Félagsleg aðstoð

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 15:00:58 (7169)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið áður í umræðum á þessum degi, þá er frv. til laga um félagslega aðstoð sem hér er fylgt úr hlaði í raun réttri fylgifrv. með frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Ein helsta breytingin á almannatryggingalögunum hér á landi vegna reglna Evrópubandalagsins á sviði almannatrygginga er sú að tryggja þarf að í ákvæðum laga um almannatryggingar séu engin ákvæði um bætur sem í raun eru bætur af félagslegum toga.
    Eins og fyrr hefur verið rakið verður að flytja bætur almannatrygginga milli landa í samræmi við þann rétt sem hlutaðeigandi hefur áunnið sér í landinu. Þar sem kerfi félagslegrar aðstoðar er skammt á veg komið hér á landi hefur verið gripið til þess ráðs gegnum tíðina að setja inn í almannatryggingalög ýmis ákvæði um aðstoð sem bera frekar keim félagslegrar aðstoðar heldur en almannatrygginga.
    Í frv. það sem hér liggur fyrir hafa verið flutt öll ákvæði almannatryggingalaga sem talið er að séu í raun ákvæði um félagslega aðstoð. Með þessu móti er tryggt að við munum ekki þurfa að flytja á milli landa þessar bætur því bætur félagslegrar aðstoðar er ekki skylt að flytja milli landa eins og bætur almannatrygginga. Til að tryggja þetta enn frekar er það skýrt tekið fram að almenn skilyrði þessara bóta sé lögheimili á Íslandi eins og það er skilgreint í lögheimilislögum. Til bóta félagslegrar aðstoðar teljast samkvæmt frv. mæðra- og feðralaun, umönnunarbætur, barnalífeyrir vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18--20 ára, endurhæfingarlífeyrir, makabætur, ekkju- og ekklabætur, ekkjulífeyrir, heimilisuppbót, sérstök heimilisuppbót, uppbætur vegna sérstakra aðstæðna og uppbót vegna reksturs bifreiðar og bifreiðakaupastyrkur. Þá er það nýmæli í frv. að í það er sett heimild til Tryggingastofnunar ríkisins til að endurgreiða sjúkratryggðum kostnað vegna læknishjálpar og lyfja, enda sé hann umtalsverður. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að endurgreiða kostnaðinn að hluta eða að fullu að teknu tilliti til tekna og í samræmi við reglur sem heilbr.- og trmrn. setur.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. en minni á að það telst til svokallaðra EES-frumvarpa. Það er því nauðsynlegt að frv. verði afgreitt á þessu þingi og enn nauðsynlegra vegna þess að í 11. gr. er það ákvæði sem er nýmæli að unnt sé að endurgreiða sjúkratryggðum kostnað vegna læknishjálpar og lyfja, enda sé hann umtalsverður. Hér er um nýmæli að ræða sem væri mjög ákjósanlegt að fá lögleitt sem allra fyrst.
    Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar heilbr.- og trn.