Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 16:41:11 (7288)

     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Frú forseti. Lyf eru auðvitað ekki eins og hver önnur verslunarvara eins og fram hefur komið í umræðunum en þegar búið er að gefa út lyfjaávísun, þá eigum við að beita þeim tækjum sem möguleg eru til þess að fá lyfið gegn lyfjaávísuninni á sem hagstæðustu verði. Og þau tæki sem við höfum best í þessu sambandi eru hinn frjálsi markaður og við eigum að beita honum. En hann er með þeim ósköpum gerður að við getum ekki sagt fyrir um það með fullri vissu hvernig hann mun hegða sér og þess vegna segist ég vona að frv. hæstv. heilbrrh. ef það verður að lögum muni leiða til lægra lyfjaverðs. Það er óþarfi fyrir hv. 6. þm. Vestf. að hæðast að mér fyrir að haga orðum mínum á þennan hátt.
    Samkeppni þýðir ekki endilega að það séu fleiri en eru núna á markaðnum í dag sem muni vera þar í framtíðinni. Það getur verið samkeppni milli þeirra sem þar eru fyrir í dag og aðrir telji sér ekki hag í því að koma inn í þá samkeppni. Það er ekki endilega víst að það muni fleiri kaupa lyf þó að aðgengið sé meira. Það er hugsanlegt að það verði um hin svokölluðu lausasölulyf sem ekki eru lyfseðilsskyld eða fólk vilji eyða peningum sínum frekar í þau heldur en eitthvað annað. En hvað varðar lyfseðilsskyldu lyfin, þá eru það læknarnir sem eiga að ávísa á þessi lyf og eiga að halda aftur af óhóflegri notkun þeirra.
    Hér á landi höfum við, virðulegi forseti, reynt að hafa skatta almenna. Við höfum ekki sett skatta á tilteknar stéttir. En ef hv. 6. þm. Vestf. vill leggja sérstakan skatt á apótekara, þá er eins víst að sá skattur verði kenndur við hv. þm. Jónu Valgerði.