Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 18:35:00 (7182)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Sú þáltill. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir því að sett verði á laggirnar þingnefnd með vísan til 39. gr. stjórnarskrárinnar. Það er skoðun mín að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar, sem þarna er vísað til, sé of lítið notað og í rauninni alls ekki notað ákvæði í dag en ætti sannarlega að vera í notkun hér. Það er auðvitað markleysa að vera með slíkt inni í stjórnarskrá ef því er ekki beitt. Ég held að þetta ákvæði hafi verið sett inn til þess að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis og auka aðhald í stjórnkerfinu og það mun sannarlega ekki af veita.
    Það má geta þess að í stjórnarskrám allra nágrannaríkja okkar, nema líklega Bretlands, eru sambærileg ákvæði sem fjalla einmitt um það að setja á laggirnar þingnefndir sem eru þá pólitískt skipaðar til þess einmitt að rannsaka þátt framkvæmdarvaldisns í ýmsum athöfnum. Þá má geta þess að t.d. er ákvæði í dönsku svokölluðu ,,Retsplejeloven`` þar sem gert er ráð fyrir því að hægt sé að setja upp --- og það er dómsmrh. í því tilviki sem getur skipað dómara í nefnd til þess að rannsaka einstakar aðgerðir á vegum ráðuneyta og ríkisvalds og þetta ákvæði er mjög virkt í Danmörku. Þannig hafa yfirleitt verið skipaðar einar fjórar slíkar nefndir á ári og ein slík nefnd velti Schlüter forsætisráðherra í Tamílamálinu.
    Við hins vegar hér á landi gerum aldrei neitt slíkt. Við rannsökum ekki þessi mál. Við bara tökum þessu eins og hverjum öðrum hvirfilvindi sem gengur yfir og síðan er málið búið og úr sögunni og skammtímaminnið nær svo stutt að þetta fellur í gleymskunnar dá.
    Undanfarin ár hefur bæði almenningur og stjórnmálamenn talað mikið um siðleysi í íslenskum stjórnmálum og það eru gjarnan nýir stjórnarherrar í ríkisstjórn eins og nú sitja sem gagnrýna siðleysið í

stjórnarathöfnum þeirrar ríkisstjórnar sem fyrir var. Þetta siðleysi einkennist auðvitað af því að sumir hafa betri aðgang að valdi og fjármunum en aðrir. Það getur verið í gegnum fjölskyldutengsl, í gegnum pólitísk tengsl eða vináttutengsl eins og nú hefur m.a. gerst.
    Í þessum málum hefur verið mikil samtrygging í gegnum árin. Það er ekkert nýtt. Samtryggingin er ekki nýtilkomin. Hún hefur verið lengi. Hún birtist m.a. í því að það er mjög lítil virðing fyrir leikreglum og í þessum efnum eru margir sekir. En málið er einfaldlega það að nú er mælirinn fullur. Þetta var kornið sem fyllti mælinn og kannski er ekki einu sinni rétt að tala um korn vegna þess að manni finnst eins og það sé ekki hægt að snúa sér við í þessu samfélagi þegar kemur að kvikmyndagerð og öðrum slíkum hlutum án þess að rekast alltaf á sama manninn. Og það er löngu tímabært að menn axli ábyrgð í svona málum, bæði á borði sem í orði. Þar vísa ég bæði til Hrafns Gunnlaugssonar, því að auðvitað þarf hann að bera slíka ábyrgð, og ég vísa líka til hæstv. menntmrh. sem hlýtur að bera ábyrgð í þessu máli.
    Það þarf ekki annað en rifja upp þá sögu sem hér hefur verið sögð alloft, bæði hér í þessari pontu og fjölmiðlum um bréfaskiptin við Norræna kvikmyndasjóðinn. Það furðulega í því máli er að svo virðist sem hæstv. menntmrh. hafi verið eini maðurinn sem ekkert vissi um þau bréfaskipti. Það vissu allir aðrir um þau bréfaskipti og þess má geta t.d. að í janúar sl. var viðtal við Knút Hallsson, þáv. ráðuneytisstjóra í menntmrn., um þessi bréf, um það að þetta bréf hafi verið skrifað og um það að Hrafn Gunnlaugsson hafi sent ráðherranum bréf. Hvernig getur svo ráðherra komið eins og af fjöllum þegar umræðan byrjar um þetta í fjölmiðlum núna í apríl? En þegar búið er að stilla málinu upp við nefið á ráðherra þá kemur hann fram í fjölmiðlum og segir: Gott og vel. Ábyrgðin er mín. Ég hlýt að bera ábyrgð á þessu þó að ég hafi ekkert vitað um málið. Og hann segir, með leyfi forseta, í DV: ,,Það skiptir ekki máli hvort skammstöfunin þýðir fyrir hönd ráðuneytisins eða ráðherra. Það breytir hins vegar engu að ráðherrann er auðvitað ábyrgur fyrir öllu. Hann skýtur sér ekkert undan ábyrgð jafnvel þótt hann hafi ekki séð bréf eins og í þessu tilviki.`` Þetta segir ráðherra. Hann er sem sagt óður og uppvægur að axla ábyrgð á þessu máli og hvað svo, virðulegur ráðherra, hvað svo? Hversu mörg dæmi höfum við ekki séð um þetta að menn séu óðir og uppvægir að játa á sig ábyrgð á málum og hvað gerist svo? Ekki neitt.
    Minnumst Perlunnar, byggingarframkvæmdanna þar. Það fór verulega fram úr öllum fjárhagsáætlunum. Menn gengu þar maður fram fyrir mann og játuðu á sig ábyrgð. Hitaveitustjóri, byggingarnefndin, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson játaði á sig ábyrgð. En hvað gerðist? Ekki neitt. Það sama er í þessu máli. Nú er ráðherra kominn og hann er búinn að játa á sig ábyrgð en það á ekkert að gerast. Það kostar ekkert að bera ábyrgð. Það er það furðulega.
    Við getum rakið mörg svona dæmi. Það er ekki langt síðan Fjárfestingarfélagið lækkaði um 30% gengið á öllum verðbréfum sínum eins og ekkert hefði í skorist. Hver bar ábyrgð þar? Enginn. Í Landsbankamálinu? Enginn. Í Perlunni? Enginn. Í þessu máli? Enginn. Þannig hafa menn ekki getað snúið sér við án þess að einhverjir væru tilbúnir að taka á sig ábyrgð sem ekkert kostar. Þetta mál sem við erum að fjalla um hér ber öll einkenni pólitískrar spillingar og það verður að skoðast, ef stjórnmálamenn eiga ekki algerlega að glata öllum trúverugleika hjá þessari þjóð.
    Ég hef auðvitað heyrt það hér í þinginu og eins hjá einstaka mönnum í þessari svokölluðu ,,intelligensíu`` okkar að þeir séu orðnir leiðir á málinu, þeir séu orðnir þreyttir á þessari umræðu og vilji fara að ræða um eitthvað annað, enda er þetta óþægilegt, þetta er ekki skemmtilegt mál. En við verðum að hafa meira en hálfsmánaðar úthald í mál eins og þessi.
    Það hefur líka heyrst hérna og m.a. frá ráðherra að þetta væri ófrægingarherferð. Menn hafa talað um persónulegar ofsóknir. Hversu oft hafa menn á Ítalíu ekki verið leiðir á þeim málum sem þar hafa komið upp? Og kannski hafa þeir allt of oft orðið leiðir og þess vegna sijta þeir í þeirri súpu sem þeir sitja í núna. Hversu leiðir voru menn ekki orðnir á Watergate-málinu? Hversu leiðir voru þeir ekki? Hversu leiðir haldið þið að menn séu ekki orðnir á málum Attalis og Evrópubankans? Má ekki segja að þetta sé ófrægingarherferð gegn bankanum, gegn Attali? Auðvitað má segja það.
    Þeir sem fara frjálslega með vald, hafa völd, þeir vita að úthald þverr. Þeir vita að mál gleymast. Þess vegna er þeim alveg sama þó þeir þyrli svolitlu upp. Þetta fellur allt í gleymskunnar dá um síðir og það er auðvitað í því skjóli sem menn skáka hér núna. En það er mál til komið að sýna þor og þol og hafa úthald í þessu máli og ég skora á þingmenn ef þeir vilja siðbót í stjórnmálum, eins og þeir nú gjarnan segja, að þeir samþykki þá tillögu sem hér er til umræðu. Ef þeir vilja auka veg og virðingu og ef þeir vilja öðlast trúverðugleika, þá samþykkja þeir þetta. Það kemur ekkert annað til greina. Ef allt er með felldu í þessu máli eins og sumir vilja vera láta, þá er líka ekkert að óttast --- eða hvað?