Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 18:53:00 (7186)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta gengur ekki lengur, hæstv. utanrrh., sagði hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson. Ég veit ekki hvort hv. þm. urðu á mismæli eða hvort hann var kannski að gefa í skyn að hæstv. menntmrh. væri fjarstýrt af utanrrh. eins og upphafsmaður þessarar umræðu lét mjög í veðri vaka.
    Hv. þm. hefur setið lengi í ríkisstjórnum. Hann veit það að eins og lögfræðingarnir kalla það er ríkisstjórn ekki fjölskipað stjórnvald, hún er ekki nefnd. Hver ráðherra hefur sjálfur vald á og ber sjálfur ábyrgð á sínum embættaveitingum og það hefur komið hér fram að þær eru ekki ræddar í ríkisstjórn og ekki kynntar samstarfsflokki, svo að það sé alveg á hreinu.
    Síðan liggur hér fyrir tillaga sem er um tvennt. Hún er í fyrsta lagi um það að setja upp nefnd alþingismanna til þess að rannsaka aðdraganda og forsendur fyrir ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónsvarps. Í þessari nefnd verða væntanlega þeir menn sem hvað mest hafa rannsakað þetta mál, þ.e. menn eins og hv. þm. Páll Pétursson, Steingrímur Hermannsson, Svavar Gestsson og Ólafur Ragnar Grímsson. ( StH: Ég verð ekki í nefndinni.) Þeir eru búnir að rannsaka málið mjög. Þeir eiga að rannsaka aðdraganda og forsendur ráðningar. ( SJS: Árni Johnsen verður . . .  ) Hafa þeir frekar en nokkur annar vefengt rétt eða vald menntmrh. til þess að setja umræddan framkvæmdastjóra? Hefur einhver farið fram með þeim rökum að hann hafi ekki farið þar að lögum?
    Hvað ætla þessir ágætu þingmenn að rannsaka? Ælta þeir að rannsaka innyfli menntmrh., ætla þeir að sálgreina hann? Hvað ætla þeir að rannsaka? Það er til hugtak í austur-evrópsku réttlæti sem heitir ,,alþýðudómstóll``. Þetta er hápólitískt mál. Deilan snýst um það, þegar þeir voru að telja það upp, er þetta ekki sjálfstæðismaður sem var ráðinn? Og þeir ætla að rannsaka ráðherrann sem réð hann. Og hverjir ætla að verða rannsóknardómarar? Hv. þm. Páll Pétursson, hv. þm. Svavar Gestsson, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Og hver haldið þið meðal heiðvirðs almennings í landinu að treysti þessum rannsóknardómurum, pólitískur rannsóknarréttur í pólitísku máli? ( SJS: Það eiga að vera níu í nefndinni ekki bara þrír.) (Gripið fram í.) Hins vegar er svo hér annað mál. (Gripið fram í.) Það er búið að bera hér úr þessum ræðustóli upp og telja upp (Gripið fram í.) fjölmargar sakargiftir, --- virðulegi forseti, hef ég orðið? --- það er búið að bera hér upp í þessum ræðustóli fjölmargar sakargiftir, telja þær upp í mörgum liðum, sem varða fjárhagsleg tengsl einstaklings við stofnunina, ríkissjónvarp, menntmrn. og væntanlega ýmsar undirstofnanir þess. Það eru mjög alvarleg mál og það er vert að rannsaka. Haldið þið eða heldur einhver yfirleitt að þeir sem eru best til þess fallnir að rannsaka það af óhlutdrægni og hlutleysi séu þessir hv. þm.? Það dettur engum í hug. Það dettur ekki nokkrum einasta manni í hug.
    Má ég segja hv. 9. þm. Reykv. einn hlut og vitna nú til eigin reynslu. Fyrir ekki löngu síðan, fáum árum, var ég sem fjmrh. og síðar utanrrh. borinn mjög alvarlegum sökum af fjölmiðli hér á landi, fréttastofu Stöðvar 2. Ég var borinn þeim sökum að hafa misnotað aðstöðu mína sem fjmrh. til þess að láta almannasjóð greiða fyrir fimmtugsafmæli konu minnar. Þessum ásökunum var haldið áfram svona um það bil í hálft ár án þess að ég gæti nokkurn tíma borið hönd fyrir höfuð mér. Maðurinn var með öðrum orðum dæmdur af grunsemdum í fjölmiðli. Það var ekki fyrr en mér tókst að fá Ríkisendurskoðun til þess að fara ofan í saumana á þessu máli eftir því sem það var unnt, með því að biðja konu mína að leggja fram öll tiltæk gögn um það hvernig hún hefði kostað sína afmælisveislu, að Ríkisendurskoðun treysti sér til þess að vísa þessum ásökunum á bug. (Gripið fram í.) Og það var eina leiðin sem ég hafði til þess. ( ÓRG: Og hver var látinn hætta hjá ÁTVR út af þessu máli? Núv. framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstfl.) ( Forseti: Ekki frammíköll.)
    Virðulegi forseti. Þegar maður er borinn sökum og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og þær

varða misbeitingu á fjármálalegu valdi eða tengslum við opinbera stofnun, þá á hann í raun og veru engra kosta völ annarra en þeirra að leita til hlutlausrar stofnunar eins og Ríkisendurskoðunar. Að vísu getur Alþingi sagt: Hér er fjárln. Hún gæti út af fyrir sig samkvæmt þingsköpum rannsakað slík mál og meira að segja skoðunarmenn ríkisreiknings þar sem er m.a. hv. þm. Svavar Gestsson. En að ímynda sér að það sé að fullnægja réttlætinu að Alþingi kjósi hér þá menn, nákvæmlega þessa rannsóknardómara sem hér hafa borið umræddan einstakling öllum þessum sökum í einhverja pólitíska nefnd --- er það ekki einum of glært? Þar væru hins vegar fulltrúar annarra pólitískra flokka, að deila um hvað? Að fara ofan í saumana á fjárreiðum útvarpsins, sjónvarpsins eða einhverra sjóða eða nefnda undir menntmrn.?
    Virðulegi forseti. Málið er ákaflega einfalt. Það vill enginn maður á Íslandi, enginn heiðvirður maður taka upp slíkan rannsóknarrétt eða slíkan alþýðudómstól, ekki nokkur. Þetta er pólitískur skrípaleikur. Ef þið meinið það sem þið eruð að segja þá ættuð þið allir, þið sjálfir að taka undir þá niðurstöðu og þá lausn sem er að biðja hlutlausa stofnun eins og Ríkisendurskoðun um að fara ofan í þær sakargiftir sem þið hafið sjálfir flutt hér úr þessum ræðustól. Það er jafnmikil nauðsyn fyrir þessar stofnanir sem hlut eiga að máli eins og þann einstakling sem þið hafið borið sökum og ekki getur með öðru móti borið hönd fyrir höfuð sér.