Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 20:30:29 (7218)

     Flm. (Páll Pétursson) :
    Frú forseti. Ég ætla ekki sem 1. flm. þessarar tillögu að fara að draga hana til baka. Hún mun að sjálfsögðu hljóta sína afgreiðslu hér á þinginu. Síðan geta menn farið að huga að öðrum leiðum þegar þessi leið hefur verið gengin. Mér fannst nú ekki vini mínum hæstv. menntmrh. farast hönduglega málsvörnin sín hér áðan og lifandis ósköp kenndi ég í brjósti um hann. Það er auðvitað fráleit hugmynd sem fram kemur í tillögu til rökstuddrar dagskrár sem hv. þm. Geir H. Haarde flutti hér áðan og hæstv. menntmrh. ýjaði að að í farvatninu væri. Hún ber náttúrlega vitni um það að hæstv. menntmrh. telur sig ekki þola rannsókn. Hann telur sína embættisfærslu ekki þola rannsókn. Það er ekki stórmannlegt að hengja þennan vesalings dagskrárstjóra út, þennan fyrrv. dagskrárstjóra og núv. framkvæmdastjóra og láta málið snúast bara um hann. Málið snýst ekkert bara um hann. Málið snýst um stjórnarhætti í landinu. Málið snýst um pólitískt siðferði í landinu þó að þessi aumingja maður, þessi góði listamaður sem þarna hefur tekið að sér framkvæmdastjórastarf í sjónvarpinu verði hér að einhverju fórnarlambi. Þetta sýnir bara það að mennirnir hafa vonda samvisku. Þeir þora ekki að láta kanna þetta mál og vísa því á Ríkisendurskoðun. Út af fyrir sig ber ég fyllsta traust til Ríkisendurskoðunar. Svona nefnd sem sett væri á stofn mundi að sjálfsögðu njóta atbeina Ríkisendurskoðunar til að kanna þá reikningslegu þætti málsins sem að Ríkisendurskoðun snýr. En Ríkisendurskoðun hefur þrengra starfsvið heldur en nefnd kosin samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar. Það er nú heila málið. Þess vega telja þessir herrar sig vera stikkfrí, ef þeir geta komið málinu bara á Ríkisendurskoðun.
    Varðandi það bréf sem hæstv. menntmrh. kynnti hér áðan og hann hefur skrifað Ríkisendurskoðun, þá er það gott svo langt sem það nær. Ríkisendurskoðun getur reyndar skoðað ýmislegt fleira í málinu heldur en þar var nefnt og kann að vera að farið verði fram á það líka úr því að þessi ríkisendurskoðunarleið er valin.
    Nefnd alþingismanna til þess að fara ofan í þetta mál er sá traustasti vettvangur sem við gætum til þess fengið. Nefnd alþingismanna hefði aðstöðu, kjörin skv. 39. gr. stjórnarskrár, og hefði allt annað valdsvið heldur en venjulegar þingnefndir því hún getur krafist skýrslna, hún getur krafist svara, hún getur krafist bréflegra og munnlegra upplýsinga sem venjulegar þingnefndir hafa ekki tök á. Svona þingnefnd gæti upplýst málið en hún ætti ekki að vera neinn dómari og hún ætti ekki að vera skipuð okkur hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og Svavari Gestssyni. Auðvitað mundu flokkarnir kjósa í hana einhverja menn og meiri hluti nefndarinnar yrði að sjálfsögðu úr stjórnarliðinu því að stjórnarliðið hefur fleiri fulltrúa á Alþingi. Hún mundi að sjálfsögðu starfa undir forustu annaðhvort sjálfstæðismanns eða alþýðuflokksmanns. Ég veit að við erum töluverðir karlar hérna í stjórnarandstöðunni en ég skil ekki hversu voðalegir vesalingar þetta eru sem hér hafa talað fyrir stjórnarliðið og treysta sér ekki til þess að mæta okkur á þessum vettvangi. Ég skil þetta ekki. Það er verið að draga fjöður yfir eitthvað, það er verið að reyna að fela. Það er sá leikur sem verið er að leika.
    Ég hafði um þetta og hef haft um þetta sterk orð. Ég hef talað um valdníðslu og ég hef talið vegið að þjóðfélagsgerðinni og ég ætla ekki að taka það aftur. Við Íslendingar höfum reynt að hafa hér siðmenntað samfélag. Hér hefur verið framinn siðlaus gerningur. Ef við látum þennan gerning standa og þessi siðlausi gerningur tekur langt fram öðrum stjórnvaldsaðgerðum, sem ekki hafa nú allar verið penar, ef við

látum hann standa, þá drögum við þjóðfélagsgerðina niður á lægra plan, þá erum við að vega að þjóðfélagsgerðinni og íslenskt þjóðfélag verður ekki samt eftir svona meðferð. Ef stjórnvöld haga sér eins og stjórnvöld hafa gert í þessu máli, ef þau komast upp með það óátalið, þá er ekki íslenskt þjóðfélag, íslenskt stjórnmálalíf það sama og það var fyrir mánuði síðan.
    Þáttur hæstv. menntmrh. er aumkunarverður í þessu máli. Það er ekki nóg með það að hann hafi látið kúga sig. Allur hans málflutningur er í rugli. Hann er orðinn margsaga í blöðunum um hvenær hann hafi séð bréfið. Hann þrætti fyrir bréfið í DV og nú sagði hann hér áðan að auðvitað hefði hann séð bréfið. Þetta er ekki trúverðugt yfirklór, það er nú síður en svo. Hann hefur látið hafa sig, með leyfi að segja, að fífli. Ég vorkenni manninum því ég veit að þetta er besti maður en örlögin voru honum svo óblíð að sitja til verka í þessari ríkisstjórn þar sem hann hefur lent í eða látið hafa sig til þess að vinna þessi verk og verða margsaga.
    Ég man eftir því að sá maður, sem hér hefur talað háværast ég held þau 18 ár sem ég er búinn að sitja á þingi af þingbræðrum mínum fyrr og síðar um siðspillingu, um samtryggingu, var Vilmundur heitinn Gylfason. Samtryggingin kom aldeilis berlega í ljós hér í kvöld þegar loksins tók til orða hæstv. utanrrh. Hann hefur hlaupið hér í ræðustól á eftir hverjum manni tvisvar sinnum í hvert skipti til þess að berja höfðinu við steininn, til þess að reyna að varpa sökinni á Hrafn, til þess að reyna að láta málið snúast um Hrafn. Málið snýst bara um miklu, miklu stærri og meiri hluti heldur en Hrafn. Málið snýst um pólitískan þroska okkar, um það siðferði hvað við leyfum okkur að gera í skjóli valdsins og hvaða takmörk við setjum okkur. Um það snýst þetta mál. Þó að umsvifamikill kvikmyndagerðarmaður hafi tekið embætti, sem var náttúrlega dæmalaust dómgreindarleysi að veita honum, þá er það ekki aðalatriðið. Aðalatriðið og kjarni málsins er sá að þessa stjórnarhætti höfum við ekki haft og við stjórnarandstæðingar a.m.k. viljum ekki innleiða þá hér. Ég hafði trú á því að Alþfl. hefði sómatilfinningu til þess að reyna að sitja hjá, til þess að reyna að liggja nú lágt í landinu. Nei, það varð ekki. Hæstv. utanrrh. veður hér fram fyrir skjöldu og nú er hann að bera blak, nú er hann kominn í buxurnar hæstv. forsrh. Nú er það forsrh. sem talar upp úr hæstv. utanrrh.
    Hæstv. utanrrh. talar um það að við viljum búa til einhvern dómstól með þessari rannsóknarnefnd. Það er nú síður en svo og hann ætti sannarlega að vera betur að sér í stjórnsýslu heldur en það, búinn að vera ráðherra í öll þessi ár og iðulega farið á fremstu grös. Ef til dómsmeðferðar þyrfti að koma, þá yrði það auðvitað landsdómur, sem við reyndar kusum hér fyrir nokkrum dögum síðan, sem fengi það mál til meðferðar. Það er hugsanlegt að starf þessarar nefndar leiddi til þess að landsdómur yrði kallaður saman og þá yrði það hans að dæma, ekki okkar Ólafs Ragnars Grímssonar eða Svavars Gestssonar sem hæstv. utanrrh. hefur þrástagast á að mundi taka sæti í þessari nefnd sem ég veit ekkert um hvort mundi verða.
    Frávísunin ber þess vitni að hæstv. ríkisstjórn telur þetta mál ekki þola dagsljósið. Hún er tilbúin að hengja út Hrafn Gunnlaugsson og fjármálaleg afskipti hans. En hún vill ekki láta ræða um siðferði sitt. Hún vill ekki láta tala um embættisgerninga sína. Það er pólitísk siðblinda sem fram kemur í verkum ríkisstjórnarinnar. Auðvitað vita það allir hér inni, auðvitað veit þjóðin það öll hvað sem menntmrh. segir, hvað sem utanrrh. segir, að rótin að þessu máli er frá hæstv. forsrh. og það skiptir engu máli þó að hæstv. forsrh. þegi, það skiptir bara engu máli. Hann mundi ábyggilega ekki bæta sig á því að tala neitt. Það er kannski skynasmlegast fyrir hann að þegja.
    Ég tel að hv. 8. þm. Reykn. hafi tekið nokkuð mikið upp í sig þegar hann hélt að forsrh. þyrfti að segja af sér fyrir það að hafa skrökvað. Hér hafa ráðherrar komist upp með það að skrökva án þess að segja af sér. Það er ekki búið að samþykkja það frv. sem ég hef borið fram um viðbótargrein í lögin um ráðherraábyrgð og þar af leiðandi geta menn skákað í því skjólinu. Það kann að vera að þeir hafi samið um það, þessir ,,sjentilmenn`` sem sömdu í Viðey um árið, að setjast á það frv. og vísa svo þessu frá líka. Það kann að vera að þarna lægju einhverjir þræðir á milli. Það kann að vera að þeim kæmi báðum betur að haldast í hendur eins og þeir gerðu þegar þeir fóru út í Viðey og gerðu ,,kúpp`` í þessu þjóðfélagi.
    Um þetta mál er auðvitað pólitískur ágreiningur. Sumir vilja þola stjórnarhætti sem birtast í þessum pólitíska gerningi, þessum siðlausa pólitíska gerningi, löglega en siðlausa pólitíska gerningi. Sumir vilja það ekki. Og hverjir eiga að gera upp pólitískan ágreining nema stjórnmálamenn?