Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 17:51:32 (7295)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mikið lifandis skelfing er það þreytandi þegar mönnum hitnar í hamsi þegar þeir finna að þeir eru á villigötum að þá koma þeir alltaf með sömu rökin: þingmaðurinn veit ekki, þingmaðurinn skilur ekki. Ég þekki afar vel öll þingskjöl þessa árs eins og allra annarra ára, hæstv. ráðherra og hæstv. forseti, og ég hygg að ég lesi betur þingskjöl en flestir aðrir þingmenn í þessum góða sal.
    Það er alveg dæmalaust að menn skuli enn þá nenna að spyrja ævinlega: Er þetta skoðun þingflokksins? Svo vill til að í þingflokki okkar höfum við fullt leyfi til að vinna samkvæmt því drengskaparheiti sem við skrifuðum hér undir, og taka afstöðu til mála samkvæmt okkar eigin sannfæringu.
    Lengi, lengi höfðu menn tilhneigingu til þess að tala illa um og kannski verr um heildsala en nokkurt annað fólk. Heildsalar eiga alveg rétt á sér eins og hverjir aðrir og apótekarar líka jafnvel þó þeir hafi afskaplega góðar tekjur. Minn heimabær hefur t.d. notið mikils góðs af gróða apótekarans í bænum og skal hann hafa eilífar þakkir fyrir fallega listasafnið sem hann gaf bænum. En málið snýst bara ekki um þetta og engin rökvilla er í því, hæstv. forseti, að segja að fólk noti ekki lyf nema það þurfi á þeim að halda.

Það á við um allflest venjulegt fólk. Auðvitað er til fólk sem misnotar lyf alveg eins og fólk sem misnotar áfengi. En sem betur fer er það nú fólk sem við teljum kannski ekki alveg heilbrigt og við því er brugðist á annan hátt. En það sem ég óttast um eru unglingarnir sem án þess að hafa mikið vit til þess að velja og hafna munu eiga auðveldari aðgang að lyfjum þegar þau eru orðin verslunarvara sem er auglýst. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að svara skætingi ráðherrans.