Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Póllands

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 19:45:01 (7150)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :

    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og lýðveldisins Póllands sem undirritaður var í Genf 10. des. 1992.
    Samningurinn er að mestu byggður á fríverslunarsamningum milli einstakra EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins frá 1972--1973, þ.e. fríverslun með iðnaðarvörur og heimild til verðjöfnunar, í tilviki Íslands álagningu tolla og fjáröflunar eða verðjöfnunar á vörur unnar að hluta eða öllu leyti úr landbúnaðarhráefnum. Jafnframt felur svo samningurinn við Pólland í sér að smám saman verði komið á fullri fríverslun með fisk og fiskafurðir milli EFTA-ríkjanna og Póllands og ákveðnum aðlögunartíma, sbr. II. viðauka samningsins.
    Pólland mun fella niður innflutningstolla á öllum fiski og fiskafurðum um 10% við gildistöku samningsins. Afgangurinn fellur svo niður á sama aðlögunartíma og gildir fyrir innflutning iðnaðarvara, þ.e. í fimm jöfnun áföngum frá 1. jan. 1995 þannig að full fríverslun verði komin á 31. des. 2001.
    Á undanförnum árum hafa helstu útflutningsvörur Íslands til Póllands verið síld og fiskimjöl. Núverandi tollar á þessum vörum eru 15% á síld og 10% á fiskimjöli. Við gildistöku samningsins mun tollur á síld verða 5% og á mjöli 0%. Mjög erfitt ef ekki útilokað væri í framtíðinni að keppa við aðrar þjóðir t.d. Norðmenn um útflutning á þessum vörum ef Ísland gerði ekki þennan fríverslunarsamning. Landbúnaðarvörur eru ekki hluti fríverslunarsamningsins. Einstök EFTA-ríki gerðu þó samhliða samningnum um fríverslun tvíhliða samning um ákveðnar landbúnaðarvörur við Pólland. Í tvíhliða samningi Íslands og Póllands er hins vegar um að ræða vörur sem ekki eru framleiddar hér á landi, einkum ávexti. Svíþjóð hefur staðfest samninginn og austurríska þingið hefur samþykkt hann. Samningurinn er til umfjöllunar í finnska, norska og svissnesku þingunum og búist er við því að Póllandi leggi hann fyrir þingið fljótlega. Í athugasemdum við þáltill. er gerð ítarleg grein fyrir samningum og viðskiptum Íslands við Pólland undanfarin ár og vísast til þess.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.