Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:06:03 (7192)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég mun reyna að halda ró minni í þessu máli, en hér er til umræðu till. til þál. um að Alþingi kjósi nefnd níu alþingismanna til að rannsaka aðdraganda og forsendur fyrir ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins m.a. með tilliti til fjárhagslegra tengsla hans við stofnunina og menntmrn. og starfsemi á vegum þess.
    Ég get í sjálfu sér fallist á það að einhver hluti af þessari rannsókn geti farið fram af hálfu Ríkisendurskoðunar, en að rannsaka aðdraganda og forsendur fyrir ráðningunni er verkefni sem ég tel að Ríkisendurskoðun geti ekki unnið. Þess vegna hlýtur það að vera mjög eðlilegt að þetta starf fari fram innan þingsins eins og hefði verið gert og eins og hefði þótt eðlilegt hjá öðrum vestrænum lýðræðisþjóðum sem hæstv. utanrrh., sem hér talaði næstur á undan mér, vitnar oft til og tekur mjög til fyrirmyndar, a.m.k. þegar hann er á fundum erlendis og gerir lítið úr störfum Alþingis. Þess vegna hlýtur það að vera mikið grundvallaratriði að þessi tillaga verði samþykkt. Ef það er rétt sem var helst að heyra hér á máli hæstv. menntmrh. að hann og þá væntanlega báðir stjórnarflokkarnir leggi til að málinu verði vísað frá, þá hefur eitthvað mikið gerst innan Alþfl. frá því að þetta mál var síðast hér á dagskrá, þá var ég því miður ekki viðstödd, var erlendis, en ég hef lesið þá umræðu og fylgst með og þótti mér þar hv. formaður þingflokksins taka verulega upp í sig.
    Hér er til umræðu mál sem þjóðinni líður illa út af. Hvað sem hæstv. menntmrh. kann að segja, þá er það svo. Ríkissjónvarpið er mikill vinur þessarar þjóðar. Það er mín skoðun og það er alla vega skoðun fólks á landsbyggðinni og ég vona að svo sé einnig hér í Reykjavík. Ég get ekki hugsað mér það að starfsemi sem fer fram innan veggja þessarar ágætu og virtu stofnunar verði sköðuð og hún sett í uppnám. Því verður að fara fram rannsókn á ráðningu framkvæmdastjórans eins og lagt er til með þessari tillögu.
    En það er líka annað sem væri áhugavert að rannsaka og væri verðugt rannsóknarefni en það er það hvað sjálfstæðismönnum gengur til í sambandi við málefni ríkissjónvarpsins almennt. Við því fást kannski ekki svör í rannsókn sem þessari, en þeir tala ekki upphátt varðandi áhuga sinn og fyrirætlanir í sambandi við ríkissjónvarp og Ríkisútvarp. Það gerir hins vegar einn af aðalráðgjöfum hæstv. forsrh. í einu af dagblöðunum nýlega. Hannes Hólmsteinn Gissuraron segir hér orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ég lít svo á að með ráðningu Hrafns í stöðu framkvæmdastjóra sjónvarpsins hafi Ólafur G. Einarsson rétt hlut hans eftir að hann hafði verið beittur ranglæti. Ráðherrann hefur komið vel og skörulega fram í þessu máli og tryggt sjónvarpinu krafta hugmyndaríks atorkumanns.`` Síðan segir: ,,Hitt er annað mál að allt vekur þetta okkur til umhugsunar um hvort það geti verið eðlilegt að ríkið reki sjónvarpsstöð. Er ekki heppilegra að einkavæða sjónvarpið?``
    Og það er einmitt þar sem hundurinn liggur líklega grafinn. Ótti minn er alla vega sá að það sem liggi á bak við þetta allt saman það sé að eyðileggja stofnunina innan frá. Þá verði auðveldara að tala fyrir því að hún verði seld eða gefin einhverjum. Það var nefnilega ekkert sérstaklega vinsælt þegar landsfundur Sjálfstfl. samþykkti þá ályktun að selja Rás 2. Það var ekkert sérstaklega vinsælt, ekki á landsbyggðinni alla vega, ekki í Norðurlandskjördæmi eystra og ég hef grun um að það hafi átt einhvern þátt í því að Sjálfstfl. kom ekkert sérstaklega vel út úr þeim kosningum á landsbyggðinni, ekki eins og sjálfstæðismenn höfðu ætlað sér alla vega.
    Vinnubrögð hæstv. menntmrh. eiga sér sennilega enga hliðstæðu í sögu íslenskrar stjórnsýslu og þó svo að hæstv. menntmrh. hafi reynt hér áðan að koma með eitthvert hliðstætt dæmi, þá fórst honum það frekar illa úr hendi. Og þar að auki eru þessi vinnubrögð í algerri þversögn við ýmis grundvallaratriði í stefnu Sjálfstfl. sem gefur sig út fyrir að vera á móti miðstýringu, á móti óeðlilegri íhlutun ríkisstjórnar í málefni sjálfstæðra stofnana og ég þarf varla að taka það fram að Sjálfstfl. hefur ekki aðhyllst stjórnarhætti Ráðstjórnarríkjanna, en því er ekki að neita að þessi vinnubrögð minna um margt á austantjaldstaktík

eins og hún var og hét.
    Ég nefndi það áðan að á fundum sínum erlendis talaði hæstv. utanrrh. stundum um störf Alþingis og þá allt frekar í niðrandi tón. Ég get tekið undir það að vissu marki að störf Alþingis mættu vera á annan hátt, mættu vera hnitmiðaðri á ýmsan hátt. En ég fordæmi hins vegar þegar hæstv. utanrrh. leyfir sér að lítilsvirða þessa virðulegu stofnun á fundum sínum erlendis. Mér þætti fróðlegt ef hæstv. utanrrh. svaraði því hér, hvort hann telji að hjá öðrum Evrópuþjóðum, hjá öðrum vestrænum lýðræðisþjóðum þættu þau vinnubrögð við hæfi sem hæstv. menntmrh. hefur beitt í þessu máli. Og það væri kannski forvitnilegt líka að heyra álit hæstv. umhvrh., sem er mjög kunnugur allri starfsemi og stjórnsýslu á hinum Norðurlöndunum, á því hvort þessi vinnubörgð yrðu viðurkennd eða hvert álit okkar nágrannaþjóða væri á vinnubrögðum sem þessum. Staðreyndin er nefnilega sú að það á að koma þessum ákveðna manni, áðurnefnda manni og margnefnda, Hrafni Gunnlaugssyni, bakdyramegin í það starf sem útvarpsstjóri hafði leyst hann frá í lok síðasta mánaðar. Í stuttri verklýsingu á starfi framkvæmdastjóra sjónvarpsins, sem var sett saman sama dag og Hrafn Gunnlaugsson var settur í starf framkvæmdastjóra, segir nefnilega:
    ,,Framkvæmdastjóri er því í reynd yfirdagskrárstjóri sjónvarpsins.``
    Það er verið að koma manninum bakdyramegin í það starf sem útvarpsstjóri hafði vísað honum úr og þetta á að gera hvað svo sem útvarpsstjóri segir, hvað svo sem starfsfólkið segir og hvað svo sem þjóðin segir.
    Ég ætla annars ekki að gera persónu Hrafns Gunnlaugssonar að umræðuefni hér, en það eitt sem er víst er að staða framkvæmdastjóra Ríkissjónvarpsins er mikil áhrifastaða í okkar þjóðfélagi. Og það er mikilvægt að það ríki traust á þeim manni sem skipar þá stöðu þó svo að í þessu tilfelli sé aðeins verið að tala um ársráðningu.
    Í fjölmiðlum að undanförnu og ég tala nú ekki um manna á meðal hafa verið á sveimi mjög grófar ásakanir í garð Hrafns Gunnlaugssonar og þetta mál þarf allt að rannsaka. Það er vilji þjóðarinnar og ég vil segja að ef Sjálfstfl. vill ekki að þessi rannsókn fari fram eins og lagt er til í þessari tillögu, þá er maðkur í mysunni.