Bréf menntamálaráðuneytisins til Norræna kvikmyndasjóðsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 13:37:21 (7229)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Þeim sem vilja stimpla mig ósannindamann hefur bæst öflugur liðsauki þar sem er fyrrverandi ráðuneytisstjóri í menntmrn., ef rétt er eftir honum haft í tveimur dagblöðum í dag. Ég hef svo sem engu við að bæta það sem ég hef áður sagt að ég þekkti ekki þessi bréf. Ég þekkti ekki bréf Hrafns Gunnlaugssonar áður en bréf Knúts Hallssonar var sent til stjórnar Norræna kvikmyndasjóðsins. Ég þekkti heldur ekki til þessa heilmikla fundar sem á að hafa verið haldinn í ráðuneytinu. Ég er ekkert að gera því skóna að sá fundur hafi ekki verið haldinn. Hann hefur vafalaust verið haldinn. Ég var ekki á honum, enda hefur það svo sem hvergi komið fram heldur, og mér var alveg ókunnugt um þann fund eða hverjir sátu hann.
    Að ákveðið hafi verið að ræða málið á fundi norrænu menntamálaráðherranna, er ekki rétt. Það má vel vera að það hafi verið ákveðið á þessum heilmikla fundi að fara þess á leit við mig að ég tæki málið upp á fundi ráðherranna. Ég hef raunar greint frá því áður að ráðuneytisstjóri hafi farið þess á leit við mig. Það vill nú svo til að ég á í fórum mínum minnisblað þar sem þessa er farið á leit og ég hef skýrt frá því áður að það kom að sjálfsögðu aldrei til greina og var ekki gert Ég fór á fund menntamálaráðherra Norðurlanda, ég held að ég muni dagsetninguna rétt, fundurinn hafi verið 30. nóv., og það hvarflaði aldrei að mér að taka þetta mál upp á þeim fundi.