Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:26:03 (7265)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég hlýt að vekja athygli þingmanna á því að tillaga sú sem hér var flutt af okkur nokkrum stjórnarandstæðingum fjallar ekki bara um það að kanna fjárhagsleg samskipti framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins við sjónvarpið heldur líka við ráðuneyti menntamála og starfsemi á þess vegum. Það snýr m.a. að ráðherranum sjálfum og hlut hans í þessu máli öllu saman en bréf ráðherrans til Ríkisendurskoðunar snýr hins vegar einvörðungu að sjónvarpinu, ekki að hans ráðuneyti og starfsemi á þess vegum. Því er hér um formlegt yfirklór að ræða hjá ráðherranum þegar hann biður um athugun Ríkisendurskoðunar, enda er allur hinn siðræni þáttur málsins eftir, svo sem könnun á hagsmunatengslum þess manns sem hér um ræðir, framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins og ráðherra í ríkisstjórninni.
    Mér finnst þessi tillaga sem hér liggur frammi til rökstuddrar dagskrár vera í raun tilraun til valdbeitingar á Alþingi. Það er verið að bera okkur hin atkvæðum hérna, loka fyrir málið á Alþingi, stöðva umræðuna. Þeir sem það gera liðka ekki fyrir þingstörfum hér á Alþingi því hér er valdbeiting á ferðinni og menn verða að muna að æ sér gjöf til gjalda. Ég segi nei.