Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 20:19:31 (7215)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur vafist fyrir mörgum í þessum sal hvers vegna hæstv. utanrrh. hefur senn flutt 20 ræður í þessu máli. Ráðherrann sem hælir sér yfirleitt af því að tala lítið í þingsölum. Málið er svo stórt í augum formanns Alþfl. að hann telur nauðsynlegt að tala nánast eftir hverjum manni þannig að Sjálfstfl. þarf ekki að gera neitt. Forsrh. þarf ekki einu sinni að vera í salnum. Ráðherrar Sjálfstfl. þurfa ekki að gera neitt, formaður þingflokksins þarf ekki að gera neitt nema koma með sínar litlu tillögu af því að formaður Alþfl. hefur tekið að sér að verja Sjálfstfl. og allt hans valdakerfi í þessu máli. Ráðherrann

hefur sagt: Svarið við því hvers vegna ég hef talað svona oft í þessu máli er mín eigin reynsla. Ég lenti hér í máli eins og þjóðin þekkir. Ég var sakaður um röng áfengiskaup og til að hreinsa mig bað ég Ríkisendurskoðun að fara í málið og það var hið eina sem ég gat gert. Það er vissulega rétt, að hæstv. ráðherra bað Ríkisendurskoðun að fara í málið. En það gerðist fleira, hæstv. ráðherra í málinu. Og við sem þekkjum þetta mál höfum auðvitað tekið eftir því að ráðherrann hefur ekki talað um það í þessari upprifjun. Það var embættismaður látinn hætta út af þessu máli, hæstv. utanrrh. Það var háttsettur embættismaður hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hann var látinn hætta með kurteislegum hætti vegna þessa máls. Síðan var honum veitt ákveðið starf af hálfu Sjálfstfl. Það er svo önnur saga. En ráðherrann má bara ekki slá striki yfir það að embættismaður var látinn hætta út af þessu máli. Við höfum ekki verið að taka þetta mál inn í þessar umræður. Það gerir ráðherrann sjálfur. En við sem þekkjum málið spyrjum í forundran: Af hverju vill hann gleyma þeim þætti síns eigin máls sem fólst í því að háttsettur embættismaður hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins var látinn hætta vegna mistaka í starfi út af þessu máli, máli utanrrh.? Þannig að með því eina máli sem hann er sjálfur, hæstv. ráðherra, búinn að koma hér inn með er hann að sanna fyrir okkur sem þekkjum málið að í því sé auðvitað líka spurning um það hvort embættismaður eigi að víkja. Og auðvitað er ekki líka verið að tala um einstaklinginn Hrafn Gunnlaugsson í þessu máli eða einstaklinginn Ólaf G. Einarsson. Það er verið að tala um dagskrárstjóra og nú framkvæmdastjóra sjónvarpsins, einn af æðstu embættismönnum í íslensku menningarlífi, og hæstv. menntmrh.
    Kannski hefur Sjálfstfl. og sérstaklega hæstv. forsrh. ásakað Alþfl með svo stórum orðum vegna þeirrar ræðu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti hér, vegna nýyrðisins ,,einkavinavæðing`` sem hæstv. félmrh. bjó til um þetta mál, að vegna ríkisstjórnarsamstarfsins þurfi hæstv. utanrrh. að standa hér og flytja þessar makalausu ræður. Og auðvitað er það forvitnilegt hvers vegna hæstv. utanrrh. flytur næstum því 20 ræður í þessu máli. En það er þá líka forvitnilegt hvers vegna hv. þm. Össur Skarphéðinsson flytur nú enga ræðu og hvers vegna hv. þm. Össur Skarphéðinsson er ekki einu sinni í salnum. Það er líka fróðleg spurning, hæstv. utanrrh. og síðan hæstv. forsrh. Því það er eitt í þessu máli sem því miður hefur ekki verið mikið rætt hér vegna framgöngu hæstv. utanrrh. og það er framganga hæstv. forsrh. Þjóðin verður að geta treyst því að forsrh. hennar segi satt. Væntanlega eru ég og hæstv. utanrrh. sammála um það og þingheimur allur. En hefur hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sagt satt í þessu máli?
    Dagskrárstjórinn fyrrverandi og núverandi framkvæmdastjóri hefur ítrekað sagt opinberlega að forsrh. hafi komið að þessu máli sem verkstjóri í ríkisstjórninni. Hvað merkir það? Fyrrv. framkvæmdastjóri sjónvarpsins, Pétur Guðfinnsson, hefur verið spurður að því opinberlega hvort forsrh. hafi talað við hann. Pétur Guðfinnsson treysti sér ekki til þess að svara þeirri spurningu, hvort það hafi verið hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sem bað hann um að fara í frí. Við sem höfum fylgst með málinu höfum veitt því athygli að Pétur Guðfinnsson þorir ekki að svara því hvort hæstv. forsrh. var maðurinn sem bað hann um að fara í frí. Og við tókum auðvitað öll eftir því sem hlustuðum á viðtalið við fyrrv. dagskrárstjóra sjónvarpsins, núv. framkvæmdastjóra, þegar hann var spurður um hlut forsrh. í ríkissjónvarpinu, að hann kom sér hjá því að svara. En forsrh. hefur sagt við þjóð sína: Ég hef ekki komið nálægt þessu máli, en samt sem áður er það þannig að höfuðpersónurnar í þessu máli treysta sér ekki til að svara því hver er hlutur forsrh. í málinu vegna þess að ef þær segðu sannleikann, þá væru þær jafnframt að afhjúpa það að forsrh. hefur sagt ósatt í málinu. Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., formaður Sjálfstfl., hefur ekki treyst sér til að segja sannleikann í málinu. Það er alla vega það sem sker úr þegar maður hlustar á vitnisburð núv. framkvæmdastjóra sjónvarpsins og fyrrv. framkvæmdastjóra sjónvarpsins að þeir treysta sér ekki til þess að taka af skarið um hlut forsrh., Davíðs Oddssonar. Er það kannski það sem hæstv. utanrrh. er að tryggja með framgöngu sinni í þessari umræðu að hún verði með þeim hætti að kastljósið fari ekki á það sem blasir við að vera ósannindi hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar í þessu máli? Því ef það bætist ofan á allt að forsrh. er bak við tjöldin að bjóða framkvæmdastjóra sjónvarpsins, Pétri Guðfinnssyni að taka sér frí. Hann situr á samráðsfundum með fyrrv. dagskrárstjóra Hrafni Gunnlaugssyni um hvernig eigi að taka á málinu, en segir síðan við þjóð sína: Ég hef ekki komið nálægt því. Þá, hæstv. utanrrh., erum við væntanlega báðir sammála um það að í siðuðum ríkjum á slíkur forsrh. að víkja. Það erum við væntanlega báðir sammála um, að í siðuðum lýðræðisríkjum víkur slíkur maður ef sannleikurinn kemur í ljós. Og það er kannski skýringin á þessari sérkennilegu framgöngu hæstv. utanrrh. hér í dag að hann er að verja sjálft forsætisráðherraembætti Davíðs Oddssonar.