Sala m/s Heklu

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 13:43:34 (7235)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Hér kvað örlítið við annan tón hjá hv. þm. Það er rétt að það komu fram fyrirspurnir og ég veit ekki hvort á að kalla það tilboðsnafni þar sem farið var fram á feykilega styrki úr ríkissjóði í sambandi við áframhaldandi rekstur á skipum Skipaútgerðar ríkisins, en slíkar hugmyndir voru ekki uppi.
    Það barst ekkert tilboð um það eitt og sér að kaupa Esjuna fyrir 120 millj. kr. burt séð frá öðrum. Það var talað um verulega styrki áfram úr ríkissjóði til þessa rekstrar, en það var alls ekki þá í myndinni, enda hafði ríkissjóður ekki ráð á því að halda áfram að greiða 1 millj. á dag með rekstri Skipaútgerðar ríkisins og hefði ugglaust orðið meira með hliðsjón af því hvernig rekstur á öðrum strandflutningum hefur gengið síðan Skipaútgerðin var lögð niður eins og ég hélt að hv. þm. væri kunnugt. Hitt er auðvitað rétt hjá hv. þm. að það er lítils háttar styrkur vegna samgangna við Norðurfjörð en það eru engar 300 millj. á ári.