Samþykkt um votlendi

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 19:26:30 (7144)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu á breytingum á samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf.
    Markmið samþykktarinnar er að vernda votlendissvæði heimsins, sérstaklega sem lífsvæði fyrir votlendisfugla. Hverju aðildarríki ber að tilnefna a.m.k. eitt votlendissvæði á skrá samþykktarinnar yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Tvö votlendissvæði hafa verið tilnefnd af hálfu Íslands: Mývatn-Laxá og Þjórsárver.
    Helstu atriði breytingarinnar eru að stofnsett er ráðstefna samningsaðila sem skal koma saman til fundar reglulega til að meta og stuðla að framkvæmd samþykktarinnar. Jafnframt er tekið upp ákvæði um fjárframlög samningsaðila, sem ákveðin skulu samkvæmt framlagakvarða sem samþykktur er af aðilum samþykktarinnar.
    Ég leyfi mér að leggja til að till. þessari verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.