Almannatryggingar

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 14:41:36 (7165)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég held að í rauninni þurfi ekki að hafa mjög mörg orð um það frv. til laga um almannatryggingar sem hér liggur fyrir, þ.e. ekki það eitt og sér. Líklegast hefði verið heppilegast ef það hefði verið talað saman um frv. til laga um almannatryggingar og hins vegar frv. til laga um félagslega aðstoð vegna þess að segja má að þetta séu nokkurs konar ,,síamstvíburar`` því að þarna er einfaldlega verið að skilja á milli félagslegrar aðstoðar og trygginga, lífeyris-, slysa- og sjúkratrygginga sem hvort tveggja er í dag inni í gildandi lögum um almannatryggingar. Eins og hefur komið fram er þetta fyrst og fremst gert vegna aðildarinnar að hinu Evrópska efnahagssvæði vegna þess að þannig háttar til hjá þeim og eins vegna þess að þær reglur, sem gilda munu um almannatryggingar sem eru kynntar í greinargerðinni, þ.e. jafnræðisreglan, samlagningarreglan, útflutningsreglan og hlutfallsreglan munu gilda um tryggingarnar eftir sem áður, þ.e. um þessar lífeyris-, slysa- og sjúkratryggingu en ekki um hina félagslegu aðstoð. Hún er því ekki greidd á eftir fólki, t.d. úr landi. Það er auðvitað þar sem hundurinn liggur grafinn vegna þess að ef hún væri eftir sem áður inni í lögunum þá væri það sjálfsagt talsverður kostnaðarauki fyrir opinbera aðila. Þess vegna hefði verið æskilegt að tala um þetta tvennt saman en ég get kannski við sjálfa mig sakast að ég var höndum seinni að færa það í mál við annaðhvort ráðherra eða forseta að það

yrði gert.
    Þegar greint er svona á milli annars vegar trygginganna og hins vegar félagslegrar aðstoðar hlýtur auðvitað að vakna sú spurning: Hvað er hvað, hvar eru mörkin? Þau getur oft reynst erfitt að draga eins og kom fram hjá þeim sem talaði á undan mér. Stundum mætti kannski segja að sitthvað sem er inni í þessu frv. hafi yfir sér meiri blæ félagslegrar aðstoðar en beinna trygginga og einnig má segja að ýmislegt sem er inni í frv. um félagslega aðstoð ætti kannski betur heima í tryggingaþættinum en í frv. um félagslega aðstoð.
    Það verður að segjast eins og er að það var löngu tímabært að taka til skoðunar og gera ákveðna tiltekt í almannatryggingalöggjöfinni því að hún er, eins og allir sjá sem lesa þá útgáfu, sem nýjust er, eins og stagbætt flík þar sem hefur verið gerð hver endurskoðunin á fætur annarri, oft margar á ári, og því alltaf bætt við gildandi lög án þess að nokkur heildarendurskoðun hafi átt sér stað. Því var auðvitað orðið löngu tímabært að endurskoða lögin í heild sinni. Hins vegar hefði auðvitað verið kjörið tækifæri fyrst að farið var út í þá endurskoðun að setja inn í hana ýmislegt sem nú vantar eða gera ákveðnar efnislegar endurbætur sem orðnar eru nauðsynlegar. Því fyrst það er ekki gert þýðir þetta væntanlega að við þurfum að byrja á því strax aftur að bæta þessa flík. Mér segir svo hugur um að það muni ekki líða á löngu þar til hafist verður handa við að bæta hana aftur.
    Ýmislegt hefði mátt skoða í þessu sambandi eins og hér hefur verið bent á, t.d. umönnunarbætur þegar um umönnun aldraðra er að ræða, það hefði mátt koma einhverju slíku inn í lögin. Eins hefði verið full ástæða til að skilja betur en nú er gert á milli örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega í lögunum. Mér finnst eiginlega mjög bagalegt fyrir öryrkja að það skuli alltaf vera talað um þá í sama orðinu, þ.e. örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega. Þetta eru auðvitað gjörólíkir hópar, ekki bara hvað aldur varðar því að öryrkjar eru náttúrlega oft yngri og meðalaldurinn þar er mun lægri en hjá ellilífeyrisþegum. Auðvitað getur verið bráðungt fólk í þeim hópi. Það er ekki bara aldurslega sem er mikill munur heldur líka tekju- og eignalega. Við vitum auðvitað að margir ellilífeyrisþegar eru ágætlega settir fjárhagslega. Þeir eiga talsverðar eignir sem þeir hafa safnað um ævina. Þeir hafa líka oft talsverðar eignatekjur sem hafa ekki komið til meðhöndlunar hjá Tryggingastofnun þegar verið er að fjalla um bætur en örorkulífeyrisþegar eru án efa upp til hópa eignalaust eða eignalítið og mjög tekjulítið fólk, fólk sem hefur t.d. ekki eignatekjur. Þannig að mér finnst orðið mjög mikilvægt að skilja þarna á milli þannig að almenningur geri sér grein fyrir því að þetta eru hópar með mjög ólíka hagsmuni og ólíkar þarfir. Kannski hefði verið ástæða til að gera eitthvað slíkt í þessu frv.
    En eins og ég segi ætla ég ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Við eigum eftir að fara vandlega í gegnum það í heilbr.- og trn., en ég mun kannski ræða ýmislegt sem varðar aðskilnað milli trygginganna og félagslegrar aðstoðar undir næsta dagskrárlið sem er frv. til laga um félagslega aðstoð.