Evrópusamningar um fullnustu refsidóma

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 19:35:23 (7147)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu samnings um alþjóðlegt gildi refsidóma sem gerður var í Haag 28. maí 1970 og samnings um flutning dæmdra manna sem gerður var í Strassborg 21. mars 1983.
    Megintilgangur samninganna er að gera fullnustu viðurlagaákvörðunar mögulega í öðru ríki en þar sem ákvörðunin var tekin. Að baki samningunum búa mannúðarsjónarmið og refsigæslusjónarmið. Það eru annars vegar hagsmunir dómþola að fá að afplána refsingu í heimalandi sínu og jafnframt það sjónarmið að með þeim hætti sé auðveldara að vinna að félagslegri endurhæfingu hans og búa hann undir komu út í þjóðfélagið á ný. Hins vegar er það sjónarmið að samningarnir stuðli að því að unnt sé að láta mann, sem flúið hefur land eða sætt útivistardómi, taka út refsingu sem hann hefur hlotið í öðru ríki. Á þessu sviði sem og mörgum öðrum hefur þörf á alþjóðlegri samvinnu aukist undanfarin ár í kjölfar aukinna samskipta og ferðalaga milli ríkja sem m.a. leiða til þess að afbrot eru oftar en áður framin af mönnum sem ekki eru búsettir í því ríki sem afbrotið er framið í.
    Efni samninganna er nátengt og má raunar segja að yngri samningurinn hafi verið gerður til fyllingar hinum eldri sem uppfyllti ekki að öllu leyti þær væntingar sem til hans voru gerðar. Ástæðan er einkum sú að hann hefur að geyma flóknar og nákvæmar reglur um málsmeðferð og af þeim ástæðum hefur aðild að honum ekki orðið eins víðtæk og vonast var til í upphafi.
    Við gerð samningsins um flutning dæmdra manna var farin sú leið að hafa einfaldari reglur en í eldri samningnum til að tryggja einfaldari og skjótvirkari málsmeðferð. Ákvæði yngri samningsins eru flest rammaákvæði sem veita svigrúm til mats. Í honum eru ekki ákvæði sem fela í sér skyldu fyrir samningsríki til að verða við beiðni um flutning á fullnustu. Það er hins vegar meginreglan samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma en í honum eru einnig nákvæmar reglur um skilyrði fyrir flutningi á fullnustu og á hvaða grundvelli sé unnt að synja beiðni. Samkvæmt honum getur eingöngu það ríki þar sem ákvörðun er tekin (dómsríkið) óskað eftir flutningi á fullnustu en samkvæmt hinum samningnum getur dómþoli og ríki sem hann er ríkisborgari í (fullnusturíkið) einnig sett fram beiðni um fullnustu í því ríki.
    Til þess að geta framfylgt ákvæðum samninganna hér á landi hafa verið lögð fram á Alþingi frumvörp til laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma og um breyting á almennum hegningarlögum.
    Það er meginregla samkvæmt samningunum að hvert ríki skuli bera þann kostnað sem á fellur vegna samninganna í því ríki, sbr. 14. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma og 5. mgr. 17. gr. samningsins um flutning dæmdra manna. Fullnusturíkið ber því allan kostnað vegna fullnustu og getur ekki endurkrafið dómsríkið um hann. Samningarnir fela því í sér kostnaðarskuldbindingar en ólíklegt er að kostnaður verði mikill í raun hér á landi þar sem málafjöldi verður ef að líkum lætur ekki mikill og einnig má hugsa sér að einhver kostnaður sparist vegna flutnings fullnustu úr landi.
    Um ákvæði samninganna leyfi ég mér að vísa til athugasemda með tillögunni en um einstök ákvæði þeirra og framkvæmd hér á landi vísast enn fremur til athugasemda með frv. til laga um alþjóðlegrar samvinnu um fullnustu refsidóma og um breytingu á almennum hegningarlögum.
    Ég leyfi mér að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.