Almannatryggingar

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 14:58:44 (7168)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil svara síðari spurningunni fyrst. Það er að sjálfsögðu ekkert slíkt sem liggur á bak við þessa skiptingu, heldur urðu menn að velja sér einhverja aðferð til þess að geta framkvæmt þá skiptingu á milli félagslegrar aðstoðar og bóta almannatryggingalegs eðlis. Þetta var ein af þeim viðmiðunum sem menn höfðu. Svona kerfi verður ekki fært til sveitarfélaganna í einu vetfangi. Það verður ekki gert nema með samþykki þeirra og það verður heldur ekki gert nema með því að breyta mjög verulega skipan sveitarstjórnarmála hér í landinu því að eins og nú standa sakir geta sveitarfélögin mörg hver alls ekki tekið að sér slíka þjónustu.
    Í annan stað get ég auðvitað ekkert sagt fyrir um hvaða vinnubrögð hv. heilbr.- og trn. viðhefur og auðvitað er hverjum nefndarmanni og þingmanni frjálst að flytja þær brtt. við þetta frv. sem viðkomandi sjálfur kýs. En ég mundi engu að síður óska eftir því við hv. heilbr.- og trn. að það yrði kannski valið annað tækifæri til þess að gera þær breytingar sem eru efnislega umdeilanlegar og kunna að valda ágreiningi. Það verða örugglega mörg tækifæri til þess bæði í umfjöllun um mörg frumvörp hv. þm. sem hér hafa verið lögð fram um almannatryggingar og fleira. Ég ítreka aðeins ósk mína um það að þessa tiltölulega ágreiningslitlu breytingu sem ég tel vera, verði hægt að afgreiða svona eins og það kerfi sem við höfum bundið okkur til að taka upp með samningum við EES geti staðist.