Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:14:27 (7193)

     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta var nú um það bil að snúast upp í allhávaðasamt leikrit rétt áðan en hefur nú lægt í bili. Hæstv. menntmrh. hafði orð á því í máli sínu að ákvæði til þess að skipa svokallaða rannsóknarnefnd hefði ekki verið brúkað í 40 ár og hæstv. utanrrh. bætir um betur og skekur hér hnefa og segir: Íslenska þjóðin vill ekki, enginn heiðvirður maður vill svona rannsóknarnefnd. Nú veit ég náttúrlega ekki hverjir hvísla í eyra hæstv. ráðherra, en eitthvað finnst mér nú rödd þjóðarinnar hafa hljómað á annan veg. En það er líka spurning, hæstv. ráðherra bendir hér á menn og segir: Þjóðin vill ekki þennan mann. Þjóðin vill ekki hinn manninn. Eru einhverjir hér innan dyra, sem hæstv. ráðherra Jón Baldvin treystir sér til að benda á og segja að þjóðin vilji? ( Utanrrh.: Hún vill ekki pólitíkusa.) Hún vill ekki pólitíkusa. Þá er nú farið að skerðast um skotfærin ef þjóðin vill ekki póltíkusa. Til hvers treystir þjóðin þá pólitíkusum sínum? ( Utanrrh.: Að vera í stjórnmálum.) ( Gripið fram í: Að vera í ríkisstjórn.) Auðvitað eru þetta stjórnmál og ég vil minna á að það er ákvæði í útvarpslögum um það að ráðherra ráði framkvæmdastjóra ríkisútvarpsins en útvarpsstjóri ræður alla aðra starfsmenn. Til hvers er þetta ákvæði þarna? Það er til þess að ákvörðun sé tekin á stjórnmálalegum grunni um hver sé framkvæmdastjóri þannig að auðvitað eru þetta stjórnmál. Og þarna er líka um grófa íhlutun stjórnvalda að ræða í rekstur stofnunarinnar svo auðvitað eru þetta stjórnmál.
    Hæstv. ráðherrar bæði menntamála og utanríkismála segja að það sé ekki hægt að samþykkja hér rannsóknarnefnd skipaða þingmönnum til þess að taka á þessu máli. Það mál sé best komið hjá Ríkisendurskoðun. En jafnframt sagði hæstv. utanrrh. að hér væri um það að ræða hvort mál þetta stæðist siðferðilega skoðun. Ríkisendurskoðun leggur ekki siðferðilegt mat á neitt. Ríkisendurskoðun heldur sig við lög og það má vel vera að allar þær ávirðingar sem bornar eru á umræddan aðila --- og hann skal sannarlega vera saklaus af þangað til hann er fundinn sekur --- það má vel vera að þær séu allar löglegar. En það kann að vera að það raðist svo margir löglegir atburðir saman á þann hátt að þeir hætti að vera siðferðilega réttir þó þeir séu löglega réttir. Og það er einmitt það sem þetta mál snýst um, þ.e. hversu marga atburði hér er um að ræða, hversu mikil orsakatengsl og það er það sem þarf að rannsaka. Ég skil ekki af hverju má ekki gera það með þessum hætti ef aðrar þjóðir hafa notað þessa aðferð, hvað er það sem gerir íslensku þjóðina svona mótfallna þessari aðferð eins og hæstv. ráðherra fullyrðir? Eða er almenningur hjá öðrum þjóðum ekki heiðvirður? Svona nefndir eru notaðar þar aftur og aftur með ágætum árangri og ég sé ekkert sem mælir á móti því að sama aðferð sé viðhöfð hér. Og það þarf jafnvel ekki að stangast á störf Ríkisendurskoðunar og störf svona nefndar. En ég hef þá trú að svona nefnd gæti kallað fyrir sig fleiri aðila og skoðað fleiri hliðar málsins heldur en Ríkisendurskoðun mundi gera jafnframt sem svona nefnd, sem yrði saman sett af mönnum úr öllum flokkum og með réttum styrkleikahlutföllum miðað við samsetningu þingsins, hafi möguleika á því að líta á málið frá fleiri sjónarhornum heldur en ríkisendurskoðandi því að vissulega væri hann að fara út fyrir sitt verksvið ef hann færi að leggja siðferðilegt mat á. Ef hér er allt með felldu, þá held ég að ríkisstjórnin stæði brattari eftir ef hún sæi sóma sinn í að standa að þessari aðgerð heldur en ef hún vísar henni frá með einhverjum rökum um það að málið sé betur komið hjá Ríkisendurskoðun. Og ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti öll að leggja betur eyrun við því sem þjóðin segir og reyna að heyra óbrenglað hvað þjóðin segir því að þjóðin núna vill aðgerðir í þessu máli.
    Ábyrgðarvæðing er orð sem ýmsir úr ríkisstjórninni hafa tekið sér mikið í munn þegar kemur að því að rökstyðja einkavæðinguna svokölluðu. Í þessu máli held ég að ríkisstjórnin ætti einmitt að líta sér nær og ábyrgðarvæða sjálfa sig. Ef hún hefur ekkert að óttast, þá stæði hún best eftir ef hún gerði það.