Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 19:42:54 (7149)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þessi till. til þál. sem hér er lögð fram kemur til kasta utanrmn. eins og aðrar sem mælt hefur verið fyrir hér og þar sem ég á sæti þar mun ég auðvitað hafa tækifæri til að skoða þennan samning þar. Til þess hins vegar að öllu sé nú til haga haldið, þá vil ég að fram komi hér strax við 1. umr. ákveðnar efasemdir frá minni hendi um ágæti þessa samnings og þess að gera þennan samning. Þá vil ég sérstaklega benda á það að þarna er ekki um fríverslunarsamning við venjulegt ríki að ræða, heldur er þarna um fríverslunarsamning að ræða við ríki sem hefur staðið í og stendur enn í hernaðarátökum, hefur hertekið svæði sem Palestínumenn búa á og innlimað þau í ríki sitt. Það skiptir auðvitað verulegu máli í þessu sambandi, bæði mannréttindaþáttur þessa máls og eins að skoða hvernig viðskiptum við þessi svæði er háttað og hvernig þau tengjast inn í þennan samning. Og ég vil minna á það að hér var staddur ekki alls fyrir löngu fulltrúi frá Palestínumönnum sem kom hingað gagngert til þess að ræða einmitt slík mál, m.a. við Verslunarráð Íslands og lagði áherslu á það að viðskipti yrðu aukin við Palestínumenn, en það hafa ýmsir bent á það, og vil ég m.a. vitna þar í umræður sem áttu sér stað í þingmannanefnd EFTA, að Ísraelsmenn geri þessi viðskipti með ýmsum hætti erfið og það hafði verið þar ákveðinn þrándur í götu. Og þess vegna hljótum við í utanrmn. að skoða m.a. þennan þátt málsins.