Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:42:50 (7274)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er löng hefð fyrir því, hæstv. forseti, eins og allir vita sem hér hafa átt sæti einhvern tíma að ræða undir liðnum gæsla þingskapa eða þingsköp allt sem lýtur að tæknilegri meðferð mála hér í þinginu. Hér hafa menn kvatt sér hljóðs undir þessum lið til þess að ræða beitingu tiltekinnar greinar þingskapanna í sambandi við frekari málsmeðferð þessa máls. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að menn skiptist á skoðunum um það hvort samkomulag geti orðið um það í þinginu að þessu máli verði fram haldið á grundvelli þessara heimildaákvæða þingskapalaganna sjálfra og ég kann ekki annan lið til þess að nota til að fjalla um slíkt hér á Alþingi.
    Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að þrír ræðumenn Alþfl. hafa í raun boðið upp á frekari athugun málsins á vegum Alþingis í þingnefndum. Það gerði fyrst hæstv. utanrrh. í umræðum í gær um tillögunna þegar hann að fyrra bragði og fyrstur manna nefndi ákvæði 26. gr. þingskapalaganna um að þingnefndir gætu sjálfar haft frumkvæði að úttekt af þessu tagi. Síðan gerist það í dag að tveir aðrir þingmenn Alþfl., hv. formaður þingflokksins og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson bjóða upp á þetta sama. Ég lít því svo á að fram sé komið tilboð af hálfu Alþfl. um að málið verði rannsakað í þingnefndum og ég fagna því tilboði og ég er sannfærður um að því verður tekið fegins hendi af öllum fulltrúum stjórnarandstöðunnar a.m.k. Þar með liggur í öllu falli fyrir skýr meiri hluti í þinginu sem vill að málið verði rannsakað með þessum hætti. Ég skildi atkvæðaskýringar talsmanna Alþfl. þannig að þeir greiddu atkvæði með þeim hætti sem þeir gerðu í trausti þess, vegna þess að þeir væru að bjóða upp á skoðun málsins í þingnefnd. --- Og hér er kinkað kolli og það er mjög mikilsvert að þessi skilningur liggi fyrir og hann er réttur. Þar með sýnist mér að málið hafi tekið þá stefnu að það verði ekki þaggað niður með þeim hætti sem einhverjir hafa e.t.v. ætlast til með atkvæðum sínum hér áðan, heldur muni þingnefndirnar, fjárln. og e.t.v. einnig menntmn., eða allshn. eða þær sem um þetta gætu fjallað efni málsins samkvæmt, taka þær til skoðunar og það er vel.
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur nú komið og menn þekkja sem hér eru hef ég nokkra reynslu í því að gera athugasemd við gæslu þingskapa, þakka engu að síður fyrir þá ókeypis kennslu sem hæstv. utanrrh. gerði tilraun til þess að veita mér og þá sérstaklega hæstv. forseta í þeim efnum og ég tek undir það með hv. 2. þm. Vestf. að það var fjarska ósmekklega að hlutunum staðið. Ég er sannfærður um að hann sem gamall kennari og örugglega góður veit að þetta er ekki skynsamleg leið til þess að ná sáttum í málum að haga sér með þeim strákslega hætti sem hann gerði í salnum hér fyrir augnabliki.
    Þessi umræða snýst ekki aðeins um það, virðulegi forseti, hvernig túlka beri 25. og 26. gr. þingskapalaganna. Hún snýst einnig um það hvort þessar greinar verða notaðar. Það eru tíðindin í þessari umræðu. Og það hefur komið fram, eins og ég skil málið, að það er meiri hluti á Alþingi fyrir því að nota

26. gr. Ég vil inna eftir því svo að það sé alveg skýrt, hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að hér hafi fulltrúar stjórnarandstöðuflokka og eins stjórnarflokks talað alveg skýrt í þeim efnum og ég vil spyrja hv. 5. þm. Austurl. hvort það sé ekki svo að hann muni í fjárln. standa að ákvörðun um að hún taki fjárhagsleg samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við sjónvarpið og fleiri stofnanir til sérstakrar athugunar.