venjulega lítið svigrúm og það er einmitt það sem við stöndum frammi fyrir núna. Ríkisstjórnin hefur létt álaginu af fyrirtækjum með því að lækka tekjuskatt og afnema aðstöðugjald og reyndar á þann hátt að það nýtist síst þeim sem mest þurfa á að halda. Það má heldur ekki gleyma því að ríkisstjórnin ber ábyrgð á því hversu slæm lífskjör eru núna. Það er hennar ábyrgð ekki síst og þar má t.d. nefna hinn aukna kostnað við heilsugæslu, læknishjálp og lyf sem er kominn á einu ári, síðasta ári, upp um 30% þannig að það er ekki að furða þó krafa sé gerð til þess að ríkisstjórnin komi þarna inn í þetta mál því að hennar er svo sannarlega ábyrgðin.
    Það er ríkisstjórninni sannarlega ekki til sæmdar að hafa hundsað BSRB í þessum viðræðum núna og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að nú verði reynt til þrautar að byrja ærlega aftur og halda þessum samningaviðræðum áfram og ekki að reyna að kljúfa launþegahreyfinguna eins og mér sýnist að sé fyllilega ásetningur ríkisstjórnarinnar.
    Það má líka benda á það að fólk hefur nú minni tekjur vegna minni vinnu og atvinnuleysisbætur eru tekjur sem enginn á auðvelt með að lifa af þannig að við lifum í umhverfi sem við verðum að viðurkenna og það þarf að opna á allar hugmyndir, m.a. til atvinnusköpunar. Það mætti fara að hugsa sér að stytta vinnutíma og deila þeim störfum sem nú eru til skiptanna á fleiri.