Bréf menntamálaráðuneytisins til Norræna kvikmyndasjóðsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 13:35:39 (7228)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í tveimur dagblöðum í dag birtist viðtal við Knút Hallsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í menntmrn., um bréfaskriftir hans til Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins. Hann fullyrðir þar í fyrsta lagi að menntmrh. hafi séð umrætt bréf áður en það fór utan og fullyrðir það á báðum stöðunum. Mín spurning er: Er þetta rétt hjá ráðuneytisstjóranum? Hvernig stendur á því að hann fullyrðir þetta þrátt fyrir yfirlýsingar ráðherrans hér í gær?
    Í öðru lagi fullyrðir ráðuneytisstjórinn að bréfið hafi verið samþykkt á heilmiklum fundi, eins og það er orðað, sem haldinn hafi verið í lista- og safnadeild menntmrn.
    Í þriðja lagi fullyrðir hann að bréfið hafi verið samþykkt á fundi þar sem hafi verið fulltrúar Kvikmyndasjóðs, Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins þar sem fjallað hafi verið um málið.
    Í fjórða lagi fullyrðir ráðuneytisstjórinn að þetta sérstaka bréf hafi ekki einasta verið skrifað og sent heldur hafi verið ákveðið að ræða málið, ekki bara við sjóðinn heldur við menntamálaráðherra Norðurlandanna allra hvorki meira né minna, þannig að það stóð til samkvæmt þessum orðum að ,,stórveldið Hrafn Gunnlaugsson`` yrði til meðferðar á heildarfundi menntamálaráðherra Norðurlanda, að vísu óformlegum fundi. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Hvor segir satt, hann eða ráðuneytisstjórinn?