Samningur um verndun villtra plantna og dýra í Evrópu

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 19:20:59 (7143)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Með þáltill. þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu samnings frá 1979 um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæði í Evrópu. Markmið samningsins er að vernda evrópskar tegundir villtra plantna og dýra og lífsvæði þeirra. Sérstök áhersla er lögð á tegundir sem hætt eru komnar eða eru fágætar. Samningurinn hefur að geyma almenn ákvæði um náttúruvernd og sérstök ákvæði um friðun eða verndun þeirra tegunda sem skráðar eru í viðaukum I--III. Auk þess eru ákvæði um veiðiaðferðir sem tilgreindar eru í viðauka IV.
    Gerist Ísland aðili að samningnum verður að gera nokkra fyrirvara við hann vegna íslenskra laga og íslenskra aðstæðna. Þessir fyrirvarar eru birtir í fskj. með till.

    Viðauki I er skrá yfir 475 tegundir háplantna og 26 tegundir mosa sem eru friðaðir samkvæmt samningnum. Aðilar að samningnum skulu friða þessar tegundir og tryggja að vaxtarstaðir þeirra njóti sérstakrar verndar.
    Aðeins þrjár þessara tegunda vaxa á Íslandi með vissu. Tvær þessara tegunda, davíðslykill (Primula egaliksensis) og dvergtungljurt (Botrychium simplex ), eru mjög sjaldgæfar hér á landi og því friðaðar. Þriðja tegundin er gullbrá, en hún er algeng í mýrum, einkum inn til landsins. Hún er ekki friðuð hér á landi enda ekki talin ástæða til þess. Gera þarf fyrirvara við samninginn af Íslands hálfu um þessa tegund.
    Viðauki II er skrá yfir þær tegundir dýra sem aðilar að samningnum skuldbinda sig til þess að friða nema gerðir séu sérstakir fyrirvarar um annað, sbr. 6., 10. og 22. gr. Friðun fuglategunda tekur einnig til eggjatöku. Aðilum samningsins ber jafnframt að tryggja að lífsvæði þessara tegunda njóti verndar, einkum fengi- eða varpstaðir og viðkomu- eða hvíldarstaðir, sbr. 4. gr.
    Í skránni eru 30 tegundir íslenskra varpfugla og reglulegra fargesta sem eru nú þegar friðaðar allt árið á Íslandi samkvæmt lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966. Takmörkuð eggjataka í kríuvarpi er þó heimil hér á landi og leyfilegt er að taka húsandaregg úr hreiðrum sé þeirri reglu fylgt að skilja minnst fjögur egg eftir í hverju hreiðri. Gera þarf fyrirvara við samninginn af hálfu Íslands um töku eggja frá kríu og húsönd hérlendis.
    Í viðauka II eru taldar upp nítján tegundir hvala. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að sjávarspendýr beri að nýta á sjálfbæran hátt, jafnt og aðrar lifandi auðlindir hafsins. Því er nauðsynlegt af Íslands hálfu að gera fyrirvara um allar hvalategundir sem finnast hér við land. Slíkir fyrirvarar verða samkvæmt ákvæðum 22. gr. samningsins aðeins gerðir í upphafi eða þegar nýjar dýrategundir eru teknar upp í viðauka. Því verður fyrirvarinn nú að ná til allra hvalategunda, einnig þeirra fjögurra tegunda sem nú eru friðaðar samkvæmt reglugerð nr. 163/1973, um hvalveiðar. Ástand einstakra stofna verður síðan að ráða því hvenær rétt þykir af Íslands hálfu að nýta hvern stofn.
    Þá eru í þessum viðauka sex tegundir íslenskra spendýra sem ekki eru friðaðar á Íslandi og þarf að gera fyrivara um þær. Auk þess eru í viðaukanum átta tegundir hvala sem ekki eru friðaðar samkvæmt íslenskum lögum, fimm tegundir íslenskra hvala og þrjár tegundir hvala sem flækjast stöku sinnum til landsins. Enn fremur verður að gera fyrirvara við samningin vegna friðunar á tófu og ísbirni sem eru einnig á skrá í viðauka II en þessi dýr eru ekki friðuð á Íslandi.
    Í viðauka III eru skrár yfir dýratgundir sem eru verndaðar. Veiði þessara tegunda er heimiluð en henni skal stjórna þannig að þessum tegundum sé ekki stofnað í hættu. Samningsaðilar eru skuldbundnir til þess að vernda þær dýrategundir sem upp eru taldar í þessum viðauka og forða þeim frá útrýmingu með lagalegum og stjórnunarlegum ráðstöfunum.
    Í viðauka II eru allar fuglategundir sem ekki eru nefndar í viðauka II, að 11 tegundum undanskildum. Aðeins tvær íslenskar tegundir, sem falla undir viðauka III, njóta ekki verndar samkvæmt íslenskum lögum, en það eru hrafn (Corvus corax) og kjói (Stercorarius parasiticus) sem veiða má allt árið samkvæmt lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966. Þessar tegundir ættu samkvæmt samningnum að hljóta vernd og þarf því að gera fyrirvara við hann vegna þeirra.
    Af þeim 11 tegundum sem undanskildar eru í viðaukanum eru fjórar íslenskar. Ein þeirra, stari (Sturnus vulgaris), er friðuð samkvæmt lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun, en hinar þrjár, silfurmávur (Larus argentatus), sílamávur (Larus fuscus) og svartbakur (Larus marinus), eru ekki friðaðar á Íslandi.
    Í viðauka III eru einnig allar hvalategundir sem finnast við Ísland, aðrar en þær sem nefndar eru í viðauka II yfir friðuð dýr. Landselur og útselur eru einnig í skránni, auk nokkurra selategunda sem stundum flækjast til landsins. Það er ekkert sem mælir á móti því að Íslendingar skuldbindi sig til að vernda þessar tegundir, enda má nytja þær á hefðbundinn hátt samkvæmt Bernarsamningnum.
    Í viðauka IV eru ákvæði þar sem lagt er bann við tilteknum dráps- og veiðiaðferðum. Meðal annars er bannað að nota eitur og svefnlyf við veiðar. Einnig er bann lagt við því að elta uppi og veiða dýr á vélknúnum ökutækjum og bannað er að svæla út dýr með gasi eða reyk. Þá eru í viðaukanum ákvæði um gerð skotvopna sem notuð eru til veiða. Sumar þær veiðiaðferðir, sem taldar eru upp í viðauka IV, eru notaðar hér á landi við veiðar á dýrum sem valdið geta tjóni eins og t.d. þær aðferðir sem tíðkaðar hafa verið frá fornu fari við að svæla ref úr greni.
    Í 9. gr. Bernarsamningsins er kveðið á um að veita megi undanþágur frá banni við notkun þessara veiðiaðferða finnist engin önnur viðunandi lausn og undanþágan stefni viðkomandi dýrastofni ekki í útrýmingarhættu. Það er því ástæðulaust að gera fyrirvara við einstök atriði í viðauka IV.
    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að leggja til að till. þessari verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.