Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 15:55:49 (7285)

     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta eru svolítið furðulegar vangaveltur hjá hv. þm. vegna þess að ekki er ætlunin með þessu frv. að opna fyrir það að heilsugæslustöðvarnar stundi slíkan rekstur almennt séð. Þetta er undantekningarmöguleiki þar sem um er að ræða staði þar sem ekki fást aðrir til þess að taka að sér þessa þjónustu. Til þess að taka af öll tvímæli þá er ég til í það fyrir mitt leyti í samvinnu við hv. þm. að sjálfsögðu að taka hér af skarið ef þess þarf. Hins vegar held ég ekki að yfirmönnum eða stjórnum heilsugæslustöðva almennt, t.d. í Reykjavík, detti yfirleitt í hug að fara að leggja í kostnað sem því mundi fylgja að fara að setja upp slíkan rekstur þegar þjónustan á þessu sviði er jafngóð og hún reyndar er og á vonandi eftir að batna með ákvæðum þessa frv. þegar það kemur til framkvæmda í öðrum greinum þess.