Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 18:04:32 (7136)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. síðasti ræðumaður beindi til mín fyrirspurn sem ég ætla ekki að svara í þessari umræðu enda verða umræður síðar um þá skýrslu sem hann ræddi, skýrslu um öryggis- og varnarmál Íslands. Sú umræða verður að tilhlutan Alþb. eins og kunnugt er.
    En ég get ekki orða bundist um það að í máli hv. ræðumanns kom fram að það er djúpstæður ágreiningur á milli hans og formanns Alþb. um afstöðuna til þeirra mála sem hér eru til umræðu. Annars vegar til hlutverks Atlantshafsbandalagsins og ekki síst til varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.
    Í ræðu sem hv. 8. þm. Reykn., formaður Alþb., flutti 6. apríl sl. komst hann þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þess vegna kann það vel að vera að þeir sem hafa áhuga á að starfrækja þá starfsemi sem hér hefur verið, og þá á ég við þessa herstöð, geti velt því fyrir sér hvort hún eigi kannski vænlegri framtíð, ef það má nota það orðalag, sem hluti af nýju öryggiskerfi tengdu Sameinuðu þjóðunum og breiðri samvinnu milli kannski Vesturheims annars vegar og Evrópu hins vegar og síðan hinna heimshlutanna heldur en sem skipulagsbundinn hluti af því stofnanaverki sem Evrópubandalagið hefur komið sér upp.`` Hv. síðasti ræðumaður útlistaði varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli þannig að hann er gjörsamlega fastur í gömlum tíma og ræða hans í heild var að verulegu leyti tímaskekkja. Honum ferst mjög illa að saka aðra um að vera fasta í gömlum tíma miðað við þann málflutning sem hann hafði uppi. Það er þessi ágreiningur, milli hans og formanns Alþb., sem endurspeglaðist mjög greinilega í ræðu hans og það virðist vera að innan Alþb. séu, því hv. ræðumaður er varaformaður Alþb., öflugir talsmenn óbreyttrar afstöðu í utanríkis- og öryggismálum þrátt fyrir þær miklu breytingar sem orðið hafa.