Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:51:18 (7206)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér kemur í hug undir þessari umræðu að líklega kemur okkur hér í koll hversu við Íslendingar misbeitum orðum og ofnotum orð í hinni pólitísku baráttu. Hér stendur stjórnmálamaður sem hefur verið borinn margvíslegum sökum svona í hita leiksins í pólitíkinni, kallaður landráðamaður, borin á brýn landráð. Mér koma í hug stjórnmálamenn fyrri tíðar sem hefur verið borið það á brýn að þeir væru

geðveikir, bilaðir á sinni, siðferðilega vankaðir o.s.frv. Þessi orð eru svo gengisfelld að Íslendingar taka þau eins og hverja aðra orðaleppa þegar þau eru sögð af einum stjórnmálamanni um annan eða af einni stjórnmálafylkingu um aðra. Þess vegna er það að þegar kemur að álitamálum um embættisfærslu, um veitingu embætta, þá endar þessi umræða venjulega í gagnkvæmnisásökunum: Hann gerði nú þetta, þessi hérna áður fyrr o.s.frv. --- og almenningur er engu nær. Ég tek undir það með hv. þm. að ef einhver aðili væri hér til, sem væri ekki þegar stimplaður fyrir fram sem saksóknari, með fyrir fram gefna skoðun, þá gæti verið ágætt að fá hlutlausa skýrslu. Hvað á svo að gera við þessa skýrslu, birta hana almenningi? Ekki hefði ég neitt á móti því. En að lokum erum við að tala um hluti sem snúast um hvort valdi hafi verið misbeitt af hálfu hins opinbera eða níð um æru einstaklings úti í bæ sem er varnarlaus. Til þess höfum við dómstóla. Og þó að það væri ekki annað en það sem kæmi út úr þessu, að Ríkisendurskoðun kvæði upp úr um það hver er niðurstaðan að því er varðar ásakanirnar um fjármálalegt misferli, þá er það a.m.k. að mínu mati meginþátturinn því að ég gef ekkert, ekki neitt fyrir orðaleppa stjórnmálamanna hvers um annan. ( ÓRG: Er Hrafn Gunnlaugsson stjórnmálamaður í þessu tilviki?) Nei, þið eruð búnir að gera þetta að pólitík.