Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 20:16:51 (7214)

     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég verð nú að segja að nú er ég eiginlega alveg að tapa áttum í þessu máli er ég hlusta á hæstv. utanrrh. Hann segir að hann hafi ekkert á móti því að hin fjárhagslega hlið þessa máls sé rannsökuð. ( Gripið fram í: Það er nauðsynlegt.) Það er nauðsynlegt. En síðan segir hann: Það er enginn til sem fellt getur dóm. Þá spyr ég: Til hvers á þá að vera að rannsaka? Það þarf væntanlega eitthvert dómsorð hvort sem það er formlegt til sektar eða til þess að sanna sakleysi. Hæstv. ráðherra segir að það sé enginn hlutlaus í þessu máli sem geti um það fjallað vegna þeirrar umræðu sem hafi farið fram.
    Þá spyr ég: Hvernig á þá að snúa sér í málum yfirleitt ef umræða má ekki fara fram? Umræða leiðir oft í ljós þörf á rannsókn. Hvað á ég nú að gera ef ég fyrir tilviljun kemst að einhverju stórkostlegu misferli einhvers staðar í stjórnsýslunni eða hjá embættismanni og ég vil gjarnan láta rannsaka það mál og tel brýna þörf á því, er þá leiðin fyrir mig að steinþegja yfir því svo enginn annar en ég komist að því? Reyna síðan kannski að fá stofnaða rannsóknarnefnd samkvæmt þessari grein stjórnarskrárinnar sem hér er nefnd. Þegar ég síðan væri innt eftir því hvers vegna ég vildi láta setja á stofn þessa nefnd, á ég þá þá að segja: Ég get ekki sagt það vegna þess að það má enginn vita það, vegna þess að þá verður enginn hlutlaus aðili eftir til þess að dæma um það? Hvernig á að bera sig að í þessu máli, hæstv. ráðherra? Og ef væntanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar fæli í sér þær ávirðingar að hugsanlega væri ástæða til einhverra fleiri og meiri aðgerða, hvaða leið á þá að fara, hæstv. ráðherra? Hvert eiga menn að snúa sér og hvernig í þessu landi til þess að reyna að sjá til þess að réttlæti, ekki bara lagalegu réttlæti heldur siðferðilegu réttlæti líka, sé framfylgt?