Bréf menntamálaráðuneytisins til Norræna kvikmyndasjóðsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 13:39:40 (7230)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Mér er að sjálfsögðu kunnugt um það af nokkurri reynslu að menntmrn. er heilmikið ráðuneyti. En að þaðan gangi út bréf sem eru ekki rútínubréf með þeim hætti sem var upplýst hér í gær og þar séu haldnir heilmiklir fundir án þess að ráðherrann frétti af því, þar sem eru auk þess fulltrúar, sérstakir embættismenn eru staddir á þessum fundi. Á þessum fundi var yfirmaður lista- og safnadeildar ráðuneytisins. Mér er kunnugt um það að þessi fundur fjallaði ekki um þetta bréf en bréfið var sýnt á þessum fundi og það kom fram mjög alvarleg athugasemd við þetta bréf á fundinum þar sem það var talið eðlilegra að bréf af þessu tagi færi ekki til Bengt Forslunds heldur til Ólafs Ragnarssonar sem situr sem fulltrúi Íslands í stjórn sjóðsins.
    Það hefur ekki komið fram heldur í þessu máli og ég vil bæta þeirri spurningu við til hæstv. menntmrh.: Telur hann eðlilegt að bréf til hans, klögumál frá samtökum kvikmyndagerðarmanna um þetta sama mál fari ekki einasta til Kvikmyndasjóðs og annarra skyldra aðila heldur einnig í afriti til forsrh. Íslands?