Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 15:27:32 (7281)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegur forseti. Komið er til umfjöllunar eftir töluvert langan undirbúning og aðdraganda frv. til nýrra lyfjalaga. Efni þess hefur valdið verulegum umræðum og blaðaskrifum í aðdraganda þess að málið kemur til kasta Alþingis. Sýnir það með öðru að hér er um að ræða málefni sem er gríðarlega mikilvægt en jafnframt viðkvæmt. Þar koma við sögu hagsmunir ýmissa aðila en auðvitað síðast en ekki síst hagsmunir þeirra, sem þurfa að nota lyf auk að sjálfsögðu hagsmuna þess aðila sem greiðir stærstan hluta lyfjareiknings landsmanna, þ.e. hins opinbera. En þannig er með verslun með lyf að hún er á ýmsan hátt frábrugðin öðrum viðskiptum, þ.e. verslun með aðra vöru. Þess vegna eru alls staðar í siðuðum þjóðfélögum gerðar ríkari kröfur til viðskipta með þessa vöru en almennt gerist með aðra vöruflokka. Þar kemur tvennt til. Í fyrsta lagi er um að ræða varning sem er ekki aðeins vandmeðfarinn heldur getur á köflum verið hættulegur og þarf sérstaka faglega kunnáttu og þekkingu til að meðhöndla rétt. Í öðru lagi er það svo í það minnsta hér á landi að aðilinn sem greiðir fyrir lyfin er ekki sá sem notar þau og aðilinn sem greiðir fyrir lyfin er ekki sá sem ákveður hversu mikið skuli notað af lyfinu. Hér er því um að ræða samspil þess sem ávísar á lyfin, læknisins, í fyrsta lagi og í öðru lagi sjúklingsins, sem notar lyfin, og í þriðja lagi hins opinbera, sem greiðir fyrir þau að stærstum hluta í mörgum tilfellum. Það er af þessum sökum sem þetta er ekki jafneinfalt mál og ýmsir vilja gefa í skyn.
    Hér liggur fyrir frv., sem gerir ráð fyrir því að sameina í ein lög þá löggjöf sem nú er til á Íslandi um þessi málefni, þ.e. lyfjalög og lög um lyfjadreifingu. Inn í þetta koma svo jafnframt ýmis sjónarmið sem tengjast fyrirhuguðum samningi um Evrópskt efnahagssvæði og kalla á breytingar í þessum málaflokki.
    Nú er það þannig að í þeim samningi eru ekki sérstök ákvæði um það hvernig skipa skuli smásöludreifingu innan lands í hverju þeirra ríkja sem aðilar kunna að gerast að þeim samningi. Þar eru aðeins almenn ákvæði um að ekki sé mismunað á grundvelli þjóðernis eins og kunnugt er. En það skipulag, sem fyrir valinu verður í hverju ríki, er alfarið á ákvörðunarsviði þess og ræður auðvitað hvert ríki því hvernig þeim málum verður skipað hjá sér.
    Við höfum um langt árabil á Íslandi búið við lyfjadreifingarkerfi sem byggir á því að forseti Íslands úthlutar svokölluðum lyfsöluleyfum og enginn má selja lyf nema hafa slíkt forsetaleyfi til þess. Þessi leyfi hafa verið tiltölulega fá þó svo að ráðherra hafi í hendi sér að fjölga þeim og hafi gert á umliðnum árum með tilliti til búsetubreytinga, mannfjölgunar o.s.frv. Við erum með kerfi í smásöludreifingunni á Íslandi sem er orðið gamalt og vissulega að mörgu leyti úrelt. Spurningin í því efni er þá sú hvaða leið er skynsamlegust til að gera þar breytingar á. Það frv. sem liggur fyrir og er til umfjöllunar markar að sjálfsögðu þá stefnu sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa orðið ásáttir um í því efni.

    Þetta frv. hefur sætt sérstakri meðferð milli stjórnarflokkanna og er orðið að samkomulagsmáli milli þeirra og því liggur það fyrir að um þau atriði sem þetta frv. fjallar um er pólitískt samkomulag. Hins vegar er það auðvitað þannig í máli sem þessu þar sem um er að ræða margvísleg fagleg sjónarmið að ekki fer hjá því að fagnefnd þingsins, sem um þetta fjallar, heilbr.- og trn., kann að þurfa að skoða slíka þætti gaumgæfilega til þess að tryggja að allt sé eins og best verður á kosið í jafnvandasömum og vandmeðförnum málaflokki. Ég er þá að tala til að mynda um ákvæðin sem lúta að samhliða innflutningi lyfja. Ég tel t.d. að það sé grundvallaratriði þegar slíkur innflutningur verður heimilaður með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði að þannig sé að þeim málum staðið að slík lyf séu skráð og að þess sé gætt að ekki geti komið til þess að í gegnum slíkar leiðir komist hingað til landsins í almenna dreifingu fölsk lyf, eftirlíkingar eða annað þess háttar.
    Mér sýnist að frv. sé þannig úr garði gert að heilbrrh. í gegnum skráningu og að Lyfjaeftirlit ríkisins ásamt lyfjanefnd ríkisins sjái um að hér sé ekki hætta á ferðum. Ég nefni þetta sem dæmi um þau atriði sem fara verður í saumana á í hv. heilbr.- og trn.
    Ég vil einnig nefna nokkur önnur atriði sem eru svipaðs eðlis en eins og þegar hefur komið fram þá hefur hv. heilbr.- og trn. þegar byrjað að undirbúa sig undir það að fjalla um þetta frv. og eins og ég segi tel ég að vel geti komið til þess að samkomulag geti náðst um breytingar á þessu frv. í einhverjum atriðum án þess að þar verði um grundvallarbreytingar að ræða á þeirri stefnu sem mörkuð er í frv.
    Ég vek athygli á því sem segir í 1. gr. frv. og það er reyndar til undirstrikunar þess sem ég lét getið í upphafi að verslun með lyf er ekki það sama og verslun með venjulegar vörur. Ég vek athygli á því sem segir í 1. gr. frv. að lyfjadreifing er hluti af heilbrigðisþjónustu. Þetta er sérstaklega undirstrikað í upphafi frv. í greininni um markmið og yfirstjórn. Þar segir jafnframt: ,,Starfsmenn lyfjadreifingar skulu vinna með öðrum aðilum heilbrigðisþjónustunnar að þeim heilbrigðismarkmiðum sem stefnt er að hverju sinni``, að sjálfsögðu í samræmi við þær reglur sem gilda um Evrópskt efnahagssvæði eftir að það hefur tekið gildi.
    En ég ætlaði að víkja að nokkrum öðrum atriðum sem ég tel ástæðu til að drepa á og skýra sérstaklega. Það er ekki þannig með þessu frv. að gert sé ráð fyrir því að ríkið hefji samkeppni við einkaaðila á þessu sviði í stórfelldum stíl eins og hefur mátt skilja af ummælum einstakra aðila. Það sem um er að ræða að því er varðar apótekaþjónustu á sjúkrahúsum er að sjúkrahúsum verður gefinn kostur á því að afgreiða lyf, selja lyf, til sjúklinga sem eru að útskrifast og til göngudeildarsjúklinga. Með þessu er því verið að bjóða upp á þjónustu sem margir telja að hafi skort á til þessa en ég vil taka fram sem skoðun mína að ég tel sjálfsagt að sjúkrahús notfæri sér þá heimild sem um er að ræða í 34. gr. frv. og leiti útboða um slíkan rekstur og hagnýti sér þá sérþekkingu sem lyfsalar hafa í þessum efnum og það sé skynsamleg verkaskipting að bjóða slíka þjónustu út til þeirra sem hafa mesta reynslu á því sviði. Auk þess má gera ráð fyrir að það verði hagkvæmara en að taka með í reksturinn innan sjúkrahússins alla þá liði í rekstrarkostnaði sem ella þyrfti að gera því að sjálfsögðu liggur fyrir að í rekstri sjúkrahússapóteks sem stæði fyrir sölu til sjúklinga við útskrift þeirra eða göngudeildarsjúklinga þyrfti að taka með allan kostnað og aðgreina þann rekstur frá öðrum rekstri sjúkrahússins.
    Ekki er heldur rétt að ætlunin með þessu frv. sé að gefa færi á því að heilsugæslustöðvar geti í stórum stíl, jafnvel í Reykjavík, farið að stunda lyfsölu í samkeppni við apótek. Hins vegar er sá möguleiki fyrir hendi samkvæmt frv. að þar sem ekki fæst lyfsali til starfa á slíkum stöðum geti heilsugæslustöðin tekið að sér slíka þjónustu enda er það þá væntanlega það eina sem er praktískt í málinu, það eina sem skynsamlegt er að gera ef menn vilja hverfa frá þeirri skipan að annaðhvort læknar eða sveitarfélög eins og nú tíðkast sums staðar standi fyrir lyfsölunni. Ég hygg að menn séu almennt á því að sú skipan sé ekki eðlileg, a.m.k. ef aðrir möguleikar eru fyrir hendi, að læknar annist lyfsölu því að þar getur verið um að ræða beina hagsmunaárekstra eða þá að sveitarfélögin geri það. Heldur er þá sá möguleiki opinn að heilsugæslustöðvar á minni stöðum geti staðið fyrir þessari starfsemi. En auðvitað er þetta ekki aðalatriði þessa frv. vegna þess að um það er auðvitað ekki deilt að það á að reyna að tryggja hinum minni stöðum á landsbyggðinni viðunandi þjónustu á þessu sviði og það hefur verið gert með ýmsum praktískum lausnum til þessa eins og ég hef vikið að. Ekki er hugmyndin að hverfa frá því að mæta þörfum hinna minni staða í þessu tilliti. Ég vek athygli á því að gert er ráð fyrir því samkvæmt þessu frv. að lyfsalar geti rekið útibú, fleiri en eitt, í sveitarfélögum þar sem ekki er grundvöllur fyrir sjálfstæðri lyfjaverslun og tekin eru af tvímæli um það í frv. að þessi heimild sé fyrir hendi og að hér geti verið um að ræða fleiri en eitt útibú ef því er að skipta.
    Hins vegar að því er varðar það atriði frv. sem mestar umræður hafa staðið um, þ.e. þá grein frv. sem gerir ráð fyrir auknu frelsi í lyfsölu, er um það að segja að það hefði mátt hugsa sér að fara aðrar leiðir í þessu efni, t.d. þá að hafa það ekki sem skilyrði að lyfjafræðingur stæði fyrir rekstrinum heldur gæti hvaða fyrirtæki sem væri fengið lyfsöluleyfi með því skilyrði einu saman að það hefði lyfjafræðing í þjónustu sinni. Sú leið er hins vegar ekki farin hér heldur er þetta bundið við lyfjafræðinga. Ekki geta aðrir fengið þessi lyfsöluleyfi en lyfjafræðingar sem uppfylla ákveðin skilyrði. Eflaust má færa rök fyrir því að rétt sé að ganga lengra í þessu efni. Ég tel hins vegar að hér sé farin skynsamleg millileið að þessu leyti þó að eflaust sýnist sitt hverjum um það atriði.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því í þessari grein að lyfjafræðingur sem starfrækir lyfsölu getur að sjálfsögðu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar ráðið því sjálfur í hvaða formi hann rekur fyrirtæki sitt. Í dag er það þannig að menn verða að reka apótek í eigin nafni sem einkafyrirtæki en samkvæmt þessu er það svo að kjósi apótekari eða lyfsali frekar að reka fyrirtæki sitt sem hlutafélag er ekkert sem stendur í vegi fyrir því ef viðkomandi aðili uppfyllir skilyrði hlutafélagalaga að öðru leyti. Kjósi hann að velja annað rekstrarform eru þeir möguleikar einnig fyrir hendi.
    Hins vegar má jafnframt spyrja að því í sambandi við verðlagningu lyfjanna í kaflanum um það efni, sem er XIV. kafli frv., hvort eðlilegt sé að verðlagning lyfja, sem seld eru án lyfseðils, skuli vera frjáls og það skuli vera hámarksverð á öðrum lyfjum. Það mætti hugsa sér að það hámarksverk væri eingöngu það verð sem hið opinbera greiddi en að öðru leyti væri verðlagning á slíkum lyfjum einnig frjáls. Sú leið er hins vegar ekki farin í þessu frv. og þarna er sett inn hámarksverðlagsákvæði, m.a. til að tryggja jafnræði í lyfjakostnaði milli landshluta en einnig jafnframt vegna þess að mínum dómi að menn vilja ekki stíga of stór skref í einu í þessu efni. Við verðum auðvitað að gera okkur grein fyrir því að hér er verið að véla um afskaplega vandmeðfarin og viðkvæm svið þar sem ekki er aðstaða til að taka stór skref eða gera byltingarkenndar breytingar í einu vetfangi. Þess vegna er þessi leið valin að því er varðar lyfjaverðið að sett er ákveðið hámarksverð á lyfseðilskyldum lyfjum. Hins vegar kemur fram í grg. að telji menn sér kleift að selja undir því hámarksverði með því að lækka sína eigin álagningu þá getur að sjálfsögðu enginn bannað mönnum það.
    Síðan eru tekin af tvímæli í eftirlitsákvæðum frv. um að Samkeppnisstofnun eigi að fylgjast með því að menn fari í einu og öllu eftir ákvæðum samkeppnislaganna í þessu efni.
    Ég hef drepið á nokkur atriði sem ég tel að ástæða sé til þess að koma inn á. Ég vek athygli á því að Lyfjaeftirlit ríkisins mun hafa samkvæmt frv. þessu gríðarlega mikilvægt og umfangsmikið verk með höndum. Ég treysti því að þannig verði búið að Lyfjaeftirlitinu að það geti unnið störf sín þannig að það standi undir öllum þeim skuldbindingum sem á það eru lagðar og skyldum samkvæmt þessu frv. en vissulega mætti hugsa sér að draga eitthvað úr þeim kvöðum sem á þá stofnun eru lagðar í frv. með því að flytja yfir á aðra aðila. Til að mynda mætti hugsa sér að athugun á verðlagi lyfja í öðrum löndum flyttist yfir til lyfjagreiðslunefndar en ég tel það í sjálfu sér ekki stórmál hvorum megin hryggjar slíkt verkefni liggur, en það er hins vegar annað dæmi um mál sem ég tel rétt að fái faglega meðferð í heilbr.- og trn. og sé rætt við þá aðila sem þar koma við sögu eins og t.d. Lyfjaeftirlitið og lyfjanefnd ríkisins sem svo verður væntanlega kölluð.
    Ég lét hér getið lyfjagreiðslunefndarinnar sem er nýtt fyrirbæri í þessum lagatexta, kemur að hluta til í staðinn fyrir núverandi lyfjaverðlagsnefnd. Í ákvæðum um þessa nefnd segir eingöngu að hana skipi fimm menn sem ráðherra velur til fjögurra ára en hins vegar taki fulltrúar samtaka lyfsala og samtaka lyfjaheildsala sæti í nefndinni þegar hún fjallar um hámarksverð á lyfjum. Þarna mætti hugsa sér að hafa fyllri ákvæði þó svo að þau séu ekki inni í frv. Ég beini því til nefndarinnar að kanna það hvort ástæða kunni að vera til þess.
    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég einungis segja það að sú stefnumörkun, sem er að finna í frv., er í samræmi við ályktanir landsfundar Sjálfstfl. undanfarin ár, til að mynda ályktanir landsfundarins 1991 þar sem var farið ítarlega í saumana á þessum málaflokki. Þess vegna er alrangt að halda því fram að Sjálfstfl. hafi verið að beita sér gegn því að frv. kæmi fram. Við teljum að frv. sé í aðalatriðum í samræmi við stefnu flokksins eins og hún var samþykkt í þessum málum á síðasta landsfundi og þess vegna sé rétt að breyta lögum landsins í átt við það sem þetta frv. gerir ráð fyrir og í samræmi við þá stefnu sem þar er mörkuð. En eins og ég sagði, ég reikna ekki með því að heilbrrh. geri ráð fyrir því að þetta frv. sé óbreytanlegt, það þurfi að fara óbreytt úr heilbr.- og trn. Ég vek þá sérstaklega athygli á ýmsum faglegum þáttum þessa máls sem ég hef drepið á. En hinni pólitísku stefnu varðandi grundvallaratriði málsins um að auka á frjálsræði í þessum málaflokki verður að sjálfsögðu ekki breytt og það er það sem er aðalatriði þessa frv.