Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:41:44 (7203)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Í þessari umræðu hefur ýmislegt verið sagt sem orkar nú, svo að ekki sé meira sagt, verulega tvímælis. Hér kom hæstv. utanrrh. og talaði um að við sem flytjum þessa tillögu og höfum talað fyrir þessari tillögu værum að gera hér kröfu um alþýðudómstól að austur-evrópskri fyrirmynd. Ég frábið mér slíkra samlíkinga, hæstv. utanrrh. Hér er ekki verið að tala um neinn dómstól. Hér er verið að tala um að setja upp nefnd sem skipuð er samkvæmt ákvæði í okkar stjórnarskrá og sem kjörin er hér á þingi eftir þeim háttum sem hér tíðkast. Þessi nefnd mun auðvitað ekki fella neinn dóm, hún er enginn dómstóll. Það er verið að villa um fyrir fólki þegar ráðherrann notar alltaf hugtakið dómur og dómstóll og dómsniðurstaða. Þannig verður það ekki. Þessi nefnd mun starfa, hún mun skila af sér skýrslu og sú skýrsla leiðir ekki til neinnar dómsuppkvaðningar. Hún er fyrst og fremst þá, ef eitthvað óhreint er í pokahorninu, pólitískur þrýstingur á ríkisstjórnina um að gera eitthvað í þessum málum. Það er það eina sem þessi skýrsla getur gert. Og ég held að ríkisstjórnin ætti ekki að vera hrædd, hún mundi hafa meiri hluta í nefndinni.
    Ég vitnaði hér áðan til annarra Evrópuríkja og að það væru sams konar nefndir í þeim löndum og það merkilega er að það er einmitt að gerast núna í öllum Evrópulöndunum í kringum okkur að menn eru að ræða um slíkar rannsóknarnefndir og mikilvægi þess að slíkar rannsóknarnefndir séu settar á laggirnar og starfi oftar en nú er. Þannig hefur t.d. Evrópubandalagið tekið saman heila skýrslu um slíkar rannsóknarnefndir sem eiga sér stoð ýmist í stjórnarskrám eða lögum. Og það er talað um það sem gott fordæmi í þessari skýrslu frá Evrópubandalaginu að í Þýskalandi háttar því þannig til að það er hægt að setja rannsóknarnefnd upp að tilstuðlan eins fjórða hluta fulltrúa í Bundestag. Minni hluti fulltrúa í Bundestag getur sem sagt farið fram á það að sett sé á laggirnar rannsóknarnefnd og þá skal það gert. Og þeir tala um það sem til fyrirmyndar og þetta eigi Evrópubandalagsríkin að taka til skoðunar vegna þess að hinn pólitíski meiri hluti í þjóðþingunum hafi tilhneigingu til þess að setjast á slíkar tillögur vegna þess að hann vilji ekki láta skoða embættisfærslu þeirrar ríkisstjórnar sem hann styður og þar af leiðandi sé mikilvægt að koma inn einhverjum slíkum minnihlutarétti. Og það er nákvæmlega það sem á að fara að gerast hér, ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar að reyna að koma í veg fyrir það að embættisfærsla m.a. sé skoðuð því að þetta mál snýst ekkert bara um einstaklinginn Hrafn Gunnlaugsson. Þetta snýst um embættisfærslu og það þarf að skoða báða aðila. Það þarf að skoða framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins og það þarf að skoða sjónvarpið sem stofnun og menntmrn. sem stofnun í þessu máli. Það verður ekki bara annar aðilinn skoðaður. Og þess vegna er þetta spurning um embættisfærslu sem þarf skoðunar við.
    Ég hef talað við marga út af þessu máli á undanförnum dögum og það hafa margir haft samband við mig og ég heyri það að fólki er mjög mikil alvara með þessu máli og það er mikill þungi í fólki vegna þessa máls. Ég segi það fyrir mig að mér er líka mikil alvara með þessu máli. Þó að hér hafi kannski einhverjum fundist þróast skrípaleikur, þá er þetta ekki skrípaleikur. Þetta er mikið alvörumál. Og það á við um okkur kvennalistakonur allar að okkur finnst þetta alvarlegt mál. Við erum ekki að taka þátt í þessu

máli til þess að koma höggi á ríkisstjórnina. Það þarf ekki. Ríkisstjórnin veitti sér höggið sjálf með þessu máli. Það þarf ekki okkur til. Ríkisstjórnin hlýtur að fá högg af því, hún er búin að fá högg af því. Sjálfstfl. hlýtur að fá högg af málinu og Alþfl. ef hann dinglar með eins og virðist nú ætla að gerast hér. Ég vil benda mönnum á það að maðurinn sem kom þessu gerningaveðri af stað, ég fullyrði að það er hæstv. forsrh., hvar er hann núna? Hefur umræðan snúist um hann? Hann er hlaupinn í skjól og umræðan snýst hérna um hæstv. utanrrh. og menntmrh. En upphafsmaðurinn er kominn í skjól og það hefur ekkert verið um hann rætt hérna og það er auðvitað dapurlegt ef við ætlum að fara frá þessari umræðu án þess að gera okkur grein fyrir því hver var upphafsmaðurinn.
    Ég skil ekkert í flokksmönnum í Sjálfstfl. að lynda þessu því að auðvitað hefur forsrh. haft fjöregg flokksins og ríkisstjórnina að leiksoppi. Hann hefur hætt því hvoru tveggja í þessu máli. Og ætla menn að treysta slíkum forsrh. í framtíðinni, sem leikur sér með þessum hætti að fjöreggi flokks og ríkisstjórnar vegna vináttu sinnar við einn mann? Að hann setji allt ,,på spil`` eins og maður segir. Hvernig ætla menn að treysta slíkum forsrh. í framtíðinni? Og hvar er hann nú? Ég spyr.