Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 19:38:58 (7148)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Ísraels. Samningurinn var undirritaður í Genf 17. sept. 1992. Ein af meginástæðum þess að EFTA-ríkin hófu fríverslunarviðræður við Ísrael var sú að ríkisstjórn Ísraels ákvað á árinu 1991 að hækka verulega innflutningstolla sína frá 1. jan. 1992. Útflytjendur í EFTA-ríkjum töldu að með þessum aðgerðum Ísraelsstjórnar mundu þeir tapa markaðshlutdeild í Ísrael, einkum til bandarískra aðila og aðila ríkja Evrópubandalagsins, þar sem þau ríki höfðu fríverslunarsamning við Ísrael. Bandaríkin gengu frá slíkum samningi 1985 og Evrópubandalagsríkin 1975. Samningurinn við Ísrael er að mestu byggður á fríverslunarsamningum milli einstakra EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins frá 1972--1973, þ.e. fríverslun með iðnaðarvörur og heimild til verðjöfnunar, í tilviki Íslands álagningu tolla og fjáröflunartolla eða verðjöfnunar á vörur unnar að hluta eða öllu leyti úr landbúnaðarhráefnum.
    Í samningaviðræðunum var það afstaða Ísraels að hafa sem mesta samsvörun við fríverslunarsamninga þeirra við Bandaríkin og EB. Þetta olli ýmsum erfiðleikum. Ekki síst að fulltrúar Ísraels bentu á að fiskur og fiskafurðir féllu alveg fyrir utan þessa samninga og auk þess væri fiskur og fiskafurðir flokkaðar sem landbúnaðarvörur og hluti af landbúnaðarstefnu þeirra. Þó nokkur veiði væri í vötnum og væri þessi veiði oft hluti af starfsemi samyrkjubúa. Einnig væri veiði stunduð af þeirra hálfu í Miðjarðarhafi. Af hálfu EFTA-ríkjanna var bent á að það væri ófrávíkjanleg stefna í fríverslunarviðræðum þeirra að fríverslun skyldi ná til fisks og fiskafurða. Þetta deilumál var það síðasta sem leystist í samningaviðræðunum og varð til þess að samningaviðræðurnar tóku nokkrum mánuðum lengri tíma en stefnt hafði verið að. Niðurstaðan er mjög ásættanleg fyrir Ísland. Ísrael mun með fáeinum undanþágum koma á fullri fríverslun með fisk og fiskafurðir að loknum aðlögunartíma. Ísrael lækkaði tolla í 80% af grunntolli 1. jan. 1993 og fjórar frekari lækkanir, hver um sig 20% af grunntolli, koma til framkvæmda ár hvert þannig að tollurinn verður að fullu afnuminn 1. jan. 1997. Kvótar verða einnig smám saman hækkaðir og felldir úr gildi að loknum aðlögunartíma. Undanþágur frá fullri fríverslun með fisk og fiskafurðir varða fyrst og fremst nokkrar sjaldgæfar tegundir vatnafisks.
    Landbúnaðarvörur sem slíkar falla utan fríverslunarsamningsins. Einstök EFTA-ríki gerðu þó samhliða samningnum um fríverslun tvíhliða samning um þær vörur við Ísrael. Í tvíhliða samningi Íslands og Ísraels er einungis um að ræða vörur sem ekki eru framleiddar hér á landi, einkum ávexti. Með þessum samningi og fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna við Mið- og Austur-Evrópuríki og Tyrkland ætti í framtíðinni að skapast meiri möguleikar við að auka markaðshlutdeild okkar í þessum ríkjum. Ísrael og hin EFTA-ríkin hafa þegar staðfest samninginn. Í athgasemdum við þáltill. er gerð ítarleg grein fyrir samningnum og viðskiptum Íslands við Ísrael undanfarin ár og vísast til þess.
    Ég leyfi mér að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.