Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:49:22 (7205)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. talar hér um einstaklinga sem eigi undir högg að sækja og hvernig þeir eiga að verja hendur sínar þegar þeir eru bornir alvarlegum sökum hér á þingi í krafti þinghelgi. Hér hefur ekkert verið sagt í þessari pontu sem ekki hefur komið fram í dagblöðum og hefur verið haldið fram af ýmsum aðilum sem eru þó ekki með neina þinghelgi og er í sjálfu sér hægt að sakfella fyrir það sem þeir hafa þá þar sagt, ef mönnum sýnist svo. En hér er ekki bara um einhverja einstaklinga úti í bæ að ræða. Hér er um embættismann að ræða, háttsettan embættismann hjá sjónvarpinu og hér er um ráðherra að ræða og fleiri en einn ráðherra. Og þetta eru ekki bara einhverjir einstaklingar úti í bæ sem eiga undir högg að sækja. Þetta eru valdamenn í samfélaginu og ef þeir ætla sér stóran hlut eins og þeir virðast ætla sér og eru fyrirferðarmiklir í stjórnkerfinu, þá verða þeir auðvitað að búast við því að þeirra athafnir séu skoðaðar.
    Ráðherra spurði: Hver getur fellt hlutlægan dóm í þessu máli, um misbeitingu valds t.d.? Geta það þessir pólitísku aðilar sem hér hafa gerst ásakendur í málinu? Geta þeir það? spurði ráðherra. Ég efast ekkert um það að við erum ekki til þess hæf að fella hlutlægan dóm hér hvert og eitt fyrir sig. En almenningur getur það, honum er nefnilega treystandi til sumra hluta, hæstv. ráðherra. Hann á að geta fellt sinn dóm í þessu máli eftir að skýrsla hefur verið saman tekin og eftir að almenningur hefur kynnt sér það mál. Ef fólki finnst að þar sé ekkert feitt á stykkinu, þá fellur þetta mál einfaldlega niður, en ef málið er þannig vaxið og það kæmi fram í þessari skýrslu að líkur bendi til að um verulega misbeitingu á valdi sé að ræða, þá kemur einfaldlega pólitískur þrýstingur á stjórnvöld í málinu. Það er dómurinn.