Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 18:50:22 (7141)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Einn þeirra hv. þm., sem talaði áðan, taldi ástæðu til að fagna því sérstaklega að umræður um utanríkis- og alþjóðamál væru æ fyrirferðarmeiri á dagskrá Íslendinga og mátti á honum skilja að af því mætti álykta að þingheimur hefði ekki asklok fyrir himin. Ef við lítum hins vegar yfir salinn þá má telja hér átta hv. þm., kannski níu, og segir það kannski sína sögu um þann brennandi áhuga sem er á þessari merku tímamótaumræðu. Ég nefndi orðið tímamót. Margir hafa nefnt það orð í umræðunni. Það er sjálfsagt ekki við hv. þm. að sakast þótt sú umræða hafi drepist á dreif. Að einhverju leyti má kenna forminu um sem minnir þá á þær hugmyndir sem voru nefndar um að æskilegt væri að breyta þessu formi þannig að umræðan væri einbeittari, við einskorðuðum okkur við afmarkaðri efni.
    En um tímamótin langar mig að segja örfá orð. Stundum er gagnlegt að reyna að setja sig í annarra spor þegar menn meta umræðuefni af þessu tagi. Fyrir fáum dögum buðu Danir, sem formenn þetta missirið fyrir Evrópubandalagið, til fundar í Kaupmannahöfn þar sem saman voru komnir utanríkisráðherrar, Evrópuráðherrar, Evrópubandalags- og EFTA-ríkja og tíu svokallaðra nýfrjálsra ríkja í Mið- og Austur-Evrópu og Eystrasaltsríkin. Þar voru ekki fulltrúar hinna 16 samveldisríkja.
    Þarna vildu menn bera saman bækur sínar um hvað hefði orðið úr tímamótunum, hvernig mál hefðu þróast á breytingaskeiðinu frá hinum herfilega viðskilnaði kommúnismans í Austur-Evrópu og í viðleitni þeirra til þess að byggja upp annars konar þjóðfélag, byggt á lýðræði og blönduðu hagkerfi. Einnig að bera saman bækur sínar um það hvert hald hefði verið í fyrirheitum vestrænna stjórnmálaleiðtoga um aðstoð og stuðning á þessum háskalegu tímum og í þriðja lagi að spyrja spurninga um það hver framtíðin yrði að því er varðaði samstarfsform Evrópubúa.
    Auðheyrt var af þessum umræðum að það er mjög takmarkaður skilningur meðal hinna makráðari stjórnmálamanna á Vesturlöndum við hvers konar sálarháska og við hvers konar tilvistarvanda þeir menn eiga sem eru í forustuhlutverki í þessum þjóðfélögum og þá á ég við Austur-Evrópuþjóðirnar. Hrun kommúnismans var algert vegna þess að hann reyndist vera ekki aðeins siðferðilegt slys, hugmyndafræðilegt slys, hann reyndist vera efnahagslegt óráð og hann reyndist vera hið herfilegasta umhverfisslys sem sagan kann frá að greina. Þessir menn hafa orðið að standa frammi fyrir því að væntingar voru miklar um skjót umskipti til hins betra. Þeir hafa hins vegar mátt upplifa það að ástandið hefur á mörgum sviðum versnað mjög verulega áður en nokkur von er til þess að það fari batnandi.
    Það fer ekki á milli mála hvert þeir beina vonum sínum og hvert þeir líta sér til halds og trausts, hinir lýðræðislega kjörnu leiðtogar Austur-Evrópu. Þeir hafa viljað líta til Evrópubandalagsins sem bakhjarls og í ræðum þeirra vitnuðu þeir í hástemmdar yfirlýsingar hinna pólitísku leiðtoga Evrópubandalagsins um það að þar væri bakhjarlinn að finna; að Evrópubandalagið mundi vissulega styðja við bakið á þeim; að það væri hin sterka stóra heild sem hefði til þess burði og afl. Í annan stað litu þeir til Atlantshafsbandalagsins. Þeir voru hófstilltir í orðum í ræðum sínum en í samtölum utan funda fór ekki á milli mála að þeir eru í angist og kvíða yfir því hvernig hlutirnir gætu axlast í fyrrverandi Sovétríkjum, í Rússlandi. Þeir bera mikinn kvíðboga fyrir því að þar séu lýðræðisöflin blaktandi á veiku skari, þar geti hæglega farið svo að þjóðernisöfl, hernaðaröfl, byggð á gömlu nomenklatúru, valdastétt kommúnismans, kæmist afur til valda. Þeim er mjög í mun að áður en þau ótíðindi gerist þá geti þeir varpað akkerum sínum í örugga höfn í vestrænum samtökum. Þess vegna líta þeir til Evrópubandalagsins. Þess vegna líta þeir til Atlantshafsbandalagsins sem þessir menn líta á sem voldugasta friðarafl heims. Engan mann hef ég heyrt lýsa því bandalagi með innblásnari hætti en Václav nokkurn Havel, forseta tékknesku flauelsbyltingarinnar en málflutningur hans var hins vegar dæmigerður fyrir málflutning hinna. Þar var ekki verið að tala í slagorðunum gömlu sem gömlu íslensku sossarnir hafa haft uppi í umræðum sínum um utanríkismál hingað til. Og þar fór ekkert á milli mála hver væru forgangsmálin, hvað þeir mætu sem raunverulegan bakhjarl. Þeir ræddu ekki mikið um Sameinuðu þjóðirnar. Sannleikurinn er sá þótt menn geri sér vissulega vonir um að hrun kommúnismans og endalok tvískiptingar heimsins í tvær valdablokkir gefi Sameinuðu þjóðunum nýtt tækifæri, mun það taka langan tíma.
    Hitt er alveg augljóst mál að nokkurrar beiskju gætti í þeirra ræðum að því er varðar Evrópubandalagið. Þeir sögðu: Við erum ekki fyrst og fremst að biðja um aðstoð, við viljum ekki fyrst og fremst koma fram fyrir ykkur sem beiningarmenn. Þeir nefndu tölur máli sínu til stuðnings og sögðu: Öll efnahagsaðstoð allra G-24 ríkjanna við Ungverjaland, sem er einna efst á blaði sem þiggjandi, er innan við 1% af þjóðarframleiðslu okkar. Það er ekki það sem skiptir sköpum. Miklu meir munar um beina fjárfestingu, t.d. þýskra fyrirtækja í Ungverjalandi, en það sem skiptir sköpum er það að við viljum fá að versla við ykkur vegna þess að við vitum af reynslu ykkar að verslunin er farartæki efnahagslegra framfara. Þar hafið þið

algjörlega brugðist vegna þess að við höfum orðið að upplifa það að sá partur Evrópubandalagsins eða sú hlið þess sem að okkur snýr er ekki fríverslunarbandalag heldur framsóknarbandalag, þ.e. verndarstefnubandalag, sem boðar afturhaldssama, innhverfa sérhagsmunastefnu að því er varðar verslun og viðskipti með landbúnaðarafurðir, matvörur og hráefni sem er það sem þessar þjóðir hafa upp á að bjóða. Þar er boðið upp á innflutningsbann í anda íslenskrar landbúnaðarstefnu, þar er boðið upp á kvóta, þar er boðið upp á boð og bönn og skammtanir. Þar er þeim boðið að keppa við gerviverð vegna niðurgreiðslna, styrkja, ríkisforsjár með svipuðum hætti og við stöndum frammi fyrir þessu bandalagi sem sjávarútvegsþjóð. Þeir sögðu: Þið hafið brugðist vonum okkar og ef ekki verður breyting hér á þá megið þið vita að þið hafið valdið almenningi í þessum þjóðum, þeim hundruðum milljóna sem byggja þessi þjóðfélög, sárum og alvarlegum vonbrigðum og megið eiga von á því að þetta verði nýtt af gömlu kommúnista-fasista öflunum, nomenklatúrunni, til að byggja upp valdastöðu sína í þessum þjóðfélögum.
    Til sannindamerkis dreifðu þeir leiðara úr aðalmálgagni gamla tékkneska kommúnistaflokksins sem nú kennir sig náttúrlega við sósíalisma og vinstri stefnu þar sem tíundað var að loforðin og boðorðin um stuðninginn við hið frjálsa markaðskerfi hefðu orðið sér til skammar, enginn skilningur væri á hinni félagslegu neyð sem fólk byggi við á umþóttunartímanum og að þessi ríki, eða allur almenningur, væri í vaxandi mæli að upplifa það að vera þægilegt fjárfestingartækifæri fyrir stórfyrirtæki og síðan væri borgvirkinu, Evrópubandalaginu, lokað við nefið á þeim.
    Í vesturhópnum sögðu menn sem svo sér til afbötunar: Já, en það er samdráttarskeið, það er eiginlega kreppa á Vesturlöndum og menn vita það að kreppan er gróðrastía verndarhyggjusjónarmiða og verndarstefnu. Menn segja: Við verðum að vernda landbúnaðinn okkar, við verðum að vernda vefnaðariðnaðinn okkar, við verðum að vernda stáliðnaðinn okkar, við verðum að vernda járniðnaðinn okkar, við verðum því miður að loka á ykkur, eins og vestrið hefur sagt við hinar snauðu þjóðir Afríku, Suður-Ameríku o.s.frv.
    Þá er þeim bent á að þetta sama Evrópubandalag getur skipt sköpum um aðra samninga í heimsbyggðinni sem þessar þjóðir í Austur-Evrópu binda miklar vonir við. Það eru GATT-samningarnir. Þeir voru spurðir út úr um það: Hafið þið ekki sagt að ef Uruguay-lotunni yrði lokið þá mætti heimshagkerfið búast við því að aukin viðskipti, ekki síst með matvæli, mundu auka þjóðarframleiðslu heimsins um 200 milljarða Bandaríkjadala á ári? Það munar um minna.
    Nú var aftur komið að tómum kofanum þegar leitað var eftir svörum vegna þess að forustumenn Evrópubandalagsins fóru náttúrlega að verja sérhagsmunina sína, reyna að varpa sök á Bandaríkin og eitthvað þess háttar þannig að ekki bætti þetta mikið úr skák.
    Mér kom það í hug þegar mér fannst togna úr þræðinum um tímamótin eða honum væri drepið á dreif að ekkert væri úr vegi að íslenskir alþingismenn reyndu að setja sig í spor þeirra manna, sem eru að upplifa þessi tímamót, sem eru að fara í gegnum reynslu sem mun vissulega hafa mótandi áhrif á þróun mála í okkar heimshluta.
    Einn þessara ræðumanna setti málið upp eitthvað á þessa leið: Hvernig má það vera úr því að við erum öll orðin svona sammála eftir hrun kommúnismans, við erum öll sammála um það að hann er fallinn og farinn og farið hefur fé betra og vonum að hann komi aldrei aftur? Við höfum öll verið að segja að við höfum sameiginleg pólitísk markmið. Við stefnum að því að byggja upp valddreift lýðræðisþjóðfélag. Við viljum byggja það á reynslu þeirra þjóða sem best hefur vegnað, þ.e. á markaðskerfi eða samkeppni, blönduðu hagkerfi. Við viljum viðurkenna réttarkerfi, fjölflokkakerfi o.s.frv. En hvernig stendur þá á því, úr því að við erum öll svona sammála um þetta, að í skipulagsformum samstarfsins þá erum við öll í hólfum og skotum? Hér er Evrópubandalagið, þarna eru EFTA-ríkin, hérna er þetta Evrópska efnahagssvæði, síðan erum við, við erum á öðru þróunarstigi, við erum ekki tæk í félagsskapinn, hvað þá heldur einhverjar þjóðir sem eru kannski enn skemmra á veg komnar svo maður nefni ekki Afríku eða eitthvað þess háttar.
    Mér fannst fróðlegt að heyra þessar umræður og taka þátt í þeim vegna þess að mér fannst vera meira innihald í þessari umræðu um tímamótin og hvað í þeim fælist og hvernig menn eru raunverulega að upplifa þessar breytingar en í retoríkinni, skrúðmælginni og fíneríinu sem oft má heyra í ræðum leiðtoganna á hátíðlegum stundum.
    Hvað kemur það þessari umræðu við? Jú, það kemur henni mikið við. Menn hafa sagt: Samrunaferillinn í Evrópu er bara blaður, er ekki Evrópa öll að leysast í sundur?
    Með samrunaferlinum í Evrópu erum við að sjálfsögðu að tala um þær breytingar sem hafa átt sér stað innan Evrópubandalagsins og þær breytingar sem hafa átt sér stað með því að reyna að opna innri markaði Evrópubandalagsins fyrir öðrum þjóðum fyrir utan, þ.e. EES-samningurinn. Ég þarf ekkert að fara í grafgötur um það að vonir þessara leiðtoga, í Mið- og Austur-Evrópu og það á við um marga a.m.k. í fyrrum Sovétríkjunum líka, er að þessi markaður verði opnaður fyrir þeim. Veruleika hinnar pólitísku tvískiptingar í Evrópu má lýsa í fáum orðum --- það er verndarstefna versus krafan um fríverslun. Og líti þá hver í eigin barm. Hverjir eru það sem eru málsvarar verndarstefnu og taka til varnar fyrir sérhagsmuni í þjóðfélagi okkar eða í þjóðfélögunum í kringum okkur? Hverjir eru það sem eru sjálfum sér samkvæmir þegar þeir reyna að boða opnun þessara þjóðfélaga, líka á markaðssviðinu? Það er pólitík. Það er þetta sem ég á við þegar ég tala um hættuna á því að hin nýja skipting Evrópu verði í kringum múra velmegunarkerfanna, þ.e. að hér verði einhvers konar virki utan um forréttindi og sérhagsmuni en hinum snauðu, sem eru skildir eftir í rústum kommúnismans, verði haldið niðri eða haldið utan dyra í nafni þessarar verndarstefnu. Hvað þýðir fríverslun? Auðvitað mun það þýða breytingar, aðlögun, líka fyrir hin ríku þjóðfélög Vestur-Evrópu. En ef menn hafa trú á að fríverslun á heimsvísu sé sé öllum til góðs þegar til lengri tíma er litið, því aðeins að menn hafi trú á því, þá eru menn reiðubúnir til að opna þessi þjóðfélög. Það er ákaflega dapurlegt til þess að vita að stjórnmálaleiðtogar koma hver á fætur öðrum á alþjóðlegar ráðstefnur og fara þar með faðirvorið sitt um fríverslun en eru ekki fyrr komnir heim en þeir fara að dekra við sérhagsmunina. Það er með öðrum orðum hægara að boða heilræðin en að halda þau.
    Virðulegi forseti. Kannski er ekki ástæða til að víkja að einstökum atriðum sem hefur borið á góma í umræðunni vegna þess einfaldlega að hv. alþm. eru flestir hverjir horfnir á braut, meira að segja flestir þeirra sem báru fram einhverjar fyrirspurnir. Ég ætla að staldra við örfá atriði.
    Spurt var um hver væri afstaða íslenskra stjórnvalda til tillagna sem eru uppi um bann við tilraunum með kjarnavopn. Út af fyrir sig er svarið einfalt: Ísland hefur stutt tillögur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um það að ná fram samningum um slíkt bann.
    Að þessu leyti er stefna íslensku ríkisstjórnarinnar nákvæmlega hin sama og fram hefur komið hjá hinum nýja forseta Bandaríkjanna. Hann sagði t.d. í ágætri ræðu í mars 1992: ,,Íhuga mætti algjört bann við tilraunum með kjarnavopn í tveimur áföngum. Þannig yrði fjöldi tilrauna takmarkaður samkvæmt samkomulagi ef reynslan af slíkri takmörkun yrði vænleg og ekkert óvænt gerðist yrði hægt að stefna að algjöru banni.`` --- Þetta er vel og skynsamlega mælt. Hitt er svo annað mál að það er staðreynd að Bandaríkin eru forusturíki Atlantshafsbandalagsins og að Atlantshafsbandalagið byggir enn varnarstefnu sína að hluta til á því að viðhalda kjarnavopnum. Spurningin er einfaldlega þessi: Ætla menn að ná fram samningum um slíkt bann eða ætla menn að gera það einhliða? Hingað til hafa hvorki stjórnvöld í Bandaríkjunum né forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins treyst sér til að lýsa því yfir að það verði hægt að gera einhliða. Auðvitað tengist þetta viðleitni manna til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnavopna. Ég nefndi í ræðu minni að tæpir tveir tugir ríkja væru við það að ráða yfir kjarnavopnum og stoða þá lítt einhliða yfirlýsingar til að halda aftur af þeim.
    Að því er varðar afvopnun á höfunum þá vísaði ég til þess í ræðu minni að um það hefði ég fjallað mjög ítarlega í skýrslu minni til Alþingis seinast og ég fjallaði um það í ræðu minni áðan og þarf ekki miklu við það að bæta. Ég var spurður að því hvernig á því stæði að hinn gagnmerki vináttusamningur Bandaríkjanna og Rússlands væri ekki nefndur á nafn í skýrslunni. Vikið er að breyttum samskiptaháttum og nánari samstarfi Bandaríkjanna og Rússlands á nokkrum tugum staða í skýrslunni en ekki á þennan merkilega samning, vegna þess að hann er enginn samningur. Hann er yfirlýsing, pólitísk yfirlýsing, og byggir á því að það er samstarf milli þessara ríkja, fyrst og fremst um það að styðja þróun í átt frá alræðisstefnu til lýðræðis og samstarf á grundvelli samninga sem þegar hafa verið gerðir um afvopnun. Tvíhliða samningar og yfirlýsingar er út af fyrir sig ágætt. Þetta er yfirlýsing en hún mun duga skammt til að tryggja frið. Ætli við getum ekki nefnt nokkra tugi tvíhliða samninga, ekki bara yfirlýsinga, milli ríkja sem kveða á um það að öll vandamál skuli leyst með friðsamlegum hætti, um það að ríkin afsali sér rétti til valdbeitingar með vopnum? Og allir hafa verið rifnir í tætlur. Það hefur reynslan kennt okkur.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson furðaði sig mikið á því að það orðalag hefði verið notað að hlutverk varnarliðsins, sem er hér á grundvelli tvíhliða samnings við Bandaríkin, væri óbreytt og hvernig mætti slíkt vera? Er ekki óvinurinn fallinn í valinn? Hvernig getur það haft óbreytt hlutverk? Skýring á þessu er einföld. Við ræðum það kannski nánar ef við ræðum skýrslu nefndarinnar, sem ég skipaði til þess að meta stöðu okkar í öryggismálum. En kjarninn í svarinu er sá að hlutverk varnarliðsins samkvæmt samningnum er fyrst og fremst það að tryggja öryggi siglingaleiða yfir Atlantshaf með öruggum hætti en á því er Atlantshafssamstarfið byggt, það er líflína Atlantshafsbandalagsins. Enn er þörf á því, þrátt fyrir allt. Það er sameiginlegt mat forustuþjóða Atlantshafsbandalagsins að þær breytingar sem orðið hafa á heiminum séu ekki slíkar að svo stöddu að hægt sé að láta öryggi þessara siglingaleiða eins og vind um eyrun þjóta. Enn verði að tryggja vegna óvissu og áhættu sem tengd er breytingaskeiðinu, hvað sem síðar kann að verða.
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram kom í umræðunni, ég held hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að þörf er á því fyrir okkur Íslendinga að taka upp ítarlegri umræður um GATT-samningana. Þeir eru vissulega þýðingarmestu samningar sem eru á smíðaborðinu í alþjóðamálum, snerta þjóðarhagsmuni okkar og hagsmuni allra þjóða og væri mjög þarft og gagnlegt ef skipulega væri reynt að efla skilning manna á því, ekki síst meðal þeirra sem hvað helst eru ánetjaðir hinni úreltu verndarstefnu, hvað þar er í húfi.
    Þá vil ég loks nefna að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson beindi til mín spurningum um tillögur nefndar til lausnar fjárhagsvanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Reyndar er rétt að geta þess að hv. þm. Steingrímur Hermannsson beindi þeirri spurningu til mín fyrst í umræðunni en hann er sem kunnugt er fyrir löngu horfinn á braut og hefur engan áhuga á að bíða eftir þeim svörum. (Gripið fram í.) Það er nefnilega það. En um þetta er það að segja að utanríkis- og fjármálaráðherra fólu tveimur mönnum, þeim Hreini Loftssyni og Þresti Ólafssyni, það verkefni að skila tillögum um lausn á fjárhagsvanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Sá fjárhagsvandi er kunnur og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson nefndi tölur um það sem láta nærri og hann kynntist á sínum tíma sem fjmrh. og ég á undan honum. Og við vitum öll hvernig vandinn er til kominn. Allt of lengi hefur verið látið reka á reiðanum um að leysa það. Undan því verður hins vegar ekki komist, þetta er partur af fortíðarvanda frá tímabilinu 1983--1987. Það er athyglisvert að út af fyrir sig væri þessi fjárhagsvandi enginn ef allar tekjur af þeirri starfsemi sem fram fer á Keflavíkurflugvelli og í flugstöðinni færi til að standa undir þessum fjárhagslegu skuldbindingum. Miðað við árið 1991 og á verðlagi þess árs voru tekjur af almennri flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli alls 1.224 millj. en þar af runnu aðeins um 790 til ríkissjóðs, aðallega í formi hagnaðar fríhafnar, í formi eldsneytisgjalds og farþegagjalds. Veruleg upphæð, eða 270 millj., fór til að standa undir starfsemi flugstöðvarinnar, tæplega 14% af þessum tekjum rann til Flugmálastjórnar, til annarra þarfa, m.a. vegna byggingar og reksturs á flugstöðvum úti á landi, það voru tæpar 170 millj. eða 13,5%. Það lætur nærri að það sé sú upphæð sem þarf í viðbót við tekjur flugstöðvarinnar til að standa undir afborgunum og vöxtum á ári hverju vegna þeirra lána sem á henni hvíla.
    Til þess að svara spurningu hv. þm. er þess að geta að starfshópurinn gerði tillögur um lausn á þessum fjárhagsvanda á þessa leið: Aðgerð til tekjuaukningar, það var hækkun innritunargjalds, hækkun lendingargjalds og hækkun húsaleigu, alls 122 millj. kr. Aðgerðir til gjaldalækkunar, fasteignaskattur lagður af, breyting á innskatti virðisaukaskatts og heildaráhrif á afkomubata, 167 millj., eða nokkurn veginn nákvæmlega hin sama upphæð og rennur til óskyldrar starfsemi af tekjum flugstöðvarinnar.
    Síðan segir: ,,Framangreindar tillögur miða að því að rekstrarstjórn flugstöðvarinnar verði efld með stofnun sérstaks félags er verði í eign ríkisins. Meginverkefni þess félags verður að standa straum af greiðslum vegna skuldbindinga flugstöðvarinnar. Ekki er ráðlegt að hagsmunaaðilar í flugstöðinni eigi aðild að því félagi eða sitji í stjórn þar sem eitt verkefni þess yrði að annast samskipti stjórnvalda við þá og annast um útboð rekstrar í stöðinni. Í þessu sambandi verður að gæta sérstöðu flugstöðvarinnar vegna samninga við Bandaríkjamenn og staðsetningar hennar á varnarsvæðinu.``
    Með öðrum orðum, hér eru tillögur um lausn á fjárhagsvandanum sem er auðvitað af hinu góða og felur þá í sér að það verði stofnað sérstakt rekstrarfélag sem verði í eigu ríkisins. Tillögur hafa út af fyrir sig verið samþykktar í ríkisstjórn en með fyrirvara um að samkomulag náist milli utanrrn. og samgrn. um svokölluð eldsneytisgjöld eða afnám þeirra.